Úrslitaleikur Fótbolta.net 2019 - Breiðablik mætir Stjörnunni í Fífunni á sunnudaginn
02.02.2019Síðasti leikur meistaraflokks karla í Fótbolta.net mótinu 2019 verður í Fífunni kl. 18:30 á sunnudaginn. Þá mætum við nágrönnum okkar frá Garðabæ í úrslitaleik Fótbolta.net mótsins 2019.
Búast má við hörkuleik enda líta bæði lið á nágranna sína sem sinn aðalkeppinaut. Liðin mættust síðast í leik í úrslitaleik Mjólkurbikarsins um miðjan september í fyrra - í leik sem Stjörnumenn unnu eftir framlengingu og ABBA vítaspyrnukepnni. ABBA fyrirkomulag hefur nú verið lagt af.
Tölfræði
Þrátt fyrir hnífjafna tölfræði í 56 innbyrðis mótsleikjum frá upphafi (23-10-23) hefur Blikaliðið átt í basli gegn liði Stjörnumanna undanfarin 2 ár. Fyrir utan úrslitaleik í BOSE mótinu 2017 meira> hefur okkur ekki tekist að vinna Stjörnuliðið í síðustu 7 mótsleikjum. meira> Síðasti sigurleikur okkar manna gegn Stjörnunni var 2:1 sigur haustið 2016 í miklum baráttuleik um Evrópusæti.
Fótbolti.net mót
Liðin hafa mæst fjórum sinnum innbyrðis í Fótbolta.net mótinu – þar af þrisvar í úrslitaleikjum mótsins. Fyrst árið 2012 í úrslitaleik sem Blikar unnu 3:2 meira>. Árið 2015 mætast liðin aftur í úrslitaleik þar sem Blikar vinna 1:2 sigur meira>. Árið 2016 eru liðin saman í riðli. Stjarnan vann þann leik 3:2 meira>. Í fyrra töpuðu Blikar 0:1 fyrir Stjörnunni í fyrsta leik ársins í Fótbolta.net mótinu meira>.
Sigurvegarar Fótbolta.net mótsins frá upphafi:
2011: Keflavík
2012: Breiðablik
2013: Breiðablik
2014: Stjarnan
2015: Breiðablik
2016: ÍBV
2017: FH
2018: Stjarnan
2019: ?
Breiðablik hefur unnið Fótbolta.net mótið oftast allra liða. Blikasigur á sunnudaginn tryggir okkur bikarinn - í fjórða sinn. Hinsvegar hefur Stjarnan titil að verja. Stjörnusigur tryggir þeim bikarinn í þriðja sinn.
Við hvetjum því alla Blika að mæta í Fífuna á sunnudaginn og njóta knattspyrnuleiks tveggja góðra liða í skjóli frá veðri og vindum.
Leikurinn verður sýndur í beinni á YouTube rás BlikarTV fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Áfram Blikar, alltaf alls staðar!