- Slatti af stuðningsmönnum Blika mætti þrátt fyrir þennan sérkennileg leiktíma og þeir studdu vel við bak okkar manna í dag í 14°C hita og sólarglennum. Mynd: HVH
- Á 70. mínútu náðu þeir svo að minnka muninn þegar Árni hirti boltann af varnarmanni og skeiðaði með hann upp að vítateig með varnarmenn á hælunum. Þar lét hann vaða og í markinu hafnaði boltinn, alveg út við stöng. Vel gert hjá Árna. Mynd: HVH
..vaknað upp við vondan draum
04.08.2013Eftir stanslausan þeyting á milli fjalægra lengdar- og breiddarbauga, og heimsálfa á milli undanfarna daga var komið að einum mikilvægasta leik sumarsins hjá okkar mönnum. Andstæðingurinn Framarar og úrslitaleikurinn í Borgunarbikarnum í húfi. Af alkunnri lipurð höfðu yfirvöld íslenskra knattspyrnumála sett leikinn á þann tíma sem best hentaði Blikum, m.t.t. til annarra verkefna liðsins (þetta er kaldhæðni svo það sé á hreinu). Maður hélt satt að segja að það væri metnaðarmál KSÍ að íslensku liðin gætu lagt allt undir í Evrópukeppnum. En dyr KSÍ virðast kyrfilega læstar þegar kemur að skynsamlegum og sjálfsögðum ívilninum fyrir lið sem eru að standa sig vel á erlendum vettvangi, því hvorki Blikar né FH hlutu náð fyrir augum mótanefndar að þessu sinni. Bara gefið langt nef. Að ekki sé nú talað um þessa labbakúta sem eru nefndir stuðningsmenn og áhorfendur? Greinilega algjört núll í augum KSÍ því það liggur eiginlega í augum uppi að sennilega hefðu fleiri getað mætt á undanúrslit BORGUNAR bikarsins ef leikurinn hefði verið á morgun, eða kl. 20:00 í kvöld. En ekki kl.16 á sunnudegi um verslunarmannahelgi. Af hverju var leikurinn ekki bara kl. 09 í morgun? Hvar liggur fiskur undir steini? Hvaða hagsmuna er KSÍ að gæta? Þetta er ekkert annað en hneyksli sem félögin (Blikar og FH) hljóta að taka upp innan hreyfingarinnar og á næsta KSÍ þingi. En látum það ekki trufla okkur mínútunni lengur. Það eru næg önnur og skemmtilegri verkefni framundan.
En leikurinn var semsagt í dag og Ólafur Helgi gerði enn breytingar á byrjunarliðinu frá leiknum gegn Aktobe. Elfar Árni, Viggó, Árni Vill og Elvar Páll komu inn í byrjunarlið í stað Andra, Nichlasar, Þórðar og Tómasar Óla. Þrír fyrrnefndu allir á bekknum en Tommi utan hóps vegna smávægilegra meiðsla.
Gísli Páll Helgason var hinsvegar kominn í leikmannhópinn, í fyrsta sinn síðan hann var þrumaður niður á móti Val í úrslitum lengjubikarsins í vor. Það er gleðiefni.
Byrjunarliðið okkar var því þannig skipað;
Gunnleifur
Viggó - Sverrir Ingi – Renée - Kristinn J
Elfar Árni - Finnur Orri (F) - Guðjón Pétur - Elvar Páll
Ellert - Árni Vill
Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Nichlas Rohde
Gísli Páll Helgason
Andri Rafn Yeoman
Þórður Steinar Hreiðarsson
Olgeir Sigurgeirsson
Jökull I Elísabetarson
Sjúkralisti; Rafn Andri Haraldsson – (Tómas Óli)
Leikbann; Enginn
Slatti af stuðningsmönnum Blika mætti þrátt fyrir þennan sérkennileg leiktíma og þeir studdu vel við bak okkar manna í dag í 14°C hita og sólarglennum. Vindur hægur af norðri en fór eilítið vaxandi eftir því sem á leið leikinn. Semsagt alveg óhætt fyrir kerrur, hjólhýsi og aðra aftanívagna.
Blikar byrjuðu þennan leik hinsvegar ekki af sérstökum krafti og það var eitthvað slen yfir mönnum. Gáfu eftir í návígjum og vorum ólíkir sjálfum sér. Framararnir pressuðu framarlega og voru snarpari í flestum aðgerðum. Innan nokkurra mínútna varð mikill darraðardans í teig okkar manna en Elfar Árni náði að bjarga á síðustu stundu. Svo dró til tíðinda á 10 mínútu þegar Reneé gaf stutta sendingu á Árna. Leikmaður Fram var samstundis mættur og náði boltanum. Lék upp að vítateig og gaf þar á samherja sem var kolrangstæður og það sást mjög vel í sjónvarpinu. Sá rangstæði lét það ekki trufla sig og skaut á markið. Gunnleifur varði skotið en boltinn barst til annars Frammara sem sendi boltann rakleitt í markið. Ljótt mark og kolólöglegt, en það var látið standa. Blikar voru reyndar mjög ósáttir við það hvernig leikmaður Fram náði boltanum af Árna og töldu um brot að ræða, en dómai leiksins, Garðar Örn, skeytti ekkert um það.
1-0 fyrir heimamenn og þó markið og aðdragandi þess væri meira en vafasamt, höfðu Blikar alls ekki verið sannfærandi og þá eru svona uppákomur oft handan við hornið.
Eftir þetta girtu Blikar sig aðeins í brók og náðu að halda boltanum betur. Meiri hreyfing kom á liðið allt og það skilaði nokkrum hálffærum og hornum en engum afgerandi færum hvað þá marki. Leikurinn semsagt í jafnvægi og einmitt þá urðu Sverri á sjaldséð mistök á afleitum stað sem urðu til þess að leikmaður Fram braust inn í teig og féll þar í viðskiptum við Sverri. Dómarinn benti umsvifalust á vítapunktinn og Gunnleifur kom engum vörnum við í vítinu. Staðan skyndilega orðin 2-0 og nú var sannarlega á brattann að sækja.
Þannig var staðan í hálfleik og alveg dagljóst að Blikar yrðu að gera mun betur í síðari hálfleik ætluðu þeir sér að ná einhverju út úr leiknum, enda búnir að gefa Frömurum 2 mörk í forgjöf.
Blikar gerður strax tvær breytingar á liðinu í hálfleiknum þegar Nichlas og Andri komu inn í stað Guðjóns og Elvars Pál. Þeir hófu svo síðari hálfelik af krafti og innan 30 sékúndna var Elfar árni kominn í gætt færi í vítateig Fram en skot hans lak framhjá markinu. Næstu mínúturnar voru Blikar í stórsókn, meira og minna. Árni Vill átti skalla rétt framhjá eftir horn. Sverrir skallaði sömuleiðis framhjá eftir aukaspyrnu og því næst var skoti Elfars Árna bjargað á línu og enn björguðu Framarar þegar markvörður þeirra varði hörkuskot Ellerts. Frammarar áttu líka sín augnablik eftir skyndisóknir en þau voru færri og þeim fór fækkandi eftir því sem leið á hálfleikinn. Olgeir kom nú inn í stað Viggós og enn hertu Blikar róðurinn. Á 70. mínútu náðu þeir svo að minnka muninn þegar Árni hirti boltann af varnarmanni og skeiðaði með hann upp að vítateig með varnarmenn á hælunum. Þar lét hann vaða og í markinu hafnaði boltinn, alveg út við stöng. Vel gert hjá Árna. Blikar nú komnir með líflínu og tuttugu mínútur til leiksloka. Á næstu tíu mínútum fengu svo Blikar 3 góð færi til að jafna. Fyrst fékk Nichlas mjög gott færi, besta færið af þessum 3, en markvörðurinn varði skotið af stuttu færi með fótunum. Þá var komið að Elfari Árna að skalla en sami markvöður bjargaði með góðu úthlaupi. Þarna vantaði að fleiri fylgdu með inn til að hirða frákastið. Svo átti Ellert enn eitt skotið sem varið var í horn. Markvörður Fram var sannarleg erfiður ljár í þúfu í dag og til að gera langa sögðu stutta þá tókst Blikum ekki að finna leiðina framhjá honum það sem eftir lifði leiks. Blikar hentu Sverri fram í sóknina og Finnur fór í miðvörðinn á meðan en því miður gekk það ekki heldur.
Blikar eru nú úr leik í Borgunarbikarnum. Það er leitt því hann ætluðum við sannarlega að geyma hjá okkur í vetur. Það bíður betri tíma. Við óskum hinsvegar Hauki Baldvins og félögum, góðs gengis í úrslitaleiknum og væntum þess að Haukur verði okkur til sóma, nú sem endranær.
Blikar fá ekki langa hvíld, því n.k. fimmtudag er seinni leikurinn gegn Aktobe í 3ju umferð undankeppni Evrópudeildarinnar. Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli þar sem Kazakharnir samþykktu ekki að leika á Kópavogsvelli. Þar vantar víst flóðljós og sitthvað fleira að sögn.
Nú þurfa leikmenn að gleyma þessu svekkelsi, hvíla sig vel og safna kröftum því þeir geta náð sögulegum árangri ef þeir ná að slá Aktobe út á fimmtudaginn. Það væri magnað og þeir geta það með samstillitu átaki og góðum stuðningi áhorfenda (það erum við hin).
Látum drauminn rætast !
Áfram Breiðablik !
OWK