- Byrjunarlið Breiðabliks í leiknum. Mynd: HVH
- Það var gríðarlega góð stemmning á vellinum. Mynd HVH
- Guðjón Pétur Lýðsson skoraði fyrsta markið úr víti. Mynd: HVH
- Armþór Ari Atlason skoraði mark. Staðan 2-0. Mynd: HVH
- Elfar Freyr Helgason innsiglaði 3-0 sigur. Mynd: HVH
- Oliver Sigurjónsson og Krsitinn Jónsson stóðu sig frábærlega í leiknum. Mynd: HVH
Var einhver að banka?
01.06.2015Blikar mættu í kvöld ríkjandi Íslandsmeisturum Stjörnunnar í 6. umferð PEPSI deildarinnar. Bæði lið með 9 stig, stigi á eftir forystusauðunum, og 3 stig því kærkomin til að halda í við þá. Veðrið var alveg þokkalegt, nokkuð stíf norðaustanátt og hún hélst svo til allan leikinn. Skyggni allgott í sólskininu og alveg skellibjart þannig að aðstæður voru kannski ekki sem allra bestar fyrir stjörnur að láta ljós sitt skína. Hiti vel yfir meðallagi líðandi maí mánaðar eða heilar 10,5 °C og hélst til leiksloka. Blikar með óbreytt byrjunarlið frá sigrinum upp á Skaga.
Byrjunarlið Blika;
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)
Arnór Aðalsteinsson (F) -Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Kristinn Jónsson
Höskuldur Gunnlaugsson - Guðjón Pétur Lýðsson - Andri R. Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Arnþór Ari Atlason - Ellert Hreinsson
Varamenn:
Aron Snær Friðriksson(M)
Atli Sigurjónsson
Olgeir Sigurgeirsson
Kári Ársælsson
Guðmundur Friðriksson
Gunnlaugur Hlynur Birgisson
Davíð Kristján Ólafssson
Sjúkralisti: Óstaðfest
Leikbann: Enginn
Það er skemmst frá því að segja að Blikar byrjuðu þennan leik af miklum krafti og tóku fljótt öll völd á vellinum. Gestirnir virkuðu afar stressaðir á boltanum og voru hikandi í flestum sínum aðgerðum á meðan Blikar réðust á alla bolta af krafti, unnu flest návígi og hirtu flesta lausa bolta. Og smátt og smátt, þegar menn voru búnir að fínstilla fyrir vindi, náðu okkar menn spilinu í gang, en gáfu þó ekkert eftir í baráttunni. Strax á 8. mínútu komst Guðjón Pétur í ákjósanlega stöðu eftir flotta sendingu Arnórs, en fyrsta snerting sveik hann aldrei þessu vant og hann missti boltann í hendur gestanna.En það þurfti ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu því skömmu síðar prjónuðu Höskuldur og Kristinn sig í gegnum vörn gestanna og Kristinn komst inn í teig og var felldur um það bil sem markið blasti við. Vítaspyrna dæmd og úr henni skoraði Guðjón Pétur með föstu skoti í stöng og inn við gríðarlegan fögnuð stuðningsmanna sem fjölmenntu á völlinn í kvöld. Og nú voru menn að velta því fyrir sér, sumir, hvort Blikar myndu láta þetta gott heita í bili og bakka, eins og gegn KR á dögunum, eða hvort þeir myndu halda áfram á sömu braut og reyna að láta kné fylgja kviði. Og sú varð raunin og Blikar bættu við marki örfáum mínútum síðar þegar Kristinn átti sendingu frá miðlínu vallarins inn á vítateig Stjörnunnar, c.a. 36 metra, yfir aftasta varnarmann gestanna og bak við hann var mættur Arnþór Ari og hann tók boltann á kassann í rólegheitunum og lagði hann svo framhjá færeyska landsliðsmarkmanninum eins og ekkert væri sjálfsagðara. Og nú hefði þakið farið af kofanum ef þetta hefði verið í gömlu Njálsbúð, slík voru fagnaðarlætin í stúkunni. Tvö mörk á innan við 5 mínútum og meistarar síðasta árs vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið. Þegar hér var komið sögu var Gunnleifur ekki enn búinn að snerta boltann í opnum leik en kannski búinn að taka eitt útspark.
Blikar héldu áfram að þjarma að Stjörnumönnum næstu mínúturnar og hver sóknin rak aðra og hvað eftir annað skapaðist hætta við mark gestanna, þannig að næsta mark lá í loftinu en lét þó bíða eftir sér. En svo kom að því að eitthvað lét undan en aðdragandinn var eiginlega bara enn ein staðfesting á að kvöldið yrði sennilega mjög erfitt fyrir gestina. Með stuttu millibili tók Kristinn tvær algjörlega misheppnaðar hornspyrnur, gerði annars ekki marga feila í kvöld, og í bæði skiptin sendu varnarmenn gestanna boltann rakleitt til hans aftur. Í fyrra skiptið sendi hann háan bolta inná fjærstöng sem markmaður gestanna greip, en í því seinna lét hann vaða á markið og skaut bylmingsskoti sem markvörðurinn varði. Hann hélt þó ekki boltanum og Elfar Freyr var fyrstur að átta sig, hirti frákastið og skilaði því rakleitt í netið. Hviss. Bang.Búmm. 3-0. ,,Ég hélt ég myndi fríka út“ sungu Stuðmenn hér í den og það átti vel við núna, slíkur var fögnuður heimamanna þegar markaskorarinn tók sprettinn og renndi sér svo langleiðina út af vellinum í átt að stúkunni, til að fagna markinu. Og það var ekki allt búið enn. Áður en hálfleikurinn var allur náði aðstoðardómarinn að taka af okkur enn eitt markið með ranglega dæmdri rangstöðu á Guðjón Pétur, og svo beit aðaldómarinn höfuðið af skömminni með því veifa gulu spjaldi á Guðjón fyrir að skora. Má þetta?
Skömmu síðar fékk Arnór svo bylmingsskot í höfuðið og vankaðist við og þurfti að yfirgefa völlinn. Í hans stað kom Guðmundur Friðriksson og stóð sig prýðilega. Vonandi verður Arnór fljótur að jafna sig.
Í hálfeik runnu snúðarnir ljúflega niður með ylvolgum kaffisopanum og af því þetta var sjónvarpsleikur á Stöð 2 gafst nú í hálfleik færi á að skoða ,,rangstöðudóminn“ og heyra spekingana fabúlera um eitt og annað í glænýja 65“ Philips sjónvarpinu sem er nú komið upp í félagsaðstöðunni . Sú skoðun staðfesti að dómurinn var rangur. Annars voru Blikar almennt mjög hressir með sína menn og Alfreð Finnbogasyni fannst Blikarnir frábærir í fyrri hálfleik en var ekki mikið í snúðunum. Svo voru sumir sem voru minna hrifnir af grillstækjunni sem var eiginlega alveg óboðleg. Það þarf að færa grillið frá loftinntakinu. Takk.
En minnugir þess að hafa a.m.k. einu sinni misst 3-0 niður í jafntefli á þessari öld (á móti Fram) voru menn helvíti fúlir að hafa ekki fengið fjórða markið.
En þó staðan væri allgóð þurfti nú samt að spila síðari hálfleikinn og það gerðu okkar menn með sóma. Gáfu ekkert eftir og stjórnuðu leiknum eins og fyrr. Voru kannski alveg jafn snarpir og í fyrri hálfleik en hefðu engu að síður getað gert 2-3 mörk. Höskuldar var tvívegis kominn í góð færi og Kristinn og Ellert komust sömuleiðis í góð færi en inn vildi boltinn ekki. Blikar skiptu svo Atla Sigurjónssyni inn fyrir Arnþór Ara og ennfremur kom Davíð Kristján inn fyrir Höskuld. Olli sat kyrr. Blikar sóttu enn og Kristinn var dæmdur rangstæður á 91 mínútu og þóttu það tiðindi. Man ekki eftir að hann hafi verið dæmdur rangstæður svona seint í leik......
Blikar sigldu þessum leik í höfn af miklu öryggi og það er varla hægt að segja að gestirnir hafi fengið eitt færi ef undan er skilinn skalli sem þeir átti eftir hornspyrnu, en sá fór hárfínt yfir markið.
Blikar léku sinn besta leik í sumar og það verður að segjast að sigurinn var síst of stór og Gunnleifur hefði vel getað spilað skólaus ef út í það er farið. Það var ekkert að gera hjá honum. En það er búinn að vera hægur stígandi hjá okkar mönnum í vor og nú small þetta vel. Liðsheildin var sannfærandi og ekki árennileg. Vonandi er þetta forsmekkur að því sem koma skal í sumar. Getan er næg og það er talsverð breidd í liðinu. Þetta er ,,bara“ spurningin um að vera meðvitaður um muninn á að ,,langa“ og ,,ætla“ eins og einn fyrrverandi leikmaður okkar orðaði það snemmsumars hérna um árið. Hann hitti naglann á höfuðið og árið var 2010.
Komaso!
Það var gríðarlega góð stemmning á vellinum í kvöld. Fjöldi Blika á svæðinu og ég man ekki eftir að hafa mætt í aðra eins stemmningu 30 mínútum fyrir leik. Þetta var almennilegt. Meira af þessu.
Næsti leikur Blika er gegn KFG í 32. liða úrslitum Borgunarbikarsins n.k fimmtudag. Hann fer fram á Samsung velllinum í Garðabæ og hefst kl.19:15.
Þangað mætum við og styðjum okkar menn.
Áfram Breiðablik !
OWK