Vesen!
11.07.2016Frábært veður og aðstæður nánast fullkomnar í Kópavoginum í kvöld þegar að Blikar fengu Skagamenn í heimsókn, en aðstæður og veður var það eina sem var fullkomið fyrir þá grænu í kvöld.
Blikar byrjuðu með þetta lið:
1. Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)
3. Oliver Sigurjónsson
4. Damir Muminovic
5. Elfar Freyr Helgason
8. Arnþór Ari Atlason
11. Gísli Eyjólfsson
15. Davíð Kristján Ólafsson
22. Ellert Hreinsson
23. Daniel Bamberg
29. Arnór Sveinn Aðalsteinsson (F)
30. Andri Rafn Yeoman
Það voru rétt um 10 mín búnar af leiknum þegar að Skagamenn fengu aukaspyrnu úti á hægri kanti, Skagamenn hafa verið öflugir á föstum leikatriðum upp á síðkastið á sama tíma og Blikum hefur ekki gengið vel að verjast hornspyrnum og aukaspyrnum.
Ian J. Willliamsson tók spyrnuna og Garðar Gunnlaugsson sem verið hefur heitur í síðustu leikjum stökk manna hæst og skallaði boltann í markið. 0-1 og nú vissi maður að þeir gulu myndu leggja allt kapp á að verja þessa forystu.
Í stuttu máli þá gerðist ekkert meira í þessum leik. Blikar héldu bolta og reyndu þversendingar og stundum að manni fannst tilviljanakenndar háar sendingar framávið sem skiluðu akkurat engu. Ellert komst nokkru sinnum næstum því í færi en vantaði herslumuninn.
Lang bestu menn hjá Skaganum voru þeir Ármann Smári sem mætti með aflitað hár í Kópavoginn í kvöld og Garðar Gunnlaugs sem mætti með ekkert hár en fór burtu með sigurmark í farteskinu eins og hann talaði um að gera á Pesideildar snappinu í gær.
Skagamenn áttu þetta skilið svo einfalt er það, þeir áttu vissulega bara þetta eina færi allan leikinn en þeir nýttu það á meðan að við Blikar virtumst bitlausir framávið. Það kom smá líf með innkomu Ágústs Elvars Hlynssonar en þessi 16 ára strákur á ekki að þurfa að vera í því að vinna leiki fyrir Blika sem að hann gerði reyndar í bikarleiknum uppi á Skaga.
Glenn kom svo inn í lokin og skoraði mark en var að mér sýndist réttilega dæmdur rangstæður.
Hvað er að? Ég hef ekki hugmynd um það en Blikar hafa lítið sýnt síðan að þeir unnu Eyjamenn um miðjan júní, bæði farnir út úr Evrópudeildinni og Bikarkeppninni og ná svo ekki að vinna Skagamenn á heimavelli. Það er væntanlega ekki komið neitt óðagot í mannskapinn en nokkuð ljóst að ýmislegt þarf að breytast inni á vellinum. Hvort að Árni Vill sé lausnin verður að koma í ljós en eitthvað verður að gerast annars gætu Blikar lent í veseni.
KIG