BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Við ætlum að vinna þennan leik, segir Ólafur Kristjánsson þjálfari

10.08.2013

Breiðablik og FH mætast í Pepsídeild karla á morgun sunnudag kl.19.15 í Hafnarfirði.  Þrátt fyrir mikið álag á Blikaliðinu undanfarnar vikur þá er Ólafur Kristjánsson þjálfari Blikaliðsins hvergi banginn. ,,Við erum búnir að hrista af okkur vonbrigði fimmtudagsins. Markmið leiksins eru mjög skýr- við ætlum að vinna þennan knattspyrnuleik,“ sagði hann ákveðinn við fréttaritarar blikar.is.

Ólafur sagði að það væri mikill hugur í mannskapnum. ,,Menn hafa komið ótrúlega vel undan öllum þessum leikjum að undanförnu. Allir sem hafa verið með í sumar eru heilir og hef ég því út stórum og öflugum hópi að velja. Það hefur verið gaman að sjá hvað strákarnir hafa komið frískir á síðustu æfingar og ekkert hefur verið gefið eftir. Ég er því bjartsýnn á góðan árangur í komandi leikjum,“ segir þjálfarinn.

Finnur Orri fyrirliði sem skoraði sitt fyrsta alvöru mark fyrir Blikaliðið gegn Aktobe á fimmtudaginn segir að það sé góð stemmning í hópnum. ,, Við tökum það góða úr Evrópuleiknum og förum með það í leikinn gegn FH. Markmiðið er mjög skýrt í okkar hópi; við ætlum okkur titilinn enda viljum við upplifa aftur svona Evrópuleikjastemningu. Það var frábært að sjá allt þetta  fólk í Laugardalnum á fimmtudaginn hvetja okkur til dáða. Vonandi kemur margt af þessu fólki í Hafnarfjörðinn til að styðja okkur til sigurs,“ segir fyrirliðinn.

,,Styrkleiki Blikaliðsins í ár er mikil breidd og samstaða,“ segir Finnur Orri. ,,Gísli Páll er að detta inn og munar um minna, Elvar Páll kom mjög sterkur inn og svo þarf ekki að fjölyrða hve gott það er að fá Elfar Frey inn í hópinn á ný. Það er eins og hann hafi aldrei farið og ósköp notalegt að sjá Bónusplastpokana hans inn í klefanum á nýjan leik,“ bætti fyrirliðinn við hlæjandi.

Finnur Orri vildi koma því að í lokin að stuðningur áhorfenda í Laugardalnum hefði sjálfsagt riðið baggamuninn að Blikaliðið landaði sigri gegn Aktobe á fimmtudaginn. ,,Það sama getur gerst í leiknum gegn FH. Ef við finnum stuðning úr stúkunni þá gefur það okkur aukakraft. Því vil ég hvetja alla sem vettlingi geta valdið  að mæta í Kaplakrikann og styðja okkur til sigurs,“ segir Finnur Orri Margeirsson fyrirliði.

-AP

Til baka