Víkingur Ó. - Breiðablik í PEPSI sunnudaginn 24. júlí kl. 19:15
22.07.2016Seinni umferð Íslandsmótsins, PEPSI-deildin, hefst á sunnudag og höldum við Blikar í víking vestur á Snæfellsnes. Þar mætum við baráttujöxlunum úr Víking Ólafsvík. Við eigum þar harma að hefna enda lögðu þeir okkur óvænt í fyrstu umferð mótsins. Heimaliðið hefur staðið sig með eindæmum vel í sumar og eru einu stigi á eftir okkur í deildinni. Þeir höfðu ekki tapað í átján leikjum í röð á heimavelli þangað til Stjarnan lagði þá í síðustu umferð.
Breiðablik og Víkingur Ó. hafa mæst sextán sinnum í opinberri keppni. Blikar hafa sigrað í tólf leikjum, Víkingar í einum leik og þrír leikir hafa endað með jafntefli. Liðin eiga aðeins þrjá leiki að baki í efstu deild. Árið 2013 vinna Blikar 2-0 í Kópavoginum í júní en gera svo 0-0 jafntefli í Ólafsvík í lok ágúst. Þriðji leikurinn var fyrsti leikur Blika í PEPSI í sumar í leik sem Ólsarar vinna 1-2. Leikurinn er því fjórða viðureign liðanna í efstu deild frá upphafi og jafnfram fjórða viðureign liðanna á þessu ári. Í janúar sigra Blikar 1-0 í Fótbolti.net mótinu. Liðin gera 2-2 jafntefli í Lengjubikarnum í mars. Og eins og áður segir vinnur Víkingur Ó. fyrrir leikinn í PEPSI 1-2 á Kópavogsvelli um mánaðarmótin apríl/maí.
En það eru töluverð tengsl milli þessara liða. Þrír núverandi leikmenn Blikaliðsins hafa spilað með Ólafsvíkingum. Gísli Eyjólfsson lék 3 leiki með liðinu fyrr á þessu tímabili, Damir lék alla leiki liðsins í efstu deild árið 2013 og skoraði þar tvö mörk, Ellert var í búningi Ólsara keppnistímabilið 2006 og 2007 og lék 23 leiki og skoraði 11 mörk.
Blikaklúbburinn og Kópacabana standa fyrir rútuferð á leikinn og fer rútan frá Smáranum á sunnudag kl.14.30. Miðaverð er 1.500 krónur og er mikilvægt að skrá sig til ferðarinnar með því að senda póst á blikar(hjá)blikar.is því það er takmarkað sætaframboð.
Blikaþjálfararnir geta teflt fram sínu sterkasta liði nema að Oliver Sigurjónsson er í leikbanni vegna fjögurra gulra spjalda. Þar sem búið er að lána markvörðinn Aron Snæ í Vestra á Ísafirði þá má búast við að Hlynur Örn fari á bekkinn en hann var að koma úr láni frá Grindvíkingum.
Hjá Víkingum vantar þeirra markahæsta mann Hrjove Tokic en hann var rekinn út af gegn Stjörnunni í síðasta leik.
Það má því búast við hörkuleik í Ólafsvík á sunnudaginn.
Vonandi munu margir Blikar láta sjá sig enda er spáin góð og völlurinn víst iðagrænn á Nesinu!
Áfram Breiðablik, alltaf, alls staðar!