BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Umfjöllun: Vonbrigði í Víkinni

30.07.2019

Blikar urðu að lúta í gras 3:2 gegn Víkingum í Víkinni í Pepsi Max deild karla í gærkvöldi. Úrslitin eru mikil vonbrigði fyrir okkur því Blikaliðið stjórnaði leiknum og var með boltann mun meira en heimaliðið. En það eru mörkin sem telja í leiknum og einbeitingarleysi og einstaklingsmistök urðu þess valdandi að við fórum tómhentir heim.

Þjálfararnir gerðu töluverðar breytingar á byrjunarliðinu og settu reynslubolta til margra ára eins og Elfar Freyr og Andra Rafn á bekkinn.

Eftir rýra uppskeru undanfarnar vikur var ljóst að einhverra breytingar var þörf. En það er ljóst að áhættan sem þeir tóku gekk ekki upp.

Blikaliðið tapaði enn einum leiknum og nú verða leikmenn að girða sig í brók og fara að landa sigri í knattspyrnuleik.

Karl Friðleifur Gunnarsson í fyrsta sinn í byrjunarlið í leik í efstu deild og fyrsti deildarleikur hans síðan hann kom inn á fyrir Jonathan Hendricks á 75. mín í leik gegn Fylkismönnum á Kópavogsvelli um miðjan júní í fyrra.

Og markið sem Viktor Karl Einarsson skoraði er fyrsta deildamark hans á Íslandi. 

Þrátt fyrir tapið var Blikaliðið á köflum að spila flottan fótbolta. Boltinn fékk að fljóta vel með jörðinni og við sköpuðum okkur góð tækifæri. Það má ekki gleyma því að við skoruðum tvo góð mörk og í flestum tilfellum hefði það dugað til að fá þrjú stig. En það er ekki hægt að horfa fram hjá því að við töpuðum leiknum og því þýðir ekkert að fara í Pollýönnu-leik. Við verðum að fara að sigra í leikjum ef ekki á illa að fara.

Leikskýrsla KSÍ      Úrslit.net skýrsla

Ljóst er að þær breytingar sem hafa orðið á leikmannahópnum með brotthvarfi Jonathans Hendrckx og Arons Bjarnasonar hafa ekki fara farið vel í mannskapinn. Við höfum hins vegar fengið frábæra leikmenn til okkar í staðin og þeir verða nú að stíga upp og halda uppi gunnfána Blika á vellinum.

Við erum með góðan mannskap í höndunum en leikmennirnir og þjálfararnir verða að finna þá blöndu sem dugir til að landa sigri. Þrátt fyrir góða spilamennsku á köflum þá vorum við að gera afdrífrík mistök í gærkvöld sem urðu þess valdandi að við fengum ekkert út úr leiknum. Ungir og efnilegir leikmenn fengu tækifæri í gær og sú reynsla á eftir að skila sér í framtíðinni. En við þurfum að lifa í núinu og núið er ekki að skila okkur stigum í augnablikinu. Þessu þarf að snúa við!Nú fáum við nokkra daga til að sleikja sárin. Næsti leikur er gegn KA á Kópavogsvelli miðvikudaginn 7. ágúst og svo gegn ÍA upp á Skipaskaga sunnudaginn 11. ágúst. Þar að auki gefst okkur tækifæri til að hefna fyrir þetta tap í gær því við mætum Víkingum á nýjan leik í undanúrslitum Mjólkurbikarkeppninnar í Víkinni fimmtudaginn 15. ágúst.

Koma svo Blikar!

-AP

Umfjallanir netmiðla

Til baka