BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Knattspyrna kvenna í 50 ár

26.08.2022 image

Kvennalið Breiðabliks fyrir fyrsta leik á fyrsta Íslandsmóti utanhúss 26. ágúst 1972

Á þessum degi fyrir 50 árum, 26.ágúst 1972 kl.14:00, hófst Íslandsmót í knattspyrnu kvenna með leik Breiðabliks og Fram á Valargerðisvelli í Kópavogi. Með þessum leik hófst, hjá Breiðabliki, mikið vaxtarskeið í knattspyrnu kvenna í Kópavoginum - vöggu kvennaknattspyrnunnar á Íslandi segja margir. 

Átta lið tóku þátt í þessu fyrsta Íslandsmóti í knattspyrnu kvenna. Liðunum átta var skipt í 2 riðla. Fram, FH, Þróttur og Breiðablik í A riðli. Í B riðli voru Ármann, Haukar, ÍBK og Grindavík. Lið FH og Ármanns unnu riðlakeppnina og spiluðu til úrslita um fyrsta Íslandsmeistaratitil í knattspyrnu kvenna sem FH vann. Sjá frétt á ksi.is  og einnig frétt á Fram.is

Breiðabliksliðið spilaði einnig við FH og Þrótt í A riðli: 

02.09 12:55
1972
FH
Breiðablik
1:0
1
2
A-deild | 2. umferð
Kaplakrikavöllur | #

09.09 13:20
1972
Breiðablik
Þróttur
2:1
1
2
A-deild | 3. umferð
Melavöllur | #

Þáttaka Breiðabliks er óslitin í þessi 50 ár frá, allt frá 1972 - eitt allra liða á Íslandi sem státar af því. Og meistaraflokkur kvenna hefur leikið á efsta stigi öll árin nema eitt (1988). 

Íslandsmeistaratitlarnir eru 18 - flestir allar liða. Fyrsti árið 1977; síðasti 2020. Liðið endaði 16 sinnum í 2. sæti 

image

Íslandsmeistarar Breiðabliks 2020

Breiðabliksliðið er ríkjandi bikarmeistari - hefur unnið þann titil 13 sinnum frá upphafi, fyrst 1981. Blikakonur spila um sinn 14. bikarmeistaratitil við Valskonur á Laugardalsvelli á morgun, 27. ágúst kl.16:00. Miðasala á tix.is. Bæði lið hafa unnið bikarmeistaratirtilinn 13 sinnum - flest allra liða. 

image

Bikarmeistarar Breiðabliks 2021

Blikaliðið hefur unnið Meistarakeppni KSÍ 10 sinnum 

Sjö deildabikar sigarar eru í húsi.

image

Deildabikar meistarar 2022

Fjórtán sinnum hafa Breiðablikskonur unnið Faxaflóamótið.

Evrópuleikir: 1995, 1996, 1997, 2001/2002, 2003, 2005, 2006/2007, 2010/2011, 2016, 2019 og 2021 skrifaði Breiðablik söguna þegar liðið komast alla leið í riðlakeppni Meistaradeilladarinnar - fyrst íslenskra knattspyrnuliða

Heildarfjöldi mótsleikja er 1070 - þar af 641 leikur í efstu deild frá upphafi. 295 leikmenn hafa spilað alla þessa mótsleiki gegn 108 andstæðingum - íslenskum og erlendum.

image

Árið 2021 komst Breiðablikliðið alla leið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar - fyrst íslenskra knattspyrnuliða

En hvernig byrjaði þetta allt?

Til að svara spurningum um upphafið grípum við niður í Erindi um knattspyrnu kvenna sem Ingibjörg Hinrkisdóttir skrifaði fyrir örfáum árum. Ingibjörg byrjar pistilinn með þessum orðum „þegar haft var samband við mig um að fjalla framgang knattspyrnu kvenna í Breiðabliki var það mér mikill heiður og sómi að þekkjast boðið. Það hefur enda var það mitt aðal áhugamál í rúm 30 ár að fylgjast með fótboltastelpunum okkar, dæma, skipta mér af og rífa dálítið kjaft í leiðinni. En fótbolta hef ég lítið sem ekkert æft – svo það sé nú alveg á hreinu! Þó ég sé komin yfir miðjan aldur þá hef ég ekki fylgt Blikastelpunum allt frá byrjun, þar þarf að ræða við mér eldri konur, s.s. Rósu Valdimarsdóttur dóttur Valda vallarvarðar eða Arndísi Sigurgeirsdóttur í Iðu bókabúð svo einhverjar séu nefndar."

Jú eins og mörgum er kunnugt þá var fyrsta Íslandsmótið í knattspyrnu haldið árið 1912 en það var ekki fyrr en 60 árum síðar, árið 1972, sem Íslandsmóti fyrir konur var komið á fót. En nokkru fyrir þann tíma höfðu stelpur leikið knattspyrnu á Íslandi. Heimildir eru þó af skornum skammti en í blaðagrein sem birtist í Tímanum 10. september 1968 segir frá knattspyrnukappleik í Kópavogi.

Greinin er rituð í góðlátlegum stíl undir fyrirsögninni „Við getum líka …“ en í greininni segir m.a.: „Já auðvitað geta stúlkurnar leikið knattspyrnu eins og piltar. Það sýndu þessar ungu Kópavogsstúlkur okkur á sunnudaginn, en þá fór fram keppni milli tveggja kvennaliða í Kópavogi. Að vísu voru hreyfingarnar stundum viðvaningslegar, en æfingin skapar meistarann.“

Já auðvitað geta stúlkurnar leikið knattspyrnu, það áttu Blikastelpurnar svo sannarlega eftir að sýna á næstu árum og áratugum.

Knattspyrna kvenna á heimsvísu

Til að við áttum okkur betur á því hver staða knattspyrnu kvenna var á Íslandi á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar er nauðsynlegt að við kynnum okkur aðeins hvernig staðið var að málum á heimsvísu. FIFA, alþjóða knattspyrnusambandið, sendi út fyrirspurn til aðildarríkja sinna um hversu margar þjóðir viðurkenndu knattspyrnu kvenna árið 1970. Ég gef mér að það hafi verið einhver pressa á FIFA vegna þessa fyrst þeir sjá ástæðu til að senda út fyrirspurnina og það kemur heim og saman við sögu knattspyrnu kvenna í Englandi, til dæmis.

Þar í landi, sem margir kalla heimkynni knattspyrnunnar, er einna lengst hefð fyrir knattspyrnu. En saga kvenna í knattspyrnu er ansi merkileg í Englandi því þar tóku konurnar við keflinu á meðan á fyrri heimstyrjöldinni stóð og fylltu hvern leikvöllinn á fætur öðrum. Fyrsti landsleikurinn milli kvennaliða fór fram árið 1881, milli Englands og Skotlands, og fyrsti landsleikur utan Englands fór fram árið 1920 milli Englands og Frakklands. Sem dæmi um vinsældir kvennaleikjanna þá mættu 52.000 manns á Goodison Park á annan dag jóla árið 1920 til að horfa á leik Dick, Kerr’s Ladies og Preston. Og það sem meira er að skv. sögum frá þeim tíma þá þurftu 10-15 þúsund manns frá að hverfa þar sem þeir komust ekki inn á leikvanginn. En eftir að stríðinu lauk þá vildu strákarnir fá sinn sess á ný og árið 1921 var konum bannað að leika knattspyrnu í Englandi og Skotlandi.

image

Já það var ástæða fyrir FIFA að senda út fyrirspurn til aðildarþjóða sinna um stöðu knattspyrnu kvenna. Það kemur kannski ekki á óvart að aðeins 12 aðildarríki viðurkenndu knattspyrnu kvenna (Alsír, Suður-Afríka, Formósa, Singapore, Thailand, Guatemala, Jamaica, Frakkland, Vestur-Þýskaland, Svíþjóð og Wales. Að auki var knattspyrna leikin í 21 landi, án þess að vera viðurkennd af viðkomandi knattspyrnusambandi, þar á meðal í Danmörku, Brasilíu, Englandi, Skotlandi, Ítalíu og Bandaríkjunum.

Albert Guðmundsson, þáverandi formaður KSÍ, var víðförull maður og áhugasamur um samfélagsmál og hann, umfram aðra, beitti sér fyrir því að efnt væri til Íslandsmóts fyrir konur og var fyrsta Íslandsmótið haldið, eins og ég sagði áðan árið 1972. Fyrsti opinberi leikurinn fór þó fram á Laugardalsvelli 20. júlí 1970 þegar lið frá Reykjavík og Keflavík mættust fyrir landsleik Íslands og Noregs. Leikið var í 2×10 mínútur og sennilega hefur einhverjum þótt það vera nægilegt álag á stúlkurnar.

Það þótti heldur ekki vera sérlega kvenlegt að stúlkur væru í knattspyrnu. Þjóðviljinn gerir knattspyrnu kvenna að umtalsefni 9. apríl 1970 og segir að til greina komi að stofna kvennaknattspyrnu á Íslandi. Í greininni segir „Augnayndi gæti það nú orðið íslenzkum knattspyrnuunnendum, sem flestir eru af sterkara kyninu, að fá að sjá fallegar stúlkur leika knattspyrnu og þarf varla að efa að hún yrði vinsæl íþróttagrein hér á landi“

image

Já auðvitað verður þetta augnayndi og það voru stelpurnar svo sannarlega. En það var byrjað smátt og fyrsta opinbera Íslandsmótið þar sem konur tóku þátt var innanhúss um páskana 1971. Breiðablik gleymdi að tilkynna um lið í mótið!

Já snúum okkur aftur að Breiðabliki

Breiðablik er eina félagið sem hefur tekið þátt í Íslandsmótinu utanhúss frá upphafi. Okkar stelpur riðu þó ekki feitum hesti frá fyrsta Íslandsmótinu. Leikið var í tveimur riðlum og var Breiðablik í A-riði. Leikin var einföld umferð og í fyrsta leik tapaði Breiðablik 2:3 gegn Fram. Það vill svo vel til að við þekkjum nöfn flestra leikmanna sem tóku þátt í þessum fyrsta leik þrátt fyrir að leikskýrslan sé töpuð.

image

Texti með mynd: Fyrsta íslandsmóti kvenna í knattspyrnu utanhúss er nú að ljúka. Eftir er aðeins úrslitaleikurinn milli Fram og Ármanns, og fer fram nú á næstunni. Þessi mynd var tekin fyrir fyrsta leikinn sem leikinn var í íslandsmóti kvenna utanhúss, en hann fór fram í Kópavogi milli Breiðabliks og Fram.

1972 Kvennalið Breiðabliks á fyrsta Íslandsmóti utanhúss:

Aftari röð f.v.: Dóra Vilhelmsdóttir, Anna María Þórðardóttir, Rósa Á. Valdimarsdóttir fyrirliði, Þorbjörg Erlendsdóttir, Anna S. Ragnarsdóttir, Sigurbjörg Kristinsdóttir, Ingibjörg H. Halldórsdóttir og Ægir Guðmundsson þjálfari.

Fremri röð f.v.: Margrét Þorsteinsdóttir, Guðlaug Þráinsdóttir, Matthildur Kristinsdóttir, Anna M. Ingófsdóttir, Bryndís Einarsdóttir og Guðný Pétursdóttir.

Rósa Valdimarsdóttir, dóttir Valda heitins vallarvarðar og hennar fjölskylda öll, er hafsjór af fróðleik um upphaf kvennafótboltans í Kópavogi. Það vill svo vel til að ég á í fórum mínum lýsingu Rósu frá upphafsárunum og ætla ég að vitna til hennar öðru hvoru í erindi mínu.

Vorið 1968 fóru að koma út á Vallargerðisvöll hópur af stelpum til að leika sér í fótbolta. Við fengum lánaðan bolta hjá Valda föður mínum. Þarna fórum við að mæta einu sinni í viku um sumarið, en sumar okkar nánast bjuggum úti á Vallargerði.“

Eins og gengur þá tók fólk misvel í þessar æfingar og Rósa segir að innan félagsins hafi þeim verið misvel tekið. Þeirra helsti talsmaður var Anna María Þórðardóttir og hún sá um að stappa stálinu í stelpurnar og hvetja þær til dáða. En mótspyrnan var mikil og m.a. sá þáverandi þjálfari meistaraflokks karla því allt til foráttu að stelpurnar fengju eina æfingu á viku og átti hann það til að boða strákana á æfingu á sama tíma og urðu stelpurnar þá að víkja. Hann hætti ekki fyrr en stelpurnar settust á völlinn eitt skiptið og buðu strákunum að bera sig út af vellinum eða bíða eftir þeirra æfingatíma.

Það var svo Guðmundir Þórðarson sem bauð stelpunum æfingatíma á fimmtudagskvöldum. Og viti menn, á fyrstu æfinguna mættu 40 stelpur og sagan skrifuð. Guðmundur Þórðarson varð þar með fyrsti þjálfari í knattspyrnu kvenna hjá Breiðabliki sumarið 1968. Árið eftir fékk Guðmundur Ægir Guðmundsson sér til aðstoðar og sáu þeir saman um æfingar 1969-1971. En á fyrsta Íslandsmótinu, 1972, stýrði Ægir Guðmundsson Blikastelpunum.

Guðmundur Þórðarson varð síðar fyrsti landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu.

Engum sögum fer af því í hvaða keppnisbúningum stelpurnar voru fyrstu tvö árin en þær fengu ekki sitt eigið keppnissett fyrr en tveimur árum síðar, en það færði Bókabúðin VEDA stelpunum.

Fyrsti Íslandsmeistaratitillinn kom árið 1976, þegar stelpurnar fögnuðu sigri á Íslandsmótinu innanhúss og árið eftir kom fyrsti titillinn utanhúss. En þá hafði líka bæst í hópinn Ásta nokkur Breiðfjörð Gunnlaugsdóttur, sem kom með mér hingað í dag, Ásta B.

Rósa segir í lýsingu sinni að Ásta hafi byrjað ferilinn sem hafsent en í fyrsta leik hennar, sem var gegn Fram, hafi minnstu mátt muna að hún skoraði sjálfsmark og var hún því flutt framar á völlinn og varð einn okkar besti framherji fyrr og síðar. Frá þessum tíma hafa titlar Breiðabliks orðið fjölmargir, ekkert lið hefur unnið Íslandsmótið jafnoft, 15 sinnum.

Stærsti sigurinn

Að mati Ingibjargar eru stærstu árin í sögu kvennaboltans innan Breiðabliks árin 1982 og 1996. Þessi tvö ár eiga það sameiginlegt að liðið tapaði ekki leik hér á landi. Breiðablik vann tvöfalt árin 1981-1983 en þá liðu tæp fimm ár milli þess sem liðið tapaði leik á Íslandsmóti.

image

Íslands- og bikarmeistarar 1982

Aftari röð f.v.: Sigurður Hannesson þjálfari, Theresa Linda Árnadóttir, Sigríður Kristinsdóttir, Ragnheiður Þorgilsdóttir, Magnea Helga Magnúsdóttir, Ásta María Reynisdóttir, Heiðrún Bára Þorbjörnsdóttir, Þjóðhildur Þórðardóttir og Valdimar Valdimarsson meistaraflokksráði kvenna.

Miðröð f.v.: Karl Steingrímsson formaður knattspyrnudeildar, Berglind Hrafnkelsdóttir, Edda Herbertsdóttir, Dagný Halldórsdóttir, Svava Tryggvadóttir, Sigríður Jóhannsdóttir, Halldóra Gylfadóttir, Sigríður Tryggvadóttir, Kristín S. Valdimarsdóttir liðssjóri og Pétur Ómar Ágústsson meistaraflokksráði kvenna.

Fremri röð f.v.: Margrét Sigurðardóttir, Erla Rafnsdóttir, Guðríður Guðjónsdóttir, Rósa Á. Valdimarsdóttir, Ásta Óskarsdóttir, Ásta B. Gunnlaugsdóttir og Bryndís Einarsdóttir.

Þær töpuðu gegn Val 13. júlí 1979 og síðan ekki söguna meir fyrr en þær lutu í gras gegn ÍA 7. júní 1984. En stærstu árin voru líklega frá 1993-1997 þegar Breiðablik tapaði ekki leik á Íslandsmóti í fimm ár. Þær töpuðu gegn Val 26. júní 1993 en næsti ósigur kom 5. júní 1998 gegn KR. Árið 1996 var algjörlega einstakt en þá unnu stelpurnar okkar allt sem hægt var að vinna og sigruðu Íslandsmótið með fáheyrðum yfirburðum, skoruðu 79 mörk en fengu aðeins 3 mörk á sig.

image

Íslands- og bikarmeistarar 1996.

Aftari röð f.v.: Sigurður Þórir Þorsteinsson aðstoðarþjálfari, Linda Mjöll Andrésdóttir, Sandra Karlsdóttir, Sigríður Hjálmarsdóttir, Katrín Jónsdóttir, Ásthildur Helgadóttir, Helga Ósk Hannesdóttir, Margrét Sigurðardóttir, Helena Magnúsdóttir, Þóra Björg Helgadóttir og Sophus Klein Jóhannsson liðsstjóri.

Fremri röð f.v.: Vanda Sigurgeirsdóttir þjálfari, Stojanka Tanja Nikolic, Erla Hendriksdóttir, Sigfríður Sophusdóttir, Kristrún Lilja Daðadóttir, Sigrún Óttarsdóttir, Inga Dóra Magnúsdóttir og Margrét Ólafsdóttir.

Þetta afrek verður aldrei jafnað eða slegið enda var á þessum tíma 8 liða deild og stelpurnar skoruðu þessi 79 mörk í 14 leikjum eða 5,6 mörk að meðaltali í leik.

Mörk & Tölfræði

Þegar gluggað er gagnagrunna blikar.is og ksi.is fyrir síðustu 50 ár kemur margt áhugavert í ljós varðandi árangur einstakra leikmanna sem hafa spilað með Breiðabliki. 

Af 100 A-landsliðs leikmönnum Ísland sem hafa spilað landsleiki frá fyrsta A-landsleik Íslands árið 1981 til dagsins í dag hafa tæplega 40 þeirra leikið í grænu Breiðablikstreyjunni. Sjá lista yfir 100 A-landsliðsmenn 1981 - 2022. 

Fyrsti landsleikur Íslands var gegn Skotlandi árið 1981 sem tapaðist 2-3. Breiðablik átti 7 leikmenn af 11 í byrjunarliðinu og Blikarnir Ásta B Gunnlaugsdóttir og Bryndís Einarsdóttir skoruðu mörk Íslands í leiknum. Þjálfari liðsins var Guðmundur Þórðarson, sá mikli Bliki.

image

Í byrjunarliðinu voru 7 Blikar af 11. Fyrirliði liðsins var Rósa Valdimarsdóttir, en faðir hennar, Valdimar Valdimarsson, sá mikli snillingur og brautryðjandi var óþreytandi að berjast fyrir viðgangi kvennaknattspyrnunnar í Kópavogi. 

Breiðablikskonur sem urðu markahæstar í efstu deild 1920-2022

Ásta B. Gunnlaugsdóttir - 32 mörk 1981 og 15 mörk 1982. Erla Rafnsdóttir - 14 mörk 1984 og 20 mörk 1985. Olga Færseth - 24 mörk 1994. Margrét Ólafsdóttir - 13 mörk 1995. Áshildur Helgadóttir - 17 mörk 1996. Fanndís Friðriksdóttir - 19 mörk 2015. Berglind Björg Þorvaldsdóttir - 19 mörk 2018 og 16 mörk 2018. Agla María Albertsdóttir - 14 mörk 2020. Sveindís Jane Jónsdóttir  - 14 mörk 2020.

Flest mörk með Breiðabliki

Þessar 9 leikmenn hafa afrekað það að skora 50+ mörk í deildakeppni á Breiðabliksferlinum. Ein reyndar 50+ mörk x 2 og önnur 50+ mörk x 3, eða 154 mörk - Ásta B. var einstök. Hún skoraði 206 mörk í 181 mótsleikjum á 20 ára ferli sem fastur maður í meistarflokki Breiðabliks.

image

Flestir leikir með Breiðabliki

Þetta eru 9 leikjahæstu leikmenn í deildakeppni frá 1972. Flestar eru búnar að leggja skóna á hilluna nema Ásta Eir sem er núverandi fyrirliði liðsins. Ásta er meidd eins og staðan er núna en hún er hvergi nærri hætt.  Rakel Hönnudóttir er að æfa með flokknum. Og hefur tekið að sér hlutverk varamarkvarðar enda aðal markmaður liðsins að stríða við meiðsli. 

image

Allir leikmenn

Þjálfarar liðsins frá upphafi

Að baki hvers knattspyrnuliðs er öflugt þjálfarateymi. Í núverandi teymi liðsins eru 4 þjálfarar. Aðalþjálfari er Ásmundur Arnarsson aðalþjálfari. Aðstoðarþjálfari er Kristófer Sigurgeirsson. Markmannsþjálfari er Ólafur Pétursson. Styrktarþjálfari er Aron Már Björnsson.

Aðalþjálfarar frá upphafi í tímaröð.

1968 Guðmundur Þórðarson. 1970-1972 Ægir Guðmundsson. 1973-1974 Halldór Sigurðsson. 1975-1977 Haraldur Erlendsson. 1978 Gissur Guðmundsson. 1979-1980 Guðmundur Þórðarson. 1981-1982 Sigurður Hannesson. 1983 Róbert Jónsson. 1984-1985 Guðmundur Ólafsson. 1986 Aðalsteinn Örnólfsson. 1987 Ómar Arason. 1988-1989 Jón Þórir Jónsson. 1990 Sigurður Hannesson. 1991-1992 Guðjón Karl Reynisson. 1993 Steinn Helgason. 1994-1996 Vanda Sigurgeirsdóttir. 1997 Sigurður Þórir Þorsteinsson. 1998-2001 Jörundur Áki Sveinsson. 2002-2003 Ólafur Þór Guðbjörnsson. 2004 Margrét Sigurðardóttir. 2005 Úlfar Hinriksson. 2006 Guðmundir Magnússon. 2007 Jörundur Áki Sveinsson. 2008 Vanda Sigurgeirsdóttir. 2009 Gary Michael Wake. 2010-2011 Jóhannes Karl Sigursteinsson. 2012-2014 Hlynur Svan Eiríksson. 2015-2020 Þorsteinn Halldórsson. 2021 Vilhjálmur Haraldsson. 2022 Ásmundur Arnarsson. 

Feitletruð ártöl = 18 Íslandsmeistaratitlar, sá fyrsti 1977 undir stjórn Haraldar Erlendssonar.

Íslandsmeistarar innanhúss: 1976, 1977, 1980, 1982, 1985, 1986, 1989, 1992, 1996, 1997, 1998, 2000, 2005, 2008.

Þjálfara- og sjúkrateymi, liðsstjórn og leikmenn á leikdegi gegn Rosenborg í Noregi í undankeppni Meistaradeildarinnar 2022/2023

image

Aftari röð f.v.: Ásmundur Arnarsson þjálfari, Særún Jónsdóttir sjúkraþjálfari, Aron Már Björnsson styrktarþjálfari, Heiðdís Lillýardóttir, Karitas Tómasdóttir, Nichole Persson, Birta Georgsdóttir, Telma Ívarsdóttir, Taylor Ziemer, Natasha Moraa Anasi, Vigdís Lilja Kristjándsóttir, Ólafur Pétursson markmannsþjálfari, Kristófer Sigurgeirsson aðastoðarþjálfari.

Fremri röð f.v.: Ragna Einarsdóttir liðsstjórn, Anna Petryk, Irena Héðinsdóttir Gonzalez, Agla María Albertsdóttir, Hafrún Rakel Halldórsdóttir, Helena Ósk Hálfdánardóttir, Clara Sigurðardóttir, Karen María Sigurgeirsdóttir, Laufey Harpa Halldórsdóttir, Margrét Brynja Kristinsdóttir, Bergþóra Sól Ásmundardóttir, Melina Ayres, Rakel Hönnudóttir, Ágústa Sigurjónsdóttir sjúkraþjálfari

Mynd: Breiðablik/Hermann Bjarkason liðsstjórn

Bikarleikur á morgun við Val

Ríkjandi bikarmeistarar Breiðabliks og ríkjandi Íslandsmeistarar Vals mætast í úrslitaleik Mjólkurbikars kvenna Laugardaginn 27. ágúst. Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli og hefst hann klukkan 16:00. Bæði lið hafa unnið bikarinn 13 sinnum, oftast allra liða, frá því bikarkeppnin hófst árið 1981.

Tryggðu þinn miða sem fyrst hér: Miðaverð er 2000 kr. og frítt er fyrir börn, 16 ára og yngri, en sækja þarf barnamiða á tix.is.

Upphitun fyrir leikinn gegn Val fer fram í Fífunni, milli kl.13:00 og 15:00 á morgun, laugardag 27. ágúst. Domino's pizzur og drykkir í boði. Knattþrautir og andlitsmálun. Rútuferðir á völlinn.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

image

Gefðu kost á þér í blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum. Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is og www.blikar.is/kvk

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is hér og hér

image

Til baka