BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Góður sigur á erfiðum útivelli

13.06.2023 image

Breiðablik heimsótti Vestmannaeyjar í sjötta útileiknum í fyrstu átta umferðunum.  Vestmannaeyjar eru aldrei auðveldar heim að sækja en undirbúningur var með besta móti, æft á Hvolsvelli degi fyrir leik, siglt til Eyja sama dag og gist í eyjunni.  Herjólfur getur reynst sumum erfiður sama dag og það er leikur, ef það er hvasst og þungt í sjóinn. Það var því ljóst að ferðalagið og sjóferðin myndu ekki sitja í neinum í þetta sinn.  Eins og deildin er að spilast þessa dagana er mikilvægt að spila vel og sækja sigra.

Veðrið var með besta móti miðað við vorið/sumarið sem við höfum fengið, sól og 8 gráðu hiti en að sjálfsögðu smá vindur á annað markið.

Gerðar voru tvær breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik en Birta og Hildur Þóra komu inn fyrir Áslaugu Mundu og Katrínu Ásbjörns.  Það er stutt á milli leikja þessa dagana og gott að geta rúllað hópnum ef einhverjar eru tæpar.

Byrjunarliið: 

image

Blikar léku á móti vindi í fyrri hálfleik og það var ljóst að ÍBV ætlaði að nýta vindinn og láta vaða á markið.  Það gekk þó erfiðlega fyrir þær að finna rammann hjá Blikum.  Á 15.mín áttu Blikar skyndisókn þar sem Andrea átti sendingu inn fyrir vörnina hjá ÍBV og beint fyrir Birtu sem keyrði á vörnina, sneri á tvo varnarmenn og þrumaði honum í markið.  Fyrsta mark Birtu í sumar í Bestu deildinni.  Á 40. mínútu átti Andrea aftur stoðsendingu á Birtu, sem prjónaði sig í gegnum vörnina og Blikar leiddu með tveimur mörkum í hálfleik.

image

Blikar gerðu tvær breytingar í hálfleik, Vigdís og Clara komu inn á fyrir Andreu og Taylor.

Seinni hálfleikurinn var svipaður og sá fyrri, bæði lið skiptust á að eiga ágætar sóknir en erfiðlega gekk að skora.  Ása kom inn á fyrir Bergþóru á 73. mínútu og stuttu síðar skoruðu ÍBV mark, sem var dæmt af vegna rangstöðu.  Stúkan var þó ekki sammála þeim dómi og höfðu þeir mögulega eitthvað til síns máls en við þökkuðum pent fyrir.  Á 85. mínútu kom Katrín inn fyrir Hafrúnu og hún þurfti ekki langan tíma til setja eitt mark.  Góð sókn þar sem Clara átti stoðsendingu inn fyrir vörnina og Katrín renndi honum í hornið í uppbótartíma.

image

Bergþóra, Birta og Vigdís nældu sér allar í gult spjald.

Þrjú mikilvæg stig í hús á erfiðum útivelli.

Ída

Til baka