BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hörku jafntefli í nágrannaslag!

07.06.2023 image

Breiðablik og Stjarnan mættust á Kópavogsvelli í kvöld í blíðskaparveðri. Fyrir leikinn skildu einungis tvö stig liðin að og sátu þau í öðru og fjórða sæti deildarinnar.

Byrjunarliðið var svona skipað:

image

Mikil stemning var fyrir leik og áhorfendur voru byrjaðir að streyma á völlinn klukkutíma áður en flautað var til leiks. Grillaðar pylsur voru í boði fyrir alla sem mættu í einhverju grænu og óhætt að segja að það hafi verið nóg að gera á grillinu.

Leikurinn byrjaði frekar jafn og fyrsta alvöru færi Blikastelpna kom á 16. mínútu þegar Áslaug Munda átti gott skot á markið en Auður markmaður Stjörnunnar varði naumlega. Tíu mínútum síðar átti Ásta Eir skalla rétt yfir markið eftir góða aukaspyrnu frá Bergþóru Sól. Eftir þessi fínu marktækifæri fyrstu mínútur leiksins var boltinn frekar mikið á vallarhelming Breiðabliks og Stjörnustelpur höfðu yfirhöndina fram að hálfleik.

Í byrjun seinni hálfleiks náðu bæði lið að skapa sér ágætis færi og boltinn frekar jafnt hjá liðunum.

Á 60. mínútu skoraði Andrea Mist beint úr hornspyrnu fyrir Stjörnuna og staðan því 1-0. Virkilega vel tekin spyrna og ómögulegt að verja. Einungis sjö mínútum seinna fékk Breiðablik vítaspyrnu og gullið tækifæri til þess að jafna leikinn. Agla María kom sér á vítapunktinn en skaut framhjá markinu.

Blikastelpur héldu áfram að pressa vel á mark Stjörnunnar staðráðnar í að jafna stöðuna. Þær náðu því þegar Bergþóra Sól tók aukaspyrnu sem endaði í andlitinu á Málfríði Ernu í Stjörnunni og fór þaðan í netið. Sjálfsmark niðurstaðan og staðan orðin 1-1.

Ásmundur Arnarsson gerði þrefalda skiptingu þegar nokkrar mínútur voru eftir af leiktímanum, til að freista þess að komast yfir, og inn á komu Hildur Þóra, Birta Georgs og Vigdís Lilja. Ekki tókst þó að skora annað mark og leikurinn endaði því á jafntefli.

Fyrsta og eina spjald leiksins kom á 92. mínútu þegar Vigdís Lilja var aðeins of sein í boltann og fékk að líta gula spjaldið.

Taylor var valin maður leiksins eftir stórgóða frammistöðu.

Áhorfendur á Kópavogsvelli í dag voru 823 talsins og vel heyrðist í stúkunni sem var iðagræn.

Anna Björg

Til baka