BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Naumt tap gegn Val í fyrsta leik

27.04.2023 image

Besta deildin hófst með risaslag á Origovellinum þriðjudaginn 25.apríl 2023. 

Bæði Breiðablik og Val er spáð í efstu sætin í Bestu deildinni í sumar og því var sannarlega von á hörkuleik.  Bæði lið hafa verið og eru með leikmenn í meiðslum en það kemur alltaf maður í manns stað og liðin stilltu upp öflugum byrjunarliðum.

Blikastelpur voru heldur undir í baráttunni í fyrri hálfleik, þó án þess að Valsstelpur næðu að skapa sér mikið af opnum færum en það söng þó í slánni tvisvar sinnum.  Ég er þó á því að Telma hefði tekið bæði skotin ef þau hefðu ratað undir slánna þar sem hún vel staðsett í bæði skiptin. 

Blikar komu mjög ákveðnar inn í seinni hálfleikinn og leikurinn jafnaðist. Opin færi létu þó á sér standa þar til á 73 mín þegar misskilningur í vörninni varð til þess að Valur skoraði. 

Það sem eftir lifði leiks höfðu Blikar öll völd á vellinum en inn vildi boltinn ekki.  Undir lok leiks átti Agla María skot í slá sem hefði nú alveg mátt liggja inni.  Jafntefli hefðu verið sanngjörn úrslit en tap var það sem við uppskárum í dag.

Það er klárt að þetta sumar verður gríðarlega spennandi.  Mörg lið hafa sýnt það á undirbúningstímabilinu að þau ætla langt og má gera ráð fyrir mörgum jöfnum og spennandi leikjum. Markmiðin eru samt klár í Kópavoginum, við viljum vinna titla og komast í Evrópukeppnina.  

Það er því ekki í boði að tapa mörgum leikjum í sumar. Það þarf mikinn fókus og mikla vinnu til að ná þessum markmiðum og stelpurnar eru tilbúnar í það.

Ída

image

Til baka