BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Risasigur í spjaldaleik í Keflavík

10.05.2023 image

Byrjunarliðið í leiknum

Breiðablik heimsótti Keflavík í þriðju umferð Bestu deildar kvenna. Fyrir leikinn voru Keflvíkingar taplausar og einu stigi og einu sæti fyrir ofan Breiðablik í deildinni.

Blikastelpur byrjuðu leikinn heldur betur af krafti og tók það Andreu Rut ekki nema 47 sekúndur að skora fyrsta markið eftir hraða sókn. Keflvíkingar létu ekki deigann síga og áttu nokkur góð færi fyrstu mínúturnar.

Á 20. mínútu átti Áslaug Munda frábæra fyrirgjöf á Hafrúnu Rakel sem setti boltann í netið en var dæmd rangstæð og markið því ekki gilt. Rúmum tveimur mínútum síðar átti Áslaug Munda hins vegar aðra fyrirgjöf sem fór í Kristrúnu Ýr fyrirliða Keflvíkinga sem skorar sjálfsmark og staðan orðin 2-0 fyrir Blikum. Keflvíkingar reyndu að sækja sér líflínu og minnka muninn og áttu nokkur ágætis færi en náðu þó ekki að minnka muninn.

Spjaldakafli leiksins hófst á 24. mínútu þegar Júlía Ruth í liði Keflvíkinga fékk dæmda á sig vítaspyrnu og gult spjald vegna hættusparks. Agla María fór sjálf á punktinn eftir að hafa fengið fótinn á Júlíu Ruth í sig í hættusparkinu og skoraði af miklu öryggi.

image

Leikurinn var jafnframt stór áfangi hjá Öglu Maríu sem var að spila sinn 150. mótsleik með Blikum. Markið sem hún skoraði var númer 111 í röðinni.

Staðan orðin 3-0 eftir 26 mínútur á útivelli. Einungis tveimur mínútum seinna var vægast sagt umdeilt brot á Katrínu Ásbjörnsdóttur en svo virtist sem Júlía Ruth í liði Keflvíkinga hafi slegið hana í kviðinn. Virtist vera frekar saklaust og ekki af ásetningi en niðurstaðan var annað gult spjald og því rautt á Júlíu Ruth sem var vísað af velli í sínum fyrsta leik fyrir Keflavík. Frekar ódýrt spjald þetta. Guðrún Jóna aðstoðarþjálfari Keflavíkur var skiljanlega ekki sátt og fékk gult spjald fyrir munnbrúk á hliðarlínunni. Það var ljóst að það var brekka framundan hjá Keflvíkingum einum færri og 3-0 undir.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks er Hafrún Rakel tekin niður inni í vítateig Keflvíkinga sem hefði vel getað verið vítaspyrna en ekkert var dæmt í þetta skiptið.

Seinni hálfleikurinn var tíðindaminni en sá fyrri en byrjaði þó af álíka miklum krafti hjá Blikastelpum. Á 48. mínútu negldi Taylor Marie boltanum upp í fjærhornið og skoraði fimmta mark Blika. Ófá marktækifæri fylgdu í kjölfarið þó boltinn hafi ekki ratað í netið.

Keflvíkingar virtust frekar andlausir strax í upphafi seinni hálfleiks enda búnar að vera manni færri síðan á 28. mínútu og fimm mörkum undir. Lítið var að gera hjá Telmu Ívarsdóttur í marki Blika og snerti hún boltann ekki mikið enda var hann meirihluta tímans á vallarhelmingi Keflvíkinga.

Hafrún Rakel skoraði sjötta og síðasta mark leiksins á 64. mínútu og staðan því 6-0. Blikastelpur áttu þó eftir að eiga fjölmörg marktækifæri en ekkert þeirra endaði í markinu.

Blikar fengu samtals 14 hornspyrnur í leiknum og ekki eitt einasta mark varð til úr þeim.

Engin spjöld voru á lofti í seinni hálfleik eftir spjaldagleðina í þeim fyrri.

Anna

image

Fylgst var með gangi mála á Twitter: (nánar hér)

Til baka