BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Stór hindrun úr veginum með bikarþrennu í Laugardal

15.06.2023 image

Það er óhætt að segja að stórri hindrun hafi verið rutt úr vegi í áttinni að bikarmeistaratitli í kvöld þegar Breiðablik sótti Þrótt R. heim í Laugardalinn. Virkilega öflug frammistaða Blika skilaði öruggum 3-0 sigri og sæti í undanúrslitum Mjólkurbikarsins.

Fyrir fram var búist við jöfnum og spennandi leik, enda liðin á svipuðu skriði í deildinni auk þess sem Þróttur sló út ríkjandi bikarmeistara Vals í 16-liða úrslitunum. Það voru hrókeringar á miðju og sókn frá síðasta leik en liðið var þannig skipað:

image

Glæsimark setti tóninn

Aðstæður voru eins og best verður kosið í Laugardalnum í kvöld og hvers vegna ekki að bjóða áhorfendum strax til veislu? Eftir aðeins sex mínútna leik kom Agla María Blikum yfir og það með engu smá marki. Hún kom sér í skotfæri utan teigs, lét vaða og skilaði boltanum upp í bláhornið vinstra megin. Algjörlega óverjandi og staðan strax orðin 1-0.

Blikar nýttu sér meðbyrinn í kjölfarið og aðeins tíu mínútum síðar var Agla María aftur á ferðinni. Bergþóra Sól átti þá flotta sendingu inn á teig, Agla María tók við boltanum á fjærstönginni og skilaði í netið. 2-0.

Þrenna á 32 mínútum

Þróttur sótti í sig veðrið í kjölfarið en það var gott að sjá að það var ekki bara sóknarleikurinn sem var í góðum gír. Telma varði dauðafæri og Toni bjargaði nánast á línu skömmu síðar. 

En Blikar voru ekkert að leggjast í skotgrafirnar, því á meðan Þróttur sótti þá skapaðist færi á skyndisóknum. Það var í einni slíkri sem Katrín vann boltann, skilaði honum til Öglu Maríu sem skoraði með glæsilegu skoti með vinstri fæti. Þrenna á rúmum hálftíma!

Eins og gefur að skilja datt leikurinn svolítið niður í kjölfarið. Blikar héldu hins vegar dampi, leyfðu Þrótti aldrei að eiga möguleika á endurkomu og farseðlinum í undanúrslit var siglt heim í Kópavoginn af öryggi og yfirvegun. Heilsteypt og öflug frammistaða.

Auk Blika eru FH-ingar komnir í undanúrslit og á morgun kemur í ljós hver hin tvö liðin í pottinum verða þegar Víkingur R. og Selfoss mætast annars vegar og Keflavík og Stjarnan hins vegar. Undanúrslitin eru leikin 30. júní og 1. júlí og bikarúrslitaleikurinn sjálfur verður svo 12. ágúst á Laugardalsvelli.

Það er ljóst að stór hindrun er úr veginum. Svona öruggur sigur og góð frammistaða gegn sterku liði Þróttar sendir jafnframt skýr skilaboð fyrir framhaldið. Blikar ætla sér bikar.

AYV

Til baka