BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Tímamót og endurkomur á fallegu vorkvöldi

13.05.2022 image

Stórsigur í sól og blíðu á fallegu vorkvöldi í Vesturbænum. Það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda og 4-0 sigur Blika í 4. umferð Bestu-deildarinnar gegn KR var síst of stór. Sérstaklega gleðilegt var að sjá endurkomu leikmanna sem áttu mikinn þátt í sigurgöngu Breiðabliks síðustu ár.

Alexandra Jóhannsdóttir kom beint í byrjunarliðið eftir að hafa komið á láni frá Frankfurt í vikunni og það tók hana innan við fimm mínútur að koma Blikum yfir. Svona á að minna á sig!

Hildur Antonsdóttir bætti við öðru marki fyrir leikhlé eftir undirbúning frá Laufeyju Hörpu, sem var í fyrsta sinn í byrjunarliði Blika. Þriðja markið skoraði Heiðdís svo eftir mikla baráttu í kjölfar hornspyrnu, áður en varamaðurinn Karen María innsiglaði sigurinn með frábæru skoti frá vinstri. Sannfærandi frammistaða, hvert sem litið var.

Staðreyndin er nú sú að Blikar hafa skorað 11 mörk í fyrstu fjórum leikjunum, mest allra.

Gæðin lifa hrókeringar

Áfram var hrókerað í liðinu, sérstaklega á miðjunni þar sem breiddin er mest, og gott að sjá að gæðin halda sér sama hverjar eru paraðar saman. Það er gríðarlegur styrkur sem getur reynst liðinu vel í sumar. Þá virkaði vængspilið afar vel eins og í síðustu leikjum.

Í því sambandi er vert að minnast á hvað fyrirliðinn Ásta Eir hefur byrjað tímabilið vel, bæði sóknarlega með frábærum sendingum og gríðarlegri baráttu í vörn. Virkilega gaman að sjá.

Minnst var á heimkomu Alexöndru hér að ofan sem heldur betur stimplaði sig inn, en það var ekki síður gleðilegt að sjá Áslaugu Mundu snúa aftur þegar hún kom inn á í sínum 100. leik fyrir Breiðablik. Tímamót í endurkomunni og frábært að sjá hana aftur í grænu treyjunni, því það vita allir hvað hún getur innan vallar og hversu mikil fyrirmynd hún er utan hans.

image

Það þarf að hafa hausinn í lagi

Varðandi leikinn sjálfan þá var í raun aldrei spurning hvernig færi. Það að komast yfir strax í upphafi gerði líka í raun út um leikinn, því getumunurinn á liðunum á þessum tímapunkti er einfaldlega of mikill. Þarna reyndi því meira á hugarfar leikmanna sem ekki er síður mikilvægt að hafa í lagi. Að detta ekki í einhvern hlutlausan gír heldur halda dampi, keyra hlutina áfram og ekki sætta sig við stöðu þótt góð sé. Það er alls ekki sjálfsagt að það takist vel.

Áfram er jákvæðnin í fyrirrúmi og við treystum því að það haldi áfram á miðvikudaginn þegar ÍBV kemur í heimsókn á Kópavogsvöll.

Sjáumst á vellinum – áfram Breiðablik!

-AYV

Umfjallanir annarar netmiðla

Myndir: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson

Mörk og atvik úr leiknum í boði BlikarTV:

Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að skrifa efni, setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum Blikar.is. 

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum.

Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is

image

Til baka