1994
Breiðablik var komið í efstu deild, nefnd Trópí-deildin, á ný eftir árs fjarveru. Ingi Björn Albertsson, sá gamalkunni markahrókur, hafði stýrt liðinu til sigurs í 2. deild árinu áður og var áfram við stjórnvölinn. Gústaf Ómarsson sneri aftur í Kópavoginn eftir dvöl hjá Leiftri og Guðmundur Þ. Guðmundsson kom aftur heim eftir eitt ár hjá Víkingi. Einar Páll Tómasson, reyndur varnarjaxl úr Val, gekk til liðs við þá grænklæddu ásamt því að framherjinn Rastislav Lazorik, frá Slóvakíu, bættist við hópinn rétt fyrir mót.
Ingvaldur Gústafsson fór yfir til nágranna okkar í HK og Þorsteinn Geirsson lagði skóna á hilluna.
Liðið hafði því styrkst ágætlega frá árinu áður en það breytti því ekki að liðinu var spáð 9. sæti í árlegri spá þjálfara og forráðamanna. Eyjamenn fengu afgerandi fæst stig í spánni en hinum nýliðunum, Stjörnunni, var spáð 6. sæti deildarinnar. Titillinn átti að fara í vesturbæinn en KR voru einmitt fyrstu andstæðingar okkar þetta sumarið.
1. umferð
Vítaspyrna í súginn og Bonni í markinu. Fimm mörk á síðustu 22 mínútunum!
Þetta sumar byrjaði á eftirminnilegan hátt. Meistaraefnin í KR komu í heimsókn og mættu nýliðunum. Sólin skein, dúnalogn í Dalnum, og 2.010 áhorfendur mættir á völlinn. Leikurinn byrjaði vel hjá okkur mönnum og lítið var á milli liðanna sem var spáð í sitt hvorn endann á töflunni. Nokkur áföll dundu á okkur fyrir leikinn. Það hafði gleymst að ganga frá félagaskiptum Gústafs Ómarssonar í tæka tíð og Willum Þór Þórsson meiddist á síðustu æfingu fyrir leik. Ekki skánaði staðan eftir tvær mínútur þegar Valur Valsson þurfti að fara af leikvelli eftir að hafa fengið högg á bringuna – en okkar menn létu það ekki á sig frá og nældu sér í vítaspyrnu eftir 15 mínútur. Arnar Grétarsson fór á punktinn en spyrnan var varin. KR fékk vítaspyrnu skömmu síðar en Cardaklija varði sömuleiðis! Mikil dramatík í Dalnum.
Baráttan hélt áfram út hálfleikinn og það voru Blikar sem fengu besta færið; hefðu átt skilið að vera yfir þegar gengið var til búningsherbergja.
Í síðari hálfleik náðu KR-ingar betri tökum á leiknum en vörnin hélt þar til að leikurinn tók U-beygju á 68. mínútu. Þá hljóp mikið gjafmildi í þá grænklæddu og voru gjafir færðar í og við vítateig okkar manna. Blikar skiptust á að missa boltann þegar lítil hætta var á ferðum og þeir röndóttu sluppu í gegn hvað eftir annað og skoruðu. Þegar uppi var staðið höfðum við sótt knöttinn 5 sinnum í netið og, til að bæta gráu ofan á svart, misst Hajrudin Cardaklija af velli eftir að vítaspyrna var dæmd á hann í stöðunni 0-3. Jón Þórir Jónsson setti á sig hanskana, þar sem Breiðablik var búið að nota allar sínar skiptingar, og sýndi ágætis tilþrif í markinu en 0-5 skellur var niðurstaðan þetta kvöldið.
2. umferð
Annar skellur. Sama handrit hjá Blikum
Blkar mættu til Keflavíkur þremur dögum eftir skellinn gegn KR og liðið nokkuð laskað. Cardaklija var í banni og 18 ára nýliði, Gísli Þór Einarsson, stóð á milli stanganna þar sem varamarkvörðurinn Auðunn Sigurðsson var einnig meiddur.
Heimamenn komust yfir á 19. mínútu en leikurinn var í jafnvægi eftir það – þar til undir lokin að allar flóðgáttir opnuðust og lögðu Keflvíkingar okkar menn með fjórum mörkum gegn engu.
Staðan eftir tvær umferðir var því ekkert sérstök; tveir skellir og markatalan 0-9. Deginum áður hafði komið í ljós að Hajrudin Cardakilja var ekki bara í banni heldur einnig kominn á fjölmennan sjúkralistann og myndi vera þar um hríð. Guðmundur Hreiðarsson, sá hinn sami og lokaði Víkingsmarkinu í lokaleiknum tveimur árum áður með slæmum afleiðingum fyrir okkur Blika, var fenginn til liðs við félagið frá Stjörnunni.
Í lið Breiðabliks vantaði menn eins og Val Valsson, Hajrudin Cardaklija, Úlfar Óttarsson og Willum Þór Þórsson. Þetta var ástand sem átti eftir að vera viðvarandi yfir sumarið. Ávallt vantaði 2-3 lykilmenn og þegar einhver kom inn var hann ekki endilega í sínu besta standi.
3. umferð
Kærkominn sigur
Lund margs Kópavogsbúans léttist þegar okkar menn lögðu Eyjamenn örugglega, 2-0, í þriðju umferðinni. Sigurjón Kristjánsson skoraði fyrra mark Breiðabliks úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks. Friðrik Friðriksson, sem lék í markinu hjá Breiðabliki áratugi áður, varði svo aðra spyrnu frá Sigurjóni í síðari hálfleik áður en Jón Þórir Jónsson stangaði knöttinn í netið eftir fyrirgjöf Kristófers Sigurgeirssonar undir lok leiksins. Okkar menn lyftust af botni deildarinnar upp í 6. sæti.
4. umferð
Í fjórðu umferð lá leiðin í Kaplakrika þar sem við mættum heimamönnum í FH. Þeir hvítklæddu komust yfir á 51. mínútu og sóttu Blikar stíft það sem eftir lifði leiks en náðu ekki að jafna.
5. umferð
Dauðafæri í lokin
Það vantaði ekki fjörið þegar Safamýrarpiltar komu í heimsókn í 5. umferð. Blikar komust yfir í tvígang í fyrri hálfleik; fyrst skoraði Kristófer Sigurgeirsson með viðstöðulausu skoti fyrir utan teig og það síðara gerði Hákon Sverrisson með sjaldséðri kollspyrnu. Í bæði skiptin náðu Framarar að jafna metin um hæl.
Í þeim síðari gerðist fátt markvert þar til í blálokin. Framarar áttu skalla í slá og loks skot yfir af stuttu færi og hinumegin vallarins átti Rastislav Lazorik skot í stöng, boltinn hrökk til Guðmundar Þ. Guðmundssonar sem var fyrir opnu marki en skotið sveif rétt yfir slánna á marki þeirra bláklæddu. 2-2 jafntefli niðurstaðan.
6. umferð
Skellur á Skipaskaga
Úrslitin í leik Íslandsmeistara ÍA og Breiðabliks á Akranesi segja allt um gang leiksins. 6-0 sigur heimamanna.
7. umferð
Jón Stefánsson kom Blikum yfir á 13. mínútu gegn Þór frá Akureyri. Gestirnir jöfnuðu leikinn á 19. mínútu og þannig stóðu leikar í leikhléi. Þórsarar missti mann af velli á 55. mínútu fyrir að slá til Arnars Grétarssonar en okkar mönnum tókst ekki að nýta sér liðsmuninn og jafntefli varð niðurstaðan.
BIKAR: 2. umferð
Öruggur sigur á Grýluvelli
Nú var komið að bikarnum og brunuðu Blikar í blómabæinn Hveragerði og mættu þar heimamönnum í Hamri í fyrsta sinn í sögunni. Gamall félagi okkar, Guðmundur Baldursson, lék með þeim bláklæddu sem stóðu í okkar mönnum í til að byrja með en þeir grænu reyndust sterkari og máttu Hamarsmenn sækja knöttinn 5 sinnum í netið auk þess sem hann small í tréverki heimamanna í tvígang eftir bylmingsskot.
8. umferð
Valsmenn lagðir að velli
Eftir að hafa einungis náð einu jafntefli gegn Val í síðustu 9 leikjum félaganna tókst Ungmennafélaginu loks að leggja pilta séra Friðriks. Þeir grænklæddu voru frískari allan tímann. Grétar Steindórsson komst inn í sendingu frá markverði Vals og kom okkur í 1-0. Slóvakinn Rastislav Lazorik þaut svo fram úr varnarmönnum heimapilta og skoraði með góðu skoti og staðan orðin 2-0 fyrir okkar menn. Þannig var staðan þar til á 88. mínútu þegar Valsmenn minnkuðu muninn. Blikar fóru ekki á taugum við það og Arnar Grétarsson gulltryggði sigurinn á 90. mínútu eftir að hafa leikið á varnarmann.
Þrátt fyrir sigurinn var Breiðablik í 9. sæti með átta stig. Fram, ÍBV og Valur einnig með 8 stig í sætunum fyrir ofan en Stjarnan neðst með 5 stig og enn án sigurs. Garðbæingar voru einmitt næstu andstæðingar.
9. umferð
Botnslagur Breiðabliks og Stjörnunnar var síðasti leikur okkar í fyrri umferð deildarinnar. Breiðablik þremur stigum á undan og því mikið í húfi.
Leikurinn fór vel af stað hjá okkar drengjum. Gunnlaugur Einarsson gerði sér lítið fyrir og spyrnti knettinum í netið beint úr aukaspyrnu á 24. mínútu og þannig stóðu leikar í hléi. Eftir tesopann hresstust gestirnir, eða við gáfum eftir, hvernig sem á það er litið. Úr varð að þeir skoruðu í tvígang – og í bæði skiptin var að verki Eyjamaðurinn Leifur Geir Hafsteinsson sem margir hugsuðu ugglaust enn þegjandi þörfina eftir vítið '92.
Lyktir urðu því tap okkar manna og sátum við á botninum þegar mótið var hálfnað.
Staðan á botninum eftir 9 umferðir:
Þór924315-1210Valur92348-169ÍBV91536-108Stjarnan91538-138Breiðablik92259-228
BIKAR: 3. umferð
Blikar náðu að hefna ófaranna úr 2. umferðinni með því að slá Keflavík út úr bikarnum. Leikurinn var jafn og í daufari kantinum enda markalaust eftir framlengingu. Útkljá þurfti rimmuna með vítaspyrnukeppni. Þeir Arnar Grétarsson, Kristófer Sigurgeirsson, Grétar Steindórsson og Gunnlaugur Einarsson skoruðu úr spyrnum Breiðabliks, Guðmundur Hreiðarsson varði eina og síðasta spyrna Keflavíkur small í stönginni.
10. umferð
Sigur í Frostaskjóli
Minnugir 5-0 skellsins í fyrstu umferð fóru Blikar í Frostaskjólið og mættu heimamönnum í KR. Þeir röndóttu voru meira með knöttinn en Breiðabliksmenn sóttu hratt þegar færi gáfust og upp úr slíku upphlaupi skoraði Rastislav Lazorik með óvæntu skoti upp í samskeytin úr þröngu færi á meðan liðfélagar hans biðu eftir sendingu inn í vítateignum. Reyndist það sigurmarkið í leiknum og afar dýrmæt þrjú stig í húsi. Lyftust Blikar því af botninum og upp í 7. sætið með 11 stig.
BIKAR: 4. umferð
Aðeins nokkrum dögum eftir sigurinn í vesturbænum komu þeir röndóttu í heimsókn í Kópavoginn í bikarslag. Gestirnir byrjuðu betur og komust í 2-0 á 48. mínútu og allt stefndi í öruggan sigur. Sigurjón Kristjánsson minnkaði muninn á 79. mínútu og þá færðist fjör í leikinn. Færin komu á báða bóga og gul spjöld fóru á loft margsinnis á síðustu 10 mínútum leiksins en inn vildi knötturinn ekki og Blikar úr leik í bikarnum. KR-ingar fóru áfram og urðu bikarmeistarar, þeirra fyrsti stóri titill í 26 ár.
11. umferð
Blikar sóttu meira gegn Keflavík en höfðu ekki erindi sem erfiði. Suðurnesjamenn sóttu hratt og skoruðu í þrígang. Kristófer Sigurgeirsson skoraði mark Breiðabliks úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik.
12. umferð
Breiðablik tapaði dýrmætum stigum í botnbaráttunni í Vestmannaeyjum. ÍBV komst yfir á 5. mínútu og við misstum Úlfar Óttarsson og Sigurjón Kristjánsson útaf meidda á fyrsta hálftíma leiksins. Ágætis færi fóru í súginn undir lokin en 1-0 varð niðurstaðan. Við tapið misstum við Eyjamenn þremur stigum á undan okkur og sátum í 9. sæti með 11 stig eins og Þór. Stjarnan var neðst með 8 stig.
13. umferð
Það vantaði sex fastamenn í lið Breiðabliks sem fékk FH í heimsókn. Rastislav Lazorik, Sigurjón Kristjánsson, Grétar Steindórsson, Hajrudin Cardaklija, Úlfar Óttarsson og Einar Páll Tómasson voru allir fjarri góðu gamni. Á móti kom að Willum Þór Þórsson, markahæsti maður liðsins árið á undan, spilaði sinn fyrsta leik á tímabilinu.
Staðan var 1-1 þegar 10 mínútur lifðu leiks en þá fór allt í gang. FH skoraði 3 mörk og komst í 4-1 áður en þeir Gunnlaugur Einarsson og Kristófer Sigurgeirsson skoruðu á 89. og 90. mínútu en þar við sat og Breiðablik enn í 9. sæti deildarinnar.
Til að bæta gráu ofan á svart meiddist Arnar Grétarsson í landsleik tveimur dögum síðar og bættist við langan sjúkralistann.
14. umferð
Grátlegt tap á þjóðarleikvanginum
Breiðablik spilaði líklega sinn besta leik á tímabilinu á Laugardalsvellinum gegn Fram. Heimamenn komust yfir rétt fyrir leikhlé en Willum Þór Þórsson, sem var nýkominn á ról aftur, jafnaði metin á 55. mínútu. Blikar, sem léku án Arnars Grétarssonar, sóttu mikið og hefðu átt skilið að komast yfir en þess í stað skoraði Fram undir lok leiks og tryggði sér sigurinn.
Nú voru ekki nema fjórir leikir eftir í deildinni og staðan ekki góð. Breiðablik í 9. sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Þór og með mun lakari markatölu eftir skellina í byrjun móts. Næsti andstæðingur ekki árennilegur heldur – Íslandsmeistarar Skagamanna voru næstir í heimsókn en lið þeirra vann titilinn 5 ár í röð á þessum árum.
15. umferð
Blikar aftur nálægt sigri gegn gullaldarliði Skagamanna
Þetta sumarið voru Skagamenn ekki óskamótherjarnir þegar mikið var í húfi. Ekki nóg með að Íslandsmeistarar síðustu tveggja ára (og næstu þriggja) væru í heimsókn – heldur gátu þeir svo gott sem tryggt sér titilinn í blíðviðrinu í Kópavogsdalnum. Okkar menn voru í þröngri stöðu í deildinni; í fallsæti og ekki nema fjórir leikir eftir. Aukinheldur þurfti engan sagnfræðing til að muna eftir grátlegu 1-0 tapi gegn þeim gulu á sama velli tveimur árum árum. Þar áttu Blikar svo sannarlega sigurinn skilinn og það má auðveldlega reikna það út að eitthvað annað en fall hefði orðið niðurstaðan um það haustið ef sá leikur hefði unnist. En það er önnur saga.
Þessi leikur minnti um margt á leikinn tveimur árum áður. Breiðablik átti í fullu tré við Skagamenn og mörg góð færi litu dagsins ljós. Vissulega voru þeir gulu hættulegir líka en sigurmarkið í leiknum var álíka grátlegt og kollspyrna gestanna á lokamínútum tveimur árum fyrr – sem var fyrir utan teig merkilegt nokk.
Nú var það hafsent Breiðabliksliðsins, Einar Páll Tómasson, sem varð fyrir því óláni að þruma knettinum í eigið net af um 25 metra færi. Cardaklija átti ekki möguleika í markinu. Slysalegt mark en það dugði til og réði úrslitum.
Nú syrti hressilega í álinn. Þrír leikir eftir og ungmennafélagið í botnsætinu með 11 stig eins og Stjarnan í því níunda. Við þurftum að tosa okkur upp fyrir Garðbæinga og einnig Þórsara sem voru þremur stigum á undan og með mun betri markatölu. Næstu andstæðingar: Þór – fyrir norðan!
16. umferð
Líflína eftir sigur á Akureyri
Breiðabliksmenn mættu á Akureyrarvöll og það var alveg ljóst hvaða afleiðingar tap myndi hafa í för með sér fyrir þá grænklæddu: Fall í 2. deild. Liðið hafði blessunarlega verið að ná vopnum sínum í síðustu leikjum. Menn að koma til baka úr meiðslum og ef sanngirni væri til í fótbolta hefðu í það minnsta 4 stig bæst í pokann í síðustu tveimur leikjum á undan. Nú reyndi á menn að sýna úr hverju þeir væru gerðir.
Rastislav Lazorik, Slóvakinn tindilfætti, var í góðu standi og hafði ógnað í síðustu leikjum. Hann gerði sér lítið fyrir og þrumaði soppnum í netið beint úr aukaspyrnu langt fyrir utan teig. Arnar Grétarsson hélt fjórum varnarmönnum Þórs uppteknum og lagði knöttinn á Willum Þór Þórsson utarlega í teignum. Sá hikaði hvergi og sendi knöttinn umsvifalaust í netið með þéttingsfastri innanfótarspyrnu. Staðan 2-0 og menn önduðu léttar.
Á 86. mínútu gerðist það að nokkuð hættulaus bolti hrökk af varnarmanni Breiðabliks fyrir fætur sóknarmanns Þórs sem gat ekki annað en skorað. Hjörtu stuðningsmanna er hlýddu á viðtækin tóku nokkur aukaslög. Lazorik var snöggur að létta pressunni á ný og skoraði með góðu skoti fyrir utan teig eftir að hafa leikið á varnarmann og tekið nokkra úr leik með þríhyrningsspili við Val Valsson.
Stjarnan tapaði gegn Val og fórum við því upp fyrir þá upp í 9. sætið, nú með 14 stig eins og Þór en lakari markatölu. Tveir leikir voru eftir, Valur heima og Stjarnan úti.
17. umferð
Willum skorar aftur og Blikar loks úr fallsæti
Valsmenn komu í heimsókn og allt var undir. Tap gæti komið okkur í vond mál aftur ef Þór myndi ná stigi eða stigum í Frostaskjóli. Okkar menn héldu áfram á sömu nótum og sóttu stíft. Eftir þunga sókn á 18. mínútu sendi Kristófer Sigurgeirsson knöttinn í fyrstu snertingu á Willum Þór Þórsson, sem tók vel á móti og stýrði boltanum í netið af yfirvegun og kom Blikum yfir. Annar leikurinn í röð sem Willum skoraði í. Á hinum enda vallarins var 15 ára gamall Valsmaður, Eiður Smári Gudjohnsen, að valda usla og kom sér í þrjú góð færi, í eitt skiptið small knötturinn í tréverkinu.
Taugarnar voru þandar á Kópavogsvellinum og mörg vasadiskóin stillt á útvarpslýsingu frá leikjum kvöldins. Þórsarar voru yfir í Frostaskjóli. Nú mátti ekkert klikka. Rastislav Lazorik var sprækur sem fyrr og kom okkur í 2-0 með afar góðu slútti; sendi markvörð Vals niður í jörðina áður en hann spyrnti í netið. Sigurinn var í sjónmáli og nú fóru menn að hlusta enn meira á lýsinguna. KR jafnaði í 2-2 gegn Þór. Það var gott. Við gætum komist tveimur stigum upp fyrir norðanmenn ef það yrðu lyktir leiksins. Dómarinn flautaði til leiksloka. Það var fagnað. Í hátalarakerfinu var tilkynnt að KR hefði skorað í lokin og unnið 3-2! Ekki minnkuðu fagnaðarlætin mikið við það.
Við vorum nú þremur stigum á undan Þór í 8. sætinu, komnir úr fallsæti, en með lakari markatölu fyrir lokaumferðina. Tap í Garðabæ gæti sent okkur niður en jafntefli myndi duga. Minnugir örlaganna frá 1992, þar sem okkur mistókst að ná í þetta eina stig sem þurfti í síðustu tveimur leikjunum, var enginn í rónni.
18. umferð
Þriðji sigurinn í röð og sætið tryggt
Spennan var feykileg í Garðabænum. Þórsarar urðu að vinna Keflavík og treysta á að við Blikar myndum tapa gegn Stjörnumönnum sem voru þegar fallnir. Þór komst yfir á 9. mínútu og gullu þau tíðindi við í viðtækjunum. Spenna komin í gang, tap myndi senda okkur lóðbeint niður. Stjarnan byrjaði leikinn vel enda alþekkt að lið sem eru þegar fallin leiki vel í lokin. Vilhjálmur Kári Haraldsson fékk boltann fyrir utan teig og lét vaða á markið; boltinn sveif í fjærhornið og söng þar í netinu. Hans fyrsta – og eina – mark í efstu deild og kom það á góðum tíma.
Okkar piltar létu kné fylgja kviði og þeir Kristófer Sigurgeirsson, Arnar Grétarsson og Willum Þór Þórsson fóru mikinn á vellinum. Í upphafi síðari hálfleiks léku þeir Arnar og Willum vörn Garðbæinga sundur og saman og sendi Arnar knöttinn í stöng og inn frá vítateig. Þá fór að léttast á mönnum brúnin í brekkunni. Nú var jafnt hjá Þór og Keflavík og allt leit þokkalega út. Stjarnan fékk hornspyrnu og boltinn var stangaður í netið. 2-1 staðan og smá stress gerði aftur vart við sig. Ekki mikið þó. Einn Stjörnumaður hljóp á sig skömmu síðar og var sendur í bað. Eftir það voru Garðbæingar ekki líklegir og eftir lipra takta sendi Willum boltann í netið frá vítateig og skoraði þar með í þriðja leiknum í röð. Var hann kallaður bjargvætturinn í nokkurn tíma eftir og ekki að ósekju.
Dómarinn blés í hljóðpípu sína skömmu síðar og sætið í efstu deild var tryggt og rúmlega það. Blikar enduðu í 7. sæti og var það verskuldað; liðið beit í skjaldarrendur eftir erfiða byrjun og mikið mótlæti í meiðslum lykilmanna.
Skagamenn urðu Íslandsmeistarar þriðja árið í röð og KR vann sinn fyrsta titil í 26 ár þegar þeir urðu bikarmeistarar.
Arnar Grétarsson lék með A-landsliðinu sem fyrr og Kristófer Sigurgeirsson spilaði einnig þetta árið, lagði upp sigurmark gegn Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
2. flokkur karla varð bikarmeistari.
-GSG
Lokastaðan 1994
L | U | J | T | MÖRK | STIG | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|
ÍA | 18 | 12 | 3 | 3 | 35-11 | 39 | |
FH | 18 | 11 | 3 | 4 | 26-16 | 36 | |
ÍBK | 18 | 8 | 7 | 3 | 36-24 | 31 | |
Valur | 18 | 8 | 4 | 6 | 25-25 | 28 | |
KR | 18 | 7 | 6 | 5 | 28-20 | 27 | |
Fram | 18 | 4 | 8 | 6 | 27-30 | 20 | |
Breiðablik | 18 | 6 | 2 | 10 | 23-35 | 20 | |
ÍBV | 18 | 4 | 7 | 7 | 22-29 | 19 | |
Þór | 18 | 3 | 5 | 10 | 27-38 | 14 | |
Stjarnan | 18 | 2 | 5 | 11 | 18-39 | 11 |