Annar bjartari og fullkomnari heimur
25.08.2021
Það var eins og að koma í annað land að lenda síðdegis miðvikudaginn 25. ágúst á Akureyri „sem er öðrum meiri, með útgerð, dráttarbraut og Sjallans paradís,“ eins og Kristján frá Djúpalæk kvað forðum og hljómsveit Ingimars Eydal flutti svo eftirminnilega. Í flugstöðinni mætti kappklæddum ferðalöngum að sunnan fólk „í sandölum og ermalausum bol“. Það var greinilega engu logið um veðurfarið. Vítt og breitt um bæinn mátti sjá unga sem aldna í grænum treyjum – og líka gulklædda – gera vel við sig á útiveitingastöðum og spóka sig í göngugötunni. Röðin í Ísbúðinni Akureyri var löng – en hverrar mínútu virði. Þetta var eins og í útlöndum. Eiginlega eins og í hitanum á EM í Frakklandi.
Það var eins og að koma í annað land að lenda síðdegis miðvikudaginn 25. ágúst á Akureyri
Mikið undir á Greifavelli
Það var með öðrum orðum suðræn stemmning í höfuðstað hins bjarta norðurs þegar gulir og grænir gengu inn á Greifavöllinn. Tap heimamanna þýddi að þeir væru úr leik í titilbaráttunni en jafnframt að gestirnir færu á toppinn. Blikar lögðu KA á Kópavogsvelli fyrir fjórum dögum. Spekingar sögðu í aðdraganda þess leiks að færu heimamenn þá með sigur af hólmi sýndi sagan að jafntefli væri líklegasta niðurstaðan á Akureyri. Það yrði aftur á móti það sama og tap fyrir KA.
Það var því mikið undir og var spennan nánast áþreifanleg í stúkunni. Vallarþulurinn sá meira að segja ástæðu til að minna gesti á að vera ekki með skítkast og leyfa dómaranum að sinna sínu starfi. „Verum kurteis en verum brjáluð,“ sagði hann áður en flautað var til leiks.
Alexander og Viktor Örn voru í banni en að öðru leyti var lið okkar manna þannig skipað:
„Eitt lið á vellinum“
En aftur að hinni suðrænu stemmningu. Það var eins og Blikar héldu að þeir væru komnir suður til Ítalíu og þyrftu að liggja þéttir til baka á móti sterku liði úr Seria A. Að minnsta kosti tóku KA-menn öll völd í byrjun og sóttu mjög upp hægri kantinn þar sem Finnur Orri leysti litla bróður af í stöðu miðvarðar. Dagskipun okkar góða félaga, Arnars Grétarssonar, var greinilega að herja á gestina á þessum hluta vallarins.
„Það er eitt lið á vellinum, la, la, la, la, la“ sungu líflegir heimamenn í stúkunni og má það vissulega til sanns vegar færa. Uppspilið var greinilega ekki það sama án Viktors Arnar og ógnin úr öftustu línu ekki sú sama. Að minnsta kosti punktaði tíðindamaður hins virta miðils Blikar.is hjá sér fyrstu hornspyrnu okkar manna eftir 22 mínútur. Ætli það sé innanfélagsmet í sumar? Ekkert kom út úr horninu en mínútu síðar æddi Jason Daði upp völlinn, gaf fyrir en skot Árna Vill var varið.
Að öðru leyti var lítið um færi í hálfleiknum, jú, Anton Ari varði skot, Kristinn Steindórsson rann á rassinn í teig heimamanna þegar hann var að komast í vænlega stöðu – og var hann hvorki sá fyrsti né síðasti sem skrikaði fótur á Greifavellinum þetta fallega síðdegi. KA-menn létu finna vel fyrir sér og var okkar gamli félagi í peysu heimamanna ekki alltaf sáttur við ákvarðanir dómarans og hlaut alvarlegt tiltal á 37. mínútu.
Finnur Orri leysti litla bróður af í stöðu miðvarðar
Höskuldarviðvörun
Í hálfleik var mikið spáð og spekúlerað, bæði rætt um blíðuna og frammistöðu okkar manna. Hinir langt að komnu gestir í brekkunni voru nokkuð sáttir með gang mála, þetta væri vissulega ekki sama teppið og í Smáranum, og byrjunin heldur dauf, en þetta liti ekkert illa út. Vaskir félagar í Kópacabana börðu trommur og sungu – þetta gat ekki farið illa.
Og þá gerðist það að nú dró úr hinni suðrænu stemmningu á vellinum. Sólin hvarf á bak við vesturfjöllin í Eyjafirði og skuggi færðist yfir. Þar með lækkaði hitastigið og nálgaðist það sem gerist á bestu sumardögum syðra. Það hlaut að vita á gott.
Enda var ekki að sökum að spyrja. Í stað þess að hefja síðari hálfleikinn með því að gefa andstæðingunum mark til að koma blóðinu á hreyfingu í stuðningsmönnunum ákváðu Blikar að gera þveröfugt. Þeir hófu hraða sókn þar sem tíðindamaður Blikar.is tók sérstaklega eftir Höskuldi spretta frá miðjupunktinum út á hægri kant og þaðan í átt að endamörkum. Það gat ekki vitað á gott fyrir heimamenn. Þar fékk hann boltann frá Viktori Karli, sendi fyrir en æ! KA-maður slæmdi fæti fyrir boltann! Nema hvað – Kristinn Steindórsson stökk manna hæst og nikkaði boltanum snyrtilega í hornið fjær. 0-1 og 45.39 á vallarklukkunni.
„Sofa til skiptis systur tvær“
Þetta kom sem reiðarslag fyrir heimamenn. Þeim fannst líklega veður skjótt hafa skipast í lofti í ýmsum skilningi. Kannski fóru þeir með þessar línur Matthíasar Jochumssonar, skálds og prests á Akureyri: „Sofa til skiptis systur tvær / sín á hvoru beði, / hjá oss gjarnan hírast þær, / heita Sorg og Gleði.“ Nema nú var sem aðeins önnur systirin hírðist hjá þeim.
Og ekki batnaði staðan hjá þeim níu mínútum síðar. Kristinn Steindórsson braust af harðfylgi inn af hægri kanti og sendi eina af sínum snilldarsendingum inn í teig á Árna Vill.
Árni Vill á Skáldstöðum efri
Mér fannst sem Árni staldraði sekúndubrot við. Kannski var hann að hugsa til Kjartans Júlíussonar á Skáldstöðum efri sem eru innarlega í Eyjafirði. Kjartan sendi frá sér bókina Reginfjöll á haustnóttum á ofanverðum áttunda áratugnum. Ekki minni maður en Halldór Laxness skrifaði formála að bókinni þar sem hann hældi stíl þessa afdalabónda. Þar segir Kjartan á einum stað (og líklega hefur Árni einmitt verið að hugleiða þessi orð þar sem hann stóð aðeins við í vítateig KA-manna):
„Þetta var fagurt sem draumsýn. Það var eins og að vera kominn í annan bjartari og fullkomnari heim, einhverja furðurveröld þar sem engir harmar og ekkert böl er til. Mér fannst ég stækka og verða betri í andanum, meira að segja sæll og hamingjusamur að standa þarna og horfa. — Stara.“
Og þegar Árni hafði lokið við að hugleiða þessi orð Skáldstaðabóndans um víðáttur og einveru, slitið störuna, sneri hann sér við og setti boltann í mark heimamanna.
Blikar fagna seinna markinu. Mynd: OWK
„Gæðingurinn mesti“
Eftir þetta má segja að leikurinn hafi verið búinn. Þreföld skipting heimamanna breytti engu, nema hvað Elfar Árni, sem við þekkjum að góðu einu, kom af krafti inn af bekknum og reyndi að hrella sína gömlu félaga, kannski í anda kvæðis Davís Stefánssonar frá Fagraskógi: „Hart er að verða að híma undir vegg / og hafa verið gæðingurinn mesti.“ Aðstoðarþjálfari KA fékk gult spjald fyrir að tala óvarlega til dómaranna, jú og Höskuldur komst í gott færi en varnarmaður bjargaði í horn.
Alexander Helgi og Viktor Örn voru í banni en nutu leiksins í grasbrekkunni á Greifavellinum. Mynd: OWK
„Fellum saman stein við stein“
Eftir brösuga byrjun – sem hlýtur að skrifast á alltof gott veður– komust okkar menn betur inn í leikinn. Þeir börðust af krafti og einurð, mynduðu þéttan varnarmúr eins og Matthías Jochumsson lýsir í kvæði: „fellum saman stein við stein, / styðjum hverjir annan.“ Sóknarleikurinn hefur oft verið beittari en við hljótum að vera sátt með tvö mörk, þrjú stig og efsta sætið í deildinni. Á toppnum er svolítið eins og maður sé kominn í „annan bjartari og fullkomnari heim.“
En það þýðir lítið að staldra við þennan sigur. Framundan er útileikur á móti Fylki sem berst fyrir lífi sínu í deildinni. Þegar þetta er skrifað „efst á Öxnadalsheiði – eða ég veit ekki hvar“ (S/H draumur) er spáð 14 stiga hita og 67% rakastigi á sunnudagskvöldið í Reykjavík. Það ætti að henta Blikum betur en Miðjarðarhafsloftslagið á Greifavelllinum. Nú er þetta í höndum okkar manna!
PMÓ