Auðvelt og sætt
21.05.2021
Eftir þrjá þunga leiki af fjórum í upphafi tímabils var kærkomið að fá nágrannaslag til að æsa upp í okkur sem höfum Breiðablik fyrir trúabrögð. Fréttaritari, sem er samviskusamlega skírður af klerkum þjóðkirkjunnar Freyr Snorrason, hafði þó upplifað ofsakvíðaköst nánast öll önnur kvöld vikunnar vegna þeirra erlendra fótboltaliða sem hann heldur upp á. Forza Bröndby og Chelsea! Ég var því tilbúinn með Valíum via Telegram ef leikurinn myndi snúast upp í ofsaspennu. Sem hann var svo sannarlega ekki.
Óskar, Dóri, Óli P, Jökull og allt teymið hafði kjarnað sig upp í Engihjalla daginn fyrir leik en í dag fóru þeir svo á hið mjög furðulega auða svæði sem er sunnan við Fífuna og Car-Park og þess bæjarfélags sem við kjósum ekki að ræða um. Ekki vegna ótta heldur vegna þess að það er algjör óþarfi að eyða tíma sínum í ómerkilega hluti. Á þessu eiginlega einskismannslandi var byrjunarliðið teiknað upp. Eftir allar bollaleggingarnar og þegar allar mögulega sviðsmyndir voru yfirfarnar var útkoman þessi:
Við byrjuðum leikinn nokkuð sterkt og ógnuðum ágætlega. Takturinn datt þó smá úr liðinu þegar að Thomas Mikkelsen fór meiddur útaf á 9. mínútu leiksins, líklega nárameiðsli. Skila góðri batakveðju á Thomas. Kristinn Steindórsson kom inn á, hann þurfti smá stund til að finna taktinn sem hann svo sannarlega gerði svo. Því á 29. mínútu átti Höskuldur fína fyrirgjöf sem fann Gísla Eyjólfs og af honum í stöngina, þá mætti Kristinn Steindórsson og lagði boltann í autt markið. Takk fyrir! Við markið vöknuðum við til lífsins og vorum miiiiiiiklu betri. Það var eiginlega bara ótrúlegt að sjá hversu slakir stjörnumenn eru. Við hefðum þó átt að nýta stöðurnar okkar betur en 1-0 inn í hálfleik var ásættanlegt.
Það var svo eftir klukkutíma leik sem við komumst verðskuldað í 2-0. Höskuldur fór í einn tvo við Gísla Eyjólfs og kom svo með fína fyrirgjöf sem fór af haraldri markverði stjörnumanna og þaðan hátt upp í loft, þá kom Viktor Örn Margeirsson og stangaði hann inn. Sannkallaðar senur á Kópavogsvelli. VÖM að delivera marki! Við róuðumst við það að komast í 2-0 og það var kominn uppgjafarfílingur í garðbæinga.
Árni sem hafði áður í leiknum komist í dauðafæri en brennt af skilaði heldur betur til baka á 74. mín. Oliver kom þá með flotta aukaspyrnu frá hægri væng, Árni tók djúpt hlaup og hlóð í glæsilegan flugskalla sem endaði í netinu. Geggjað mark. Takk Árni.
Finnur Orri og Jason Daði var skipt inn á. Út fóru Alexander Helgi og Árni Vil. Þeir komu báðir vel inn í þetta. Í uppbótartíma skoraði svo Höggi fyrirliði frábært mark eftir góðan undirbúning Jasonar Daða.
Þessi leikur var allt annað en það sem við buðum upp á gegn Víkingum, vörnin var þétt og góð. Anton Ari fær líka stórt hrós hann varði ágætlega nokkrum sinnum og var öruggur í öllum sínum aðgerðum. Boltarnir út úr vörninni voru geggjaðir. Damir og VÖM líka góðir! Megum ekki fara fram úr okkur, stjarnan litu hrikalega illa út miðað við seinustu ár, fyrir vikið var minni derby bragur á þessum leik en ég hafði haldið. Höldum áfram byggjum á þessu og þrýstum okkur áfram upp töfluna.
Freyr Snorrason
Myndaveisla í boði Helga Viðars hjá BlikarTV