Blikar komnir í undanúrslit
20.03.2021
Blikaliðið er komið í undanúrslit Lengjubikarsins með 2:1 sigri á gulklæddum KA-mönnum. Það voru stórglæsileg mörk frá þeim Jasoni Daða Svanþórssyni og Viktori Karli Einarssyni undir lok fyrri háfleiks sem tryggðu okkur þetta sæti. Við hleyptum gestunum inn í leikinn með klaufalegu marki fljótlega í seinni hálfleik en náðum sem betur að halda markinu hreinu það sem eftir lifði leiks. Við mætum Keflvíkingum i undanúrslitum á Kópavogsvelli 1. apríl kl.16:00.
Kópacabanadrengirnir mættu frískir í stúkuna og lofar frammistaða þeirra góðu fyrir sumarið. Áfram svona drengir! Fyrri hálfleikur var bara nokkuð góður hjá Blikaliðinu. Gestirnir voru reyndar frískir í byrjun en smám saman hertum við tökin á leiknum. Nokkur hálf-færi sáu dagsins ljós og síðan var mark dæmt af Thomasi (réttilega) vegna rangstöðu. En Thomas kom knettinum nokkrum mínútum síðar á Jason Daða sem setti boltann í netið með hörku skoti. Aðeins tveimur mínútum síðar sýndi Jason Daði Zlatan-tilþrif er hann kom knettinum á Viktor Karl sem kláraði færið vel.
Blikaliðið kom vel peppað inn í seinni hálfleikinn og hefði átt að setja 1-2 kvikindi. En þess í stað gáfum við Norðanpiltum ódýrt mark. Það var eins og Blikaliðið tapaði aðeins taktinum við þessi mistök. KA-menn sóttu hart að okkur undir lokin en sem betur fer náðum við halda þetta út. Í heildina getum við samt verið ánægð með spilamennsku þeirra grænklæddu. Við verðum bara að klára þau færi sem við fáum og loka leikjunum. Það verður að hrósa drengjunum úr Mosfellsbænum sérstakleg fyrir þeirra framlag í leiknum. Róbert Orri snýtti Johnathan Hendrizk á kantinum og Jason Daði sýndi enn einn stórleikinn i sókninni. Það er munur að fá svona sendingu frá UMSK-félögum okkar í Aftureldingu!
Það gladdi Blika þegar Elfar Freyr Helgason mætti til leiks í síðari háfleik eftir að hafa glímt við meiðsli í undanförnum leikjum. Þess má geta að þetta var 289 leikur Elfars Freys fyrir Blikaliðið og jafnaði hann þar með Arnar Grétarsson, núverandi þjálfara KA-liðsins, sem þriðji leikjahæsti Bliki frá upphafi. Aðeins Olgeir Sigurgeirsson (321) og Andri Rafn Yeoman (351) hafa spilað fleiri leiki í grænu treyjunni.
Enn er nokkuð um meiðsli í Blikaliðinu. En vonandi verða sem flestir komnir i lag fljótlega því það styttist i fyrsta leik á Íslandsmótinu 2021.
-AP
Mörkin úr leiknum: