Blikar sigurvegarar!
06.02.2021
Blikarnir unnu öruggan 5:1 sigur á Skagamönnum í úrslitum Fótbolta.net mótsins í knattspyrnu árið 2021. Þar með hefndu okkar strákar grimmilega fyrir 5:2 tapið í úrslitunum gegn þeim gulklæddu á mótinu í fyrra. Þeir grænklæddu komu mjög ákveðnir til leiks á Kópavogsvelli í gær og kláruðu í raun leikinn á fyrsta korteri leiksins. Snilldartaktar sáust hjá Blikaliðinu og voru mörkin hvert öðru glæsilegra. Þessi byrjun Blikaliðsins lofar góðu fyrir framhaldið enda munu fá lið standa okkur snúning ef við spilum eins og við gerðum í gær.
Blikaliðið hóf leikinn á stórsókn og virtust gestirnir ofan af Skipaskaga ekki vita sitt rjúkandi ráð. Gísli setti fyrsta markið strax á fimmtu mínútu með þéttu skoti úr teignum eftir mjög góðan undirbúning Jasons Daða og Thomasar. Næsta mark kom á níundu mínútu og var það ekki síðra. Davíð átti góða sendingu upp í hornið á Gísla sem náði fínni fyrirgjöf fyrir markið þrátt fyrir pressu Skagapilta. Þar mætti danska dýnamítið Thomas og skallaði knöttinn örugglega í netið. Á 13. mínútu var komið að Binna að opna markareikninginn sinn. Skagamenn áttu hornspyrnu en Gísli náði knettinum og geystist fram. Eftir gott þríhyrningsspil við Jason Daða renndi Gísli svo knettinum mjög óeigingjarnt út á Binna sem skoraði án erfiðleika. Átta mínútum fyrir leikhléið kom enn eitt snilldarmarkið. Davíð, Höskuldur og Gísli splundruðu vörn gestanna og komu knettinum á Binna sem kláraði færið sitt vel.
Mörk og atvik úr leiknum í boði BlikarTV
Yfirburðir Blika héldu áfram í síðari hálfleik. En við náðum ekki að nýta færin jafn vel og í þeim fyrri. En Brynjólfur fullkomnaði samt fyrstu þrennu sína með meistaraflokki fljótlega í hálfleiknum með þéttingsskoti eftir góða stungusendingu Jasons Daða. Hjartanlega til hamingju Brynjólfur Willumsson Andersen! En það verður líka að hrósa Jasoni Daða Svanþórssyni fyrir stoðsendingarnar i leiknum. Mosfellingurinn er heldur betur búinn að standa sig vel í fyrstu leikjunum í græna búningnum. Svo má ekki gleyma Gísla Eyjólfssyni sem var frábær í leiknum. Hann kom að undirbúningi fjögurra marka og skoraði síðan eitt! Geri aðrir betur! En það er líka hægt að hrósa öllu Blikaliðinu fyrir frammistöðu sína í leiknum. Hraðinn og ákefðin í liðinu er til fyrirmyndar. Nokkrir ungir leikmenn fengu að spreyta sig í leiknum og stóðu sig vel. Það vantaði samt marga sterka leikmenn þannig að breiddin er greinilega mikil hjá okkur.
Brynjólfur Andersen skoraði þrennu í leiknum. Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Nokkrir ungir leikmenn fengu að spreyta sig í leiknum og stóðu sig vel. Hér eru þeir Tómas Orri Róbertsson, Kári Vilberg Atlason, Birkir Jakob Jónsson (með bikarinn) og Arnar Númi Gíslason. Allir eru þeir 16 ára nema Birkir Jakob sem er 15 ára. Birkir varð í gærkvöld yngstur Blika til að spila mótsleik þegar hann kom inn á í leiknum aðeins 15 ára og 236 daga gamall. Til hamingju Birkir Jakob.
Yngstur Blika til að spila í efstu deild er Kristian Nökkvi Hlynsson þegar hann kom inn á í leik gegn KR á Kópavogsvelli í september 2019 þá 15 ára og 248 daga gamall.
Næsta verkefni er Lengjubikarinn. Þar hefjum við leik gegn nýliðum Leiknis í Breiðholti á Kópavogsvelli n.k. föstudag kl.19.00. En einnig erum við með Þrótti R., Fjölni, Fylki og ÍBV í riðli.
-AP
Myndaveisla í boði Huldu Margrétar ljósmyndara
Myndir: Fótbolti.net - Hulda Margrét