BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fall með 4,9?

21.09.2020 image

Enn eitt prófið beið Blika á Kópavogsvelli þetta mánudagskvöldið, röndóttu Íslandsmeistararnir úr Vesturbæ Reykjavíkur voru mættir. Innanborðs hjá þeim eins og áður nokkrir Blikar sem áttu þátt í að tryggja Blikum sinn Íslandsmeistaratitil fyrir 10 árum síðan. Það var hinsvegar ekki að fara að skipta neinu máli í kvöld, nema þá kannski að skapa smá hita og átök á vellinum. Damir á bekknum hjá Blikum.

image

Er persónulega meinilla við að minnast á það en KR liðið er búið að sigra þá grænu tvisvar sinnum í sumar, fyrst í deild og svo í Mjólkurbikarnum á Kópavogsvelli. Samtals hafa verið skoruð 10 mörk í leikjum þessara liða í sumar og því var von á fjöri í kvöld.

Brynjólfur ætlaði að nýta meðvindinn strax á fyrstu mínútu og skaut að marki af frekar löngu færi en boltinn fór framhjá, um að gera að reyna. Blikarnir náðu að láta boltann fljóta fyrstu 10 mínúturnar og sköpuðu hættu úr föstum leikatriðum, Gísli Eyjólfs skallaði boltann rétt framhjá úr horni og var steinhissa á að sjá boltann ekki í netinu.

Það var því eins og blaut tuska beint af vinstri kantinum þegar KR komst í 0-1 forystu þegar um 10 mínútur voru búnar af leiknum. Stefán Árni átti flotta sendingu inn fyrir vörn Blika sem virtist aðeins áttavillt og Ægir Jarl skoraði af öryggi.

Blikar héldu áfram að reyna að byggja upp sóknir, Mikkelsen var nálægt því að ná flottri sendingu inn fyrir vörn KR og svo skaut Gísli Eyjólfs framhjá í frábæru færi á teignum hjá KR. Ef að menn ætla sér að vinna svona leiki þá verða menn að nýta þessi færi. Staðan 0-1 í hálfleik fyrir KR.

Stutta samantektin á þessum fyrri hálfleik er sú að það fór mikil orka í pirring sem virtist vera allsstaðar á vellinum, töluvert um pústra og menn að keyra fast í hvorn annan. Augljóslega mikið undir hjá báðum liðum en fyrir leikinn sátu KR í 6. sæti og Blikar í því 4.

Seinni hálfleikur byrjaði með látum þegar að Viktor Margeirs gerði sig sekan um mistök og Óskar Örn sem var að setja leikjamet í efstu deild skaut rétt framhjá, Blikar sluppu með skrekkinn. Endurtekin saga, fastir liðir eins og venjulega. Blika liðið er of oft að lenda í því að gefa mörk eða næstum því gefa mörk í þessu leikkerfi sem verið er að spila.

Það gekk ýmislegt á í þessum seinni hálfleik og pirringur Blika virtist aukast með hverri mínútunni sem leið, hausinn var á köflum alveg við það að fjúka af mönnum en liðið náði að halda sönsum eða svo gott sem. Þegar um korter var eftir af leiknum gerði Óskar Hrafn tvöfalda skiptingu, Alexander Helgi og Stefán Ingi komu þá inn fyrir Brynjólf og Viktor Karl.

Skömmu síðar vildu Blikar fá vítaspyrnu þegar að Mikkelsen fór niður í teignum eftir átök við Arnór Svein. Bekkurinn hjá Blikum brjálaðist í kjölfarið og uppskar gult spjald, Blikar höfðu alveg eitthvað til síns máls og Arnór hékk aðeins í Mikkelsen en ekkert víti dæmt.

Þegar 10 mínútur voru eftir þá gerðu Blikar sig aftur seka um hræðileg mistök þegar að Elfar Freyr missti boltann í lappirnar á Óskari Erni sem komst fyrir vikið einn í gegn. Viktor Örn náði að hlaupa hann uppi en það fór ekki betur en svo að Viktor potaði boltanum í eigið mark og staðan 0-2 fyrir KR.

Staðreynd kvöldsins er sú að Blikar hafa haldið þrisvar sinnum hreinu í sumar, staðreynd sumarsins er sú að Blikar hafa tapað þrisvar sinnum fyrir KR með markatölunni 9-3 en ekki nóg með það heldur eru Blikar búnir að stimpla sig út úr öllum umræðum um titil. Tap á móti FH í síðasta leik og tap á móti KR í kvöld tryggja það.

Óskar Hrafn þjálfari talaði um það eftir leik að munurinn á KR og Breiðablik væri sá að KR héldi skipulagi og að þeir hefðu trú á skipulaginu sem verið væri að spila. Næsti leikur hjá Blikum verður á móti vel særðu Stjörnuliði sem fengu 5 mörk á sig á heimavelli á fyrstu 30 mínútum á móti Val í kvöld. Spurningin sem menn hljóta að hafa fyrir þann leik er sú hvort menn hafi trú á skipulaginu og munu menn halda því? 

Það eru átta leikir eftir af mótinu og tveir af þeim leikjum eru á móti Stjörnunni. Ef að Breiðablik ætlar sér að gera eitthvað í sumar þá kemur ekkert annað til greina en sigur á grönnum okkar í Garðabænum. Hvíld á morgun, skipulagsvinna á miðvikudaginn og leikur á fimmtudaginn. Engin miskunn, þessi deild er ekki búin og Blikar eru ekki alveg fallnir á prófinu. Menn tala um að það sé ákveðin vegferð í gangi en það þarf samt sem áður að skila árangri þegar talað er um félag eins og Breiðablik.

KIG

Umfjöllun fjölmiðla um leikinn.

Til baka