Frábær endurkomusigur í Lúxemborg!
08.07.2021
Blikar unnu frábæran 2:3 karaktersigur á Racing Union frá Lúxemborg á útivelli í fyrstu umferð Sambandsdeildar UEFA í dag. Þrátt fyrir að lenda 2:0 undir í fyrri hálfleik gáfust okkar piltar ekki upp og lönduðu að lokum dýrmætum útivallarsigri. Það voru þeir Gísli Eyjólfsson, Thomas Mikkelsen og Damir Muminovic sem skoruðu þessi dýrmætu mörk í Lúxemborg. Blikaliðið stendur því vel að vígi fyrir seinni leikinn sem fram fer á Kópavogsvelli fimmtudaginn 15. júlí n.k. kl.19.00.
Byrjunarliðið var svona skipað:
Sigur Blikaliðsins var fyllilega verðskuldaður. Tölfræðin lýgur ekki enda vorum við mun meira með boltann í leiknum, áttum fleiri vel heppnaðar sendingar, fleiri skot á markið, fleiri unnin návígi og ýmis önnur tölfræði sem var okkur í hag. Við byrjuðum leikinn betur og pressuðum vel á heimapiltana. Það kom því eins og blaut tuska framan í okkur þegar heimaliðið náði forystunni á 15. mínútu eftir skyndisókn. Áfram héldu Blikadrengir að sækja en enn ein skyndisókn Lúxemborgara kom þeim í tveggja marka forskot. Nokkuð fór um þá tugi eða hundruð Blika sem fylgdust með leiknum í streymi eða á ýmsum textavörpum. Gísli Eyjólfsson var hins vegar ekkert á þeim buxunum að gefa lítið fyrir byrjunarliðssætið sitt og minnkaði muninn með góðu skoti eftir snarpa sókn Blika skömmu fyrir leikhlé. Reyndar voru heimapiltar mjög grófir og fengu sérstaklega Gísli og Thomas að finna fyrir ruddameðferð varnarmannanna.Blikar tóku síðan nánast öll völd á vellinum í síðari hálfleik. Engu líkara væri eins og lúxemborgíska liðið væri sprungið á limminu. Þeir náðu hins vegar að þvælast fyrir okkur allt þar til á 65. mínútu þegar danska dýnamítið Thomas Mikkelsen skoraði örugglega eftir hik í vörn heimamanna. Það var síðan varnarmaðurinn snjalli Damir Muminovic sem skoraði sigurmarkið á 88. mínútu með snilldarskoti úr teignum eftir hornspyrnu fyrirliðans Höskuldar Gunnlaugssonar.
Mörkin úr leiknum:
Þrátt fyrir að við höfum náð í dýrmætan útisigur þá er þetta lið Racing Union engir aukvisar. Margir góðir leikmenn eru í liðinu en greinilegt að liðið er ekki komið í mikla leikæfingu enda keppnistímabilið ekki enn hafið í þessari skattaparadís í Mið-Evrópu. Sérstaklega verður að hafa gætur á byssubrandinum og markaskoraranum Yann Mabella sem er fljótari en andsk.... En með við erum með betra lið og með góðri aðstoð áhorfenda eftir viku þá ætlum við okkur áfram í þessari Evrópukeppni!
Tveir Blikar voru að spila fyrstu Evrópuleikina í þessum leik: Jason Daði Svanþórsson og Davíð Ingvarsson.
-AP
Bein textalýsing UEFA frá leiknum.