BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Gallsúrt gegn Val

17.06.2021 image

Nú rekur hverja stórskemmtunina af annarri á fjörur boltaþyrstra og það er rétt svo að menn nái að dreypa á kaffibolla og sinna vinnunni á milli stórleikja. EM á fullri fart í sjónvarpinu og PepsiMax deildin runnin af stað á ný. Þá er gaman. Blikar léku í kvöld sinn áttunda leik í mótinu, en vegna færslu leikja og frestana taldist þetta leikur í 12. umferð. Veðrið var svona þokkalegt, stinningskaldi af norðri, skýjað en þokkalega bjart, hiti 7°C. Aðstæður að öðru leyti góðar. Byrjunarlið Blika í kvöld var svona:

image

Ein breyting hjá Blikum frá leiknum gegn Fylki. Oliver kom inn fyrir Jason. Thomas og Davíð Örn voru ekki í hóp vegna meiðsla. 

Blikar léku með vindinn í bakið í fyrri hálfleik og fyrstu 10 mínúturnar voru liðin að þreifa fyrir sér og átta sig á áhrifum vinds og loftþrýstings á boltaflug. Valsmenn áttu fyrsta hættulega skot leiksins þegar tæpt korter var liðið af leik en Blikar björguðu í horn. Úr hornspyrnunni komust Blikar svo í snarpa sókn sem lauk með skoti frá Kristni Steindórs yfir Valsmarkið. Áfram hélt barningurinn og leikurinn fór að mestu fram á miðsvæðinu og Blikar síst lakari aðilinn. En það eru mörkin sem telja og það voru Valsmenn sem skoruðu á 25. mínútu. Fengu horn og sendu fastann bolta fyrir markið á koll valsmanns og beint í netið, sennilega óverjandi fyrir Anton Ara. Skömmu síðar komust Blikar upp að marki Valsmanna og Árni náði skoti úr þröngu færi en það fór framhjá. Skömmu síðar fékk Gísli dauðafæri en setti boltann hárfínt framhjá. Alexander komst líka í álitlegt færi en inn vildi tuðran ekki. Svona færi eiga að gefa 2-3 mörk. Skömmu síðar munaði minnstu að Valsmenn kæmust í dauðafæri eftir að Blikar misstu boltann klaufalega á miðsvæðinu og leikmaður Vals trítlaði inn í teig með boltann og var hársbreidd frá því að ná skotinu. Þarna voru menn ekki á tánum. Og skömmu síðar dundi ógæfan yfir á ný. Valsmenn sóttu upp vinstri kantinn og þaðan kom há fyrirgjöf yfir á fjærstöng. Þar misreiknuðu varnarmenn Blika sig og boltinn féll að lokum fyrir fætur Valsmanns sem sneri baki í markið en náði samt 3 snertingum á boltann áður en hann sneri sér 180° og tók skotið sem Anton Ari varði með fætinum í stöng og inn. 2-0 fyrir Val!! Ósanngjarnt en að sama skapi afar klaufalegt af okkar hálfu. Síðasta færi hálfleiksins áttu svo Blikar þegar Höskuldur átti hörkuskalla á mark Vals en Hannes varði vel. Alveg gallsúrt að horfa á þetta, svo ekki sé meira sagt. Blikar alls ekki lakari aðilinn í leiknum en lágu nú 2 - 0 undir. Blikar fóru því grautfúlir inn í leikhléið en geta engum kennt um nema sjálfum sér. Einbeitingarleysi upp við bæði mörk er ekki góð uppskrift. Við áttum að vera með forystu í leikhléi. Arggg..

Síðari hálfleikur fór rólega af stað. Blikar mikið með boltann en náðu ekki að opna vörn Valsmanna sem lágu nú alveg til baka og biðu, enda með góða forystu. Í tvígang munaði samt litlu að við næðum að brjóta ísinn. Árni og Höskuldur áttu báðir ágætar tilraunir en það ,,eina“ sem vantaði var að það endaði í netinu. Blikar gerðu breytingu á liðinu og Jason kom inn fyrir Kristinn. En skömmu síðar kom rothöggið. Eftir smá barning í teignum náðu Blikar ekki að koma boltanum almennilega frá og Valsmaður náði boltanum rétt utan vítateigs og lét samstundis vaða á markið fyrir utan teig. Boltinn small í stönginni og þaðan skoppaði hann fyrir fætur annars Valsmanns sem setti hann í netið. 3-0 og útlitið kolsvart. Dómari hefði reyndar átt að dæma aukaspyrnu þegar brotið var á Viktori Erni í aðdraganda marksins, en gerði það ekki. Blikar gerðu enn breytingu og Andri Rafn kom inn í stað Alexanders. Andri var fljótur að láta til sín taka og örfáum mínútum síðar var hann búinn að fiska vítaspyrnu. Árni skoraði af öryggi úr vítinu. 3-1.

image

Fyrsti leikur Andra Rafns í sumar. Atvikið þegar Andri Rafn er tekinn niður inn í teig. Mynd: Hulda Margrét ljósmyndari

Var þetta líflína? Blikar gerðu nú harða hríð að marki Valsmanna og skömmu síðar lá boltinn aftur í neti Vals eftir laglegt spil en nú var ranglega dæmd rangstaða á okkar menn. Svekkjandi fyrir okkur en eftir þetta fjaraði leikurinn út án þess að Blikar næðu að ógna marki heimamanna að ráði. Finnur Orri kom inn fyrir Oliver þegar örfáar mínútur voru eftir en Valsmenn sigldu sigrinum í hús án teljandi vandræða síðustu mínúturnar.

Mörkin frá Origo vellinum að Hlíðarenda:

Úrslitin eru gríðarleg vonbrigði fyrir Blika sem geta engum um kennt nema sjálfum sér. Þennan leik unnu Valsmenn fyrst og fremst á meiri einbeitingu í bland við heppni upp við bæði mörkin. Ekki á fótboltagetunni. Þeir spörkuðu líka í okkur af og til og létu finna vel fyrir sér. Þar vorum við eftirbátar. Óskar Þorvaldsson hitti naglann á höfuðið þegar hann mælti þessi varnaðarorð eftir Fylkisleikinn; ,,Sigur í dag gerir lítið ef við erum ekki klárir á miðvikudaginn“. Við vorum ekki klárir og því fór sem fór. Það er nefnilega oft þannig, þegar öllu er á botninn hvolft, að aðeins herslumunur skilur á milli feigs og ófeigs. Næsti leikur er gegn FH á sunnudaginn. Blikar verða einfaldlega að vinna þann leik til að hanga í efri hlutanum. Það er ekki flókið. Til þess þarf meiri einbeitingu upp við mörkin, beggja vegna, en var í kvöld.

Áfram Breiðablik !

OWK

Umfjallanir netmiðla

Myndaveisla í boði Huldu Margrétar ljósmyndara:

Til baka