BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Grænir naglar

18.07.2021 image

Nú er ég búinn að sjá allnokkra Breiðabliksleiki í sumar – allt of fáa úr stúkunni reyndar – og fyrir leikinn í kvöld rann upp fyrir mér að ég hef verið vanþakklátur stuðningsmaður. Löngum stundum í flestum leikjum hafa strákarnir í grænu búningum spilað eins og þeir séu þinglýstir eigendur hvers einasta fótboltavallar í landinu, það séu þeir sem eiga alla keppnisbolta í hverjum leik. Þetta hefur skilað yfirburðaleikjum, snotrum mörkum, góðri tilfinningu og liðinu sterkri stöðu í deildinni. Manni finnst liðið enn eiga inni og í frábæru skotfæri að toppnum í deildinni og með í næstu umferð Evrópuboltans.
 

Góðir sigrar koma jafnvægi á tilfinningalífið

Kannski er ástæðan fyrir þessum skorti á að meta að verðleikum það sem vel hefur verið gert hvað eftirvæntingin eftir tímabilinu var fljótt barin niður í blábyrjun mótsins, í heimaleiknum á móti KR. Þá voru hinir opinberu spámenn um niðurstöðu mótsins (sem broslega sjaldan hafa rétt fyrir sér) nýbúnir að spá Breiðabliksstrákum Íslandsmeistaratitli 2021 en það tók þá röndóttu bara korter eða svo að komast í 0-2 þarna í maíbyrjun í vor. En fyrir leikinn í kvöld var tilfinningalíf þessa stuðningsmanns loksins komið í jafnvægi enda nýbúinn að sjá strákana leggja Lúxemborgara vandvirknislega að velli og ekki skemmdi fyrir ákaflega gleðilegur seiglusigur stelpnanna á Val í Mjólkurbikarnum sólarhring síðar.
 

Nú, nú

Að þessum játningum afstöðnum er kominn tími til að snúa sér að leiknum í póstnúmeri 107 í kvöld. Ég bý í þessu númeri og hluti afkomendanna KR-ingar þannig að nokkuð var undir hvað heimilislífið snertir. Byrjunarlið Óskars var áhugavert. Miklir reynsluboltar á bekknum og meðalaldur okkar byrjunarliðs var fimm árum lægri en heimamanna. Reyndar var meðalaldurinn á bekknum líka lægri hjá okkur grænum, eins og vera ber (rekandi eitt öflugasta nýsköpunar- og útflutningsfélag landsins ; -)  en maður spáir í hvort nábýli heimamanna við Elliheimilið Grund, sem sjálft verður 99 ára í haust, sé helber tilviljun.

Þessir byrjuðu gegn KR:
 

image

Járn í járn í járnum

Fyrri hálfleikinn byrjuðu KR-ingar eins og leikinn í Kópavogi. Hápressa og lítill tími gefinn til að byggja upp sóknir á eitthvað svipuðu tempói og viðtalið við Óskar Hrafn var fyrir leik. Breiðabliksvörnin var hins vegar vanari og eftir þetta áhlaup fóru okkar menn að byggja upp sóknir. Það tókst ágætlega um hríð. Spil upp völlinn gekk ágætlega og skákrossar fram skiluðu góðum stöðum. Það má segja a Breiðablik hafi skapað sér færi í fyrri hálfleik en að KR hafi fengið færi. Skotið að báðum mörkum en markmennirnir voru ekki beint á barmi örvæntingar.
 

image

Virkaði í seinni

Eftir að hið aldurhnigna lið KR-inga hafði fengið smá hvíld og te í hálfleik fann það orkuna í samskonar áhlaup og í byrjun leiks og í þetta skiptið virkaði það. Eftir alveg rúmar tvær mínútur af hálfleiknum gleymist að elta mann og beittir sóknarmenn KR runnu á lyktina og skoruðu.
Eftir markið kviknaði svolítið í okkar mönnum en leikurinn opnaðist ekki mikið, skiljanlega. Það tókst ágætlega að spila upp miðjuna og tvær aukaspyrnur fengust. Hafandi í huga að í gervallri Evrópukeppninni í fótbolta kom aðeins eitt mark beint úr aukaspyrnu, var maður ekkert bjartsýnn. Alexander skaut hátt yfir, aftur, en úr þeirri seinni virkaði þetta líka hjá Blikum. Höskuldur þrykkti tuðrunni upp undir samskeytin og söngurinn í netinu hefði sómt sér vel í Tónskóla Do Re Mí sem starfar þarna í KR-heimilinu rétt fyrir aftan markið.
 

image

Leikurinn opnast – oggupons Eftir flotta tvöfalda skiptingu Breiðabliks á skiptingamínútunni alþekktu, þeirri 71., breyttist leikurinn svolítið. Baráttan var áfram talsverð en núna út um allan völl. Mikið kallað á dómarann, sá leikmaður sem var að verjast notaði jafnan hendurnar meira en Ingimundur og Fúsi í miðri handboltavörn íslenska landsliðsins í denn, ruddaleg tækling á aftasta varnarmann og svo framvegis og framvegis. Ég hélt að Kiddi Steindórs væri að nappa sigrinum fyrir okkur undir lokin en blessuð tuðran lak framhjá eftir hrikalega flotta skyndisókn.

Mörkin úr leiknum:

KR-ingar lögðu mikið kapp á að vinna þennan heimaleik sinn. Þeim hefur gengið illa í póstnúmeri 107 í sumar, unnu þó síðasta leik og fannst mikilvægt að setja annan múrstein í virkið. Það tókst þeim ekki gegn okkar mönnum, nema að hálfu leiti. Okkar var tækifærið til að setja meiri pressu á Valsarana á toppnum. Það tókst ekki, nema að hálfu leiti.
Leikurinn var fínn, góð barátta, fín frammistaða hjá mörgum og hrikalega gaman að sjá að það ennþá hægt að skora úr aukaspyrnum.
Takk Höski!

Eiríkur Hjálmarsson

Umfjallanir annarra netmiðla

Myndaveisla í boði BlkarTV

image

Til baka