BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Grátlegt jafntefli á Hlíðarenda

27.09.2020 image

Trúum aðstoðardómurum – Fótboltafélag KFUM rændu vel spilandi Blika

Dúnalogn, blautt eftir vætu dagsins, sólsetur og svo rökkur, flóðljós, fótbolti. Í bestu mögulegu aðstæðum til að spila leikinn fallega gerðu okkar menn sér ferð norður alla leið að Öskjuhlíðarrótum á heimavöll Vals, Hlíðarenda. Valsmenn eru þekktir fyrir þrennt; í fyrsta lagi er það næst sigursælasta fótboltaliðið á Íslandi í karlaflokki með 22 íslandsmeistaratitla. Í öðru lagi er félagið þekkt fyrir mikinn áhuga á Biblíusögum og allt sem tengist kristinni mótmælendatrú, séra Friðrik Friðriksson er cult hetja á Hlíðarenda enda kom hann að stofnun liðsins sem hét í upphafi Fótboltafélag KFUM. Í þriðja lagi hafa Valsmenn á síðustu árum komið sér upp miklum áhuga á fasteigna- og byggingarsenunni í Reykjavík.

Eftir nokkra þunga leiki í röð fórum við í þennan með þrjú góð stig í vasanum eftir að hafa þjappað okkur vel saman og unnið sterkan sigur gegn Stjörnunni á fimmtudaginn síðastliðinn. Valsmenn hafa reyndar verið óþolandi góðir á þessu tímabili og fyrir leikinn höfðu þeir ekki tapað síðan þriðja júlí. Þriðja júlí. Það var því full ástæða til að heimsækja kapellu séra Friðriks fyrir leik og vonast eftir að æðri máttar völd myndu veita okkur hjálparhönd í þessum stórleik.

Ástæða til að leita sér sáluhjálpar í kapellunni minnkaði ekki þegar maður komst að því að þrír sterkir póstar í liðinu voru fjarverandi Elfar Freyr tók út bann en Kiddi Steindórs og Andri Yeoman voru á meiðslalistanum. Við erum þó með betri hóp og náum alltaf að púsla saman býsna sterku byrjunarliði. Í kvöld var það svona:

image

Við spiluðum einhverja mjög funky útgáfu af 4-4-1-1. Í rammanum var Anton Ari, þar fyrir framan frá hægri; Damir, Viktor Örn, Róbert Orri og Davíð. Á miðjunni voru Oliver, Viktor Karl, Gísli og Höskuldur. Brynjólfur og Mikkelsen voru fremstu menn.

Leikurinn fór tiltölulega hægt af stað og bæði lið þreifuðu aðeins fyrir sér á vallarhelmingi andstæðinganna. Við vorum þó mun meira með boltann og stjórnuðum leiknum en fundum þó litlar sem engar opnanir. Ekki fyrr en á 34. mínútu þegar að Brynjólfur sendi á Viktor Karl sem var kominn í ákjósanlegt skotfæri, þó Valsararnir þjörmuðu að honum, Viktor kaus frekar að gefa á Mikkelsen og rann sóknin svo út í sandinn. Fram að þessu höfðu Valsmenn lítið farið yfir á okkar vallarhelming. Á 36. mínútu var Aron Bjarnason við það að sleppa í gegn en Róbert Orri hljóp hann uppi og potaði boltanum út af. Róbert var frábær í þessum leik og hefur leikið gífurlega vel í seinustu leikjum. Gaman að sjá hann stíga upp og getur hann vel orðið einn af betri varnarmönnum deildarinnar.

Það var þó lítið annað sem gerðist í þessum fyrri hálfleik enda Valur mjög passívir og við ekki að finna opnanirnar en vorum mjög sannfærandi í flestum þáttum leiksins. Ég var einnig mjög ánægður með móralinn í liðinu, menn börðust fyrir hvorn annan og það var ekki vottur af andleysi á vellinum! Elska það. Maður fór því sáttur með spilamennskuna inn í hálfleik.

Fyrsta korterið í seinni hálfleik var á mjög svipuðum nótum og fyrri hálfleikurinn og ef eitthvað var þá voru okkar menn byrjaðir að ýta Val enn aftar á völlinn. Gísli fór þó út af meiddur á 53. mínútu og Alexander Helgi kom inn á fyrir hann. Leist mér persónulega ansi vel á blikuna og fannst við líta vel út. Fótbolti er þó brellin og brögðótt íþrótt þar sem allt getur breyst á ögurstundu, á 59. mínútu tókst Davíð Ingvarssyni að láta reka sig út af. Hann missti þá boltann frá sér og hlóð í stórhættulega tæklingu á Hauki Pál fyrirliða Valsara. Lítið hægt að kvarta yfir þessu og væntingastuðullinn farinn niður í kjallara eftir að rauða spjaldið leit dagsins ljós.

image

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Valsmenn lifðu ekki lengi í paradís því á 62. mínútu var Valgeir Lundal rekinn út af. Hann hafði þá verið nýbúinn að fá gult spjald fyrir munnsöfnuð í kringum brottrekstur Davíðs. Þrem mínútum seinna er Brynjólfur búinn að sóla Valgeir upp við hornfána og heldur af stað inn að vítateignum þegar hann togaði ansi hressilega í stuttbuxur Brynjólfs og felldi hann í kjölfarið. Klárt gult spjald og þ.a.l. rautt. Tvær mjög heimskulegar ákvarðanir á innan við fimm mínútum og einkunnarorð Valsara þarna hent á haugana því kappið bar svo sannarlega fegurðina ofurliði.

image

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Við tókum aftur öll völd á vellinum. Mikkelsen átti gott skot á 65. mínútu þar sem Hannes þurfti að hafa sig allan við. Fastir liðir eins og venjulega þegar að Haukur Páll fór svo meiddur af velli eftir 70 mínútna leik. Valsmenn byrjuðu svo að fikra sig loks aðeins ofar á völlinn og voru nálægt því að sleppa inn fyrir en Damir átti frábæra tæklingu sem bjargaði líklega marki.

image

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Á 76. mínútu kom það loksins! Við skoruðum glæsilegt mark. Höskuldur sem var kominn niður í hægri bakvörð eftir að við urðum tíu skundaði upp völlinn valsaði auðveldlega framhjá Kaj Leo kom með háan bananabolta yfir á fjær þar sem enginn annar en Róbert Orri var mættur og lagði boltann í autt markið. Geggjaðir.

image

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Nú var það bara að halda út í korter í viðbót. Við sóttum þó áfram og vorum ansi nálægt því að troða inn öðru marki þegar að Brynjólfur hristi Eið Aron af sér vinstra megin við vítateiginn. Hann keyrði næst upp að endamörkum og gaf út á Alexander Helga sem átti gott skot í átt að vinstra horninu en Valsarar rétt náðu að blokkera skotið. Valsmenn fóru að pressa hærra upp á völlinn en komust aldrei í nein dauðafæri, mest voru þetta langskot sem ógnuðu lítið eða fyrirgjafir sem Anton og vörnin réð vel við. Á 88. mínútu var maður orðinn ansi bjartsýnn á að við myndum klára þetta og vera fyrsta liðið í næstum þrjá mánuði til að vinna Val. Þeim draumi var sturtað niður þegar Birkir Már jafnaði á lokamínútu venjulegs leiktíma. Mjög undarlegt atvik átti sér þó stað í aðdraganda jöfnunarmarksins. Aðstoðardómarinn hafði þá flaggað rangstöðu á Val en dómarinn leit svo á, vegna þess að Damir hafði með herkjum náð að tækla boltann út í innkast, að sóknarmaðurinn hafði ekki haft nein áhrif á leikinn. Við Blikar í stúkunni ætluðum að kasta mæðinni og fagna góðri rangstöðu en taugarnar voru þandar og rúmlega það þegar að Vilhjálmur dómari bað AD2 vinsamlegast að leggja niður flaggið og dæmdi því næst innkast til Vals. Upp úr innkastinu skoraði Birkir Már.

Í stað þess að syngja og tralla vegna hárréttrar ákvörðunar aðstoðardómarans fengum við fótboltamark í andlitið. Hreint út sagt ömurleg ákvörðun Vilhjálms dómara. Ég legg til að við virðum ákvarðanir aðstoðardómara oftar þær eru yfirleitt réttar, það er boðskapurinn sem ég tek út úr þessum leik ásamt mjög góðri spilamennsku okkar manna. Við vorum rænd í kvöld og því fór maður heim hundsvekktur með úrslitin þó ég hefði líklega tekið stigið hefði það verið í boði fyrir leik.

Eins og áður segir þá spiluðum við frábærlega í kvöld og ekki hægt að setja þannig séð út á neinn, nema þá helst Davíð fyrir að láta reka sig út af. Hlakka mjög mikið til að sjá næstu leiki. Manni leist ekkert allt of vel á orðræðu sumra stuðningsmanna og annarra sófasérfræðinga varðandi leikstíl liðisins og þjálfarana. Við erum á vegferð í átt að verða lang skemmtilegasta og besta liðið á landinu. Maður er byrjaður að taka eftir því að stuðningsmenn annarra liða er byrjað að líka illa við Breiðablik, þá langar svo mikið að þessi vegferð muni fara fjandans til. Leikmenn eru undir smásjánni hjá sjálfskipuðum leikrýnum á Twitter, stundum fá þeir hrós oftar er skotið á þá. Þetta þýðir bara eitt, allir eru að horfa á okkur, allir eru að fylgjast með hvað Blikar gera og vilja svo geta sagt „ég sagði þér það, þetta leikkerfi og leikstíll getur ekki gengið upp.“ Leikstíllinn er krefjandi og öðruvísi en leikmenn hafa vanist áður svo það tekur einhvern tíma að slípa þetta til. Strákarnir á vellinum þurfa að reka sig á, gera mistök, komast í aðstæður til að læra af og það sama með þjálfarana. Þeir hafa þurft að vinna sig út úr erfiðri stöðu sem liðið var komið í og gefið einhverjar hugmyndir upp á bátinn, tekið inn nýjar en líka lyft móralnum í liðinu. Þetta er allt saman eðlilegur fylgifiskur vegferðarinnar.

image

Óskar Hrafn, Halldór, Óli P og Gunnleifur. Mynd: HVH

Við erum samt enn þá með sama identity-ið sama skemmtanagildið og jafn geggjaðir í fótbolta. Óskar, Halldór, Gulli og Óli eru á hárréttri leið með liðið, styðjum þá í því verki. Ég myndi gera allt fyrir þessa þjálfara nema koma nakinn fram, eins og einhver sagði um íslenska landbúnaðinn forðum.

Freyr Snorrason

Mörkin úr leiknum:

Umfjallanir og myndir netmiðla

Til baka