Jason Daði jafnaði á ögurstundu!
09.05.2021Fyrirliðarnir, Sævar Atli Magnússon og Höskuldur Gunnlaugsson, heilsast fyrir leik. Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Blikar sýndu mikinn karakter þegar þeir skoruðu tvo mörk á lokamínútum leiksins gegn Leiknismönnum og tryggðu sér þannig eitt stig í Breiðholtinu. Því er hins vegar er ekki hægt að leyna að mörkin þrjú sem við fengum á okkur voru af ódýrari gerðinni. Við erum að gera klaufaleg mistök í bæði vörninni og á miðjunni sem færa Leiknisdrengjunum yfirhöndina í leiknum.
Sem betur fer erum við með Jason Daða í liðinu sem í raun og veru reddaði þessu eina stigi með tveimur fyrstu mörkunum sem hann skorar í efstu deild.
Smella á mynd til að sjá viðtal við Jason Daða eftir leik.
Mikilvægt er að þétta vörnina í næstu leikjum þannig að við þurfum ekki skora gommu af mörkum til að fá þrjú stig.
Byrjunarlið Breiðabliks:
Blikaliðið virkaði hikandi í byrjun leiksins og fengu heimapiltar tvo dauðafæri. Í annað skiptið fór knötturinn hárfínt framhjá og hitt skipti varði Anton Ari snilldarlega. Við komumst smám meira inn í leikinn og markamaskínan Thomas Mikkelsen kom okkur yfir um miðjan fyrri hálfleikinn með flottum skalla eftir mjög góða fyrirgjöf Olivers Sigurjónssonar. Héldu þá hinir fáu Blikar á vellinum og allir hinir sem fylgdust með í beinni útsendingu að björninn væri unninn. En annað kom á daginn. Slök varnarvinna örfáum sekúndum fyrir leikslok kom Leiknispiltum inn í leikinn á nýjan leik.
Þetta jöfnunarmark virtist slá Blikaliðið út af laginu. Leikmenn voru ragir að láta knöttinn ganga hratt og heimadrengir gengu á lagið með tveimur mörkum. Annað eftir slaka varnarvinnu á miðjunni og hitt eftir snarpa sókn þar sem einn Leiknispilta var skyndilega á auðum sjó. Reyndar náði Róbert Orri að hlaupa hann uppi og pota knettinum í burtu en af einhverjum ástæðum sá dómari leiksins ástæðu til dæma vítaspyrnu.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Kolrangur dómur eins og sjónvarpsupptökur sýndu! En það þýðir ekki að deila við dómarann frekar en fyrri daginn og allt í einu vorum við tveimur mörkum undir. Sem betur fer náðum við aðeins að rétta okkar hlut í lokin og getum við þakkað fyrir stigið úr því sem komið var.
Það efast engin um að mikil gæði eru í Blikaliðinu. Liðið sýndi það hvað eftir í leikjunum í vetur enda voru margir sem spáðu okkur góðu gengi i sumar. Árangur kemur hins vegar ekki af sjálfum sér.
Liðið hefur verið að hökta í þessum tveimur fyrstu leikjum. Lykilmenn hafa ekki náð sér á strik og varnarleikurinn hefur ekki verið til útflutnings. Nú þurfa menn að girða sig í brók, loka vörninni og sýna þá ákefð og leiftrandi spilamennsku sem oft sást á vellinum í vetur. Þá mun landið rísa á nýjan leik í Kópavoginum!
Það er engin ástæða að fara eitthvað á taugum svona snemma móts eins og Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði okkar hefur bent á. Það er bara 2 leikir af 22 búnir en við þurfum að gera betur en í þessum tveimur fyrstu leikjum ef við ætlum okkar að vera i toppbaráttunni.
Næsti leikur er gegn hinum nýliðunum, Keflavík, á Kópavogsvelli á fimmtudag og þar mætum við öll og náum i stigin þrjú!
-AP
Myndaveisla í boði Hauks Gunnarssonar hjá Fótbolti.net:
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson