BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Jón forseti á Kópavogsvelli

29.06.2020 image

Kópavogsdalur skartaði sínu fegursta mánudagskvöldið 29. júní þegar Fjölnismenn sóttu Blika heim. „Skein yfir landi sól á sumarvegi,“ 17 stiga hiti og þoka í grennd frá hamborgagrillunum.

Blikar stilltu upp þriggja manna vörn með Damir, Elfar Frey og Róbert Orra aftasta. Og þar sem ég var að punkta þetta hjá mér fór nefndur Mosfellingur upp í skallaeinvígi á fyrstu sekúndunum í fyrsta byrjunarliðsleiknum í efstu deild með Breiðabliki. Hann lenti illa svo að þögn sló á stúkuna. „Fékk svakalegan slynk,“ sagði frasakóngur Íslands fyrir framan mig. Róbert Orri reis eftir nokkra stund á fætur og fékk mikið klapp fyrir. Þetta var eins og vítamínsprauta fyrir piltinn sem sló ekki feilnótu allan leikinn vinstra megin í vörninni. Að öðru leyti var liðið skipað svona:

image

Skot í slá!

En fall varnarmannsins unga gaf svolítið tóninn fyrir þessar upphafsmínútur leiksins. Fjölnismenn voru hættulegri, okkar menn á hælunum, sendingar ónákvæmar og náði þessi daufa byrjun lágmarki með sláarskoti gestanna eftir fimm mínútur. Fór þá kliður um stúkuna.

Jónas Hallgrímsson, Tómas Sæmundsson, Konráð Gíslason og Brynjólfur Pétursson mörkuðu tímamót í íslensku menningarlífi um miðja 19. öld með útgáfu tímaritsins Fjölnis í Kaupmannahöfn – og hafa verið kallaðir Fjölnismenn allar götur síðan. Fjölnir boðaði rómantísku stefnuna í íslenskum bókmenntum og birtust mörg af helstu kvæðum Jónasar þar fyrst. En Fjölnir boðaði jafnframt hreintungustefnu og hvatti þjóðina til dáða í þjóðfrelsis- og framfaramálum. Tímaritið átti að vera skynsamt og skemmtilegt.

Eins og klógulir ernir

Ekki voru allir sáttir við boðskap stúdentanna ungu og fannst mörgum vera full mikill gorgeir í þeim. Rétt eins og Blikum virtust þykja Fjölnismenn vorra daga heldur vera farnir að færa sig upp á skaftið í Smáranum með þessu óvænta sláarskoti. Innan við tveimur mínútum síðar fengu okkar menn hornspyrnu og upp úr henni skallaði Kristinn Steindórsson boltann laglega í markið úr miðjum vítateig. Hér mætti vísa í listaskáldið góða og segja að þetta hafi gerst í „hólmanum, þar sem Kristinn sneri aftur.“

image

Eftir þetta tóku Blikar öll völd og á 26. mínútu heyrði ég sparkspekinginn fyrir aftan mig segja stundarhátt: „Það er bara eitt lið á vellinum.“ Virtust Fjölnismenn kvöldsins aftur á móti hugsa líkt og Konráð Gíslason í bréfi til Jónasar Hallgrímssonar þar sem hann skrifaði: „Og sólin er ekki eins björt og veðrið ekki eins heitt og heimurinn ekki eins fagur. … eg get hvorki skrifað né talað og er alla jafna síreiður og sé andskotalega og er hvorki dauður né lifandi og í alla staði öðruvísi en eg ætti að vera.“ Möo – það var lítið að frétta hjá gestunum, Blikar voru eins og klógulir ernir sem yfir veiði hlakka – svo aftur sé vísað í Gunnarshólma Jónasar.

Hurð nærri hælum

Í hálfleik voru okkar menn sem sagt 1-0 yfir í mörkum talið en 1-5 undir ef miðað var við gul spjöld, enda virkuðu þeir síreiðir og höguðu sér andskotalega. Meira að segja Ásmundur Arnarson sem alla jafna virkar hinn rólegasti í Fífunni var kominn í svörtu bókina. Það var því rólegt yfir 1335 gestum vallarins í hlénu og engin hætta talin á að staðan breyttist til hins verra. Slíkir voru yfirburðir okkar manna.

En líkt og á móti Keflavík á dögunum virtust Blikar enn vera með hugann inni í klefa þegar komið var út í seinni hálfleikinn. Eftir nokkrar mínútur misstu þeir boltann klaufalega úti á kanti svo að gestirnir náðu hraðri sókn sem lauk með því að skotið var í bakið/öxlina/upphandlegginn á Damir. Víti og gult. „Anton Ari ver þetta,“ sagði spekingurinn fyrir aftan mig. Og merkilegt nokk þá hafði hann rétt fyrir sér, enda bætti hann við: „ég hafði nú ekki alveg trú á þessu.“ Þarna skall hurð nærri hælum.

image

Út fyrir þægindarammann

Óskar Hrafn virtist á þessari stundu vera búinn að fá nóg af sleni og rólegheitum og ákvað að hrista upp í liðinu. Kristinn Steindórsson, sem hafði átt margar listilegar sendingar en var farið að dofna yfir, yfirgaf völlinn fyrir Brynjólf Andersen Willumsson. Á sömu mínútu tók kappinn á rás utan af kanti með Fjölnismenn á hælunum, rétt eins og í kvæðinu: „Hræðist þá ekki frægðarhetjan góða / óvina fjöld, þó hörðum dauða hóti.“ Skipti þá engum togum að honum var kippti snarólöglega niður á jörðina innan teigs. Thomas skoraði af öryggi úr vítinu.

image

Á næstu mínútum léku Blikar sér að gestunum og var engin hætta við mark okkar manna. Það var eins og allir vissu hvar næstu menn væru, gátu nánast sent blindandi á milli sín svo að Fjölnismenn komust lítt áleiðis. Einu hnökrarnir á spilinu birtust þegar Elfar og Damir voru allt í einu farnir að leika sambabolta nærri hornfána gestanna. Líklega kallast það að vera kominn umtalsvert út fyrir þægindarammann.

image

„Aldrei að fyrirgefa neinum neitt“

Á þessum mínútum náði Gísli meðal annars boltanum úti í miðjum velli, lék í áttina að teignum en skotið fór yfir markið. „Hann langar svo að skora,“ sagði sessunautur minn.  Mínútu síðar kom Guðjón Pétur inn fyrir Andra Rafn og á sömu stundu var Fjölnismaður skyndilega mættur upp við endamörk, féll við eftir viðskipti sín við Damir og var ranglega dæmt víti. Nú kom Anton Ari engum vörnum við.

Þó að skyndilega munaði aðeins einu marki var ekki að finna neinn beyg í stúkunni, enginn tuldraði „dauft er í sveitum, hnípin þjóð í vanda“, miklu frekar að gleðin skini á „vonarhýrri brá“ enda var margt að gerast. Thomas var ranglega dæmdur rangstæður þegar hann var kominn einn í gegn, markvörður Fjölnis varði ævintýralega frá Brynjólfi, Thomas skoraði en markið var réttilega dæmt af.

Á 83. mínútu kom náðarhöggið. Gísli fékk sendingu fyrir utan teig og lagði boltann snyrtilega fyrir sig með fyrstu snertingu og setti hann svo af alkunnri nákvæmni í hægra hornið úti við stöng. Líklega hugsaði hann á því augnabliki, eftir að hafa verið sparkaður margsinnis niður í leiknum, líkt og Konráð Gíslason forðum: „Maður á aldrei að fyrirgefa neinum neitt.“ Staðan orðin 3-1 og úrslitin ráðin.

image

Í sporum Jóns forseta

Þar með var þessu eiginlega lokið og leikurinn fjaraði út. Okkar menn sýndu Fjölnismönnum enga miskunn – lengstum. Það kom nefnilega í ljós að um leið og slakað er á arnarklónni er voðinn vís, rétt eins og sást á móti Keflavík í bikarnum á dögunum. Á löngum köflum komust gestirnir varla í boltann, þó að færin hafi ekki verið neitt sérstaklega hættuleg fyrr en þegar líða tók á leikinn. Lið Fjölnis var kannski skynsamt, eins og boðað var í tímaritinu forðum, en ekkert sérstaklega skemmtilegt – þótt það væri skeinuhætt inn á milli. Og það var eitthvert lánleysi yfir liðinu, kannski ekkert ósvipað forverum þeirra; Jónas, Brynjólfur og Tómas létust allir ungir að árum á tíu ára tímabili og Konráð lifði félaga sína einn og bitur nokkra áratugi.

Í aðdraganda þess að Alþingi Íslendinga var endurreist árið 1845 var um það deilt hvort það skyldi gert á Þingvöllum eða í Reykjavík. Kristján VIII. Danakonungur sendi fyrirspurn á samkomu Íslendinga í Kaupmannahöfn um það á hvorum staðnum það skyldi gert. Fjölnismenn voru ákafir fylgismenn þess að endurreisa þingið forna við Öxará en Jón Sigurðsson taldi heppilegra að gera það í Reykjavík. Á fundinum voru greidd atkvæði og fór það svo að Jón hafði sigur – með tveimur atkvæðum. Má því segja að Blikar hafi staðið í sporum Jóns forseta í Smáranum í leikslok eftir að hafa lagt Fjölnismenn nútímans að velli með þremur mörkum gegn einu.

PMÓ

Myndaveisla í boði Helga Viðars hjá BlikarTV

image

Öll mörkin úr leiknum:

Til baka