BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Kalt er það Kwame

16.05.2021 image

Fossvogurinn ilmaði af nýútsprungnum greinum og grilllykt þegar ég, Freyr Snorrason, í föruneyti með stemningsmanninum mikla Breka Barkarsyni leikmanni Augnabliks tylltum okkur í hólf B, röð I, sæti 63 og 65 í Víkinni í kvöld. Fossvogsslagirnir hafa verið hörkugóð skemmtun seinustu árin þó svo að úrslitin hafi einum of oft endað illa, líkt og í kvöld.

Byrjunarliðið sem við stilltum upp leit svona út:

image

Leikurinn byrjaði ágætlega að okkar hálfu en það leið ekki á löngu fyrr en fyrsta hnefasamloka Víkinga reið af. Þar drillaði maðurinn með mörgu nöfnin Halldór Jón Sigurður (er ég að gleyma einhverju eða?) nokkuð auðveldlega framhjá Blikavörninni og fann Pablo Punyed sem skóflaði boltanum yfir línuna. Eftir þetta högg urðum við litlir í okkur, og við tók ansi leiðinlegur hálftími fram að hálfleik þar sem boltinn gekk meira og minna fram og aftur Blikavörnina því Víkingar lokuðu vel öllum leiðum inn á miðjuna. Blikarnir voru linir og ansi andlausir sem smitaðist yfir í stúkuna þar sem var lítil sem ekki nein stemning. Hér með er kallað eftir því að stuðningsmenn reyni a.m.k. að kveikja á okkar mönnum þegar andleysið tekur yfir.

image

Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð - Myndaveisla úr leiknum í

Við komum líflegri út í seinni hálfleikinn sem var mun skárri heldur en sá fyrri. Leiðirnar framhjá fyrstu pressu Víkinga virtust nú miklu greiðari en áður. Það kom líka fínn kraftur inn með Árna Vil og Höskuldi sem komu inn á 60. mín, við komumst í fullt af fínum stöðum sem var ekki borið nógu mikil virðing fyrir og momentumið rann fyrir vikið út í sandinn. Rothöggið kom svo á 86. mínútu þegar að Júlíus Magnússon skoraði eftir hornspyrnu Víkinga. 2-0 og minna en fimm mínútur eftir. Þá er það orðið ansi svart. Kwame Quee gamli liðsfélaginn okkar sem hafði komið inn á í háfleik en látið lítið fyrir sér fara dúkkaði svo upp á 94. mínútu og skoraði með fínu skoti. Það var síðasta vatnsgusa kvöldsins. Úff. Kalt er það Kwame.

Freyr Snorrason

image

Óskar Hrafn: Verðum að bera virðingu fyrir þessari stigasöfnun

Til baka