Þolinmæðin þrautir vinnur allar!
31.07.2020
Blikar unnu 3:0 sigur á Gróttumönnum í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar í gær. Leikurinn var spilaður í skugga nýrrar bylgju Covid veirunnar og engir áhorfendur því leyfðir á Kópavogsvelli. Það er því óhætt að segja að við lifum á áhugaverðum tímum. Leikurinn var ekki mikið fyrir augað nema mörkin þrjú og sigurinn nokkuð torsóttur. En sanngjarn. Við erum því komnir áfram í bikarkeppninni þannig að þetta eru mjög ásættanleg úrslit.
Byrjunarliðið var svona skipað.
Kópavogur tilheyrði einu sinni Seltjarnarneshreppi
Eins og flestir Kópavogsbúar vita þá tilheyrði Kópavogur einu sinni Seltjarnarneshreppi. Þar sem Seltjarnarnes þótti miklu betra bæjarfélag þá áttu þessi botnlangi sem Kópavogur var ekki neina fulltrúa í hreppsnefnd. Í hinni merku bók ,,Saga Kópavogs: safn til sögu byggðarlagsins” sem Lionsklúbbur Kópavogs gaf út árið 1983 segir frá því þegar listi Framfarafélags Kópavogs náði óvænt meirihluta í hreppsnefnd Seltjarnarness. Það þótti fína fólkinu á Seltjarnarneshreppi súrt í broti og og ákváðu að skera þennan Kópavogsútnára útnára af sínu fína bæjarfélagi. Það eina sem sem Finnbogi Rútur, Þórður á Sæbóli og fleiri góðir menn fóru fram á var að reglubundu skólastarfi væri komið á í þessum hluta Seltjarnarnesshrepps.
Gunnar M. Magnús, rithöfundur og alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn, minntist á þetta í þingræðu árið 1955 og er vert að rifja þau orð upp. ,, Var á orði haft, að þeir, sem tóku sér bólfestu á Seltjarnarnesi um þessar mundir, væru að flýja skatta og fjárálögur í Reykjavík, og komst í því sambandi á kreik orðið „skattflóttamaður“. En fyrir á Seltjarnarnesinu bjuggu ýmsir gamlir og grónir bændur og efnamenn og sums staðar skipstjórar eða útgerðarmenn. Á Seltjarnarnesinu myndaðist það andrúmsloft, að þar væru bjargálnamenn, en hinir, sem ekki væru það, ættu lítið eða ekkert erindi í hreppinn, að ekki væri talað um þá, sem ekki héngu í því að kallast milli húsgangs og bjargálna. En um sömu mundir og hinir svokölluðu „skattflóttamenn“ fluttust á Seltjarnarnesið, tóku ýmsir efnaminni menn að setjast að á Digraneshálsi milli Kópavogs og Fossvogs……..Það var því sízt að undra, þótt hinir fornu Seltirningar litu upp til „skattflóttamannanna“, en niður á lýðinn, sem festi byggð sína suður á Digraneshálsi og enda með fullum rétti kallaði sig Seltjarnarneshreppsbúa og gerði kröfur á hendur hinum fræga og forna hreppi, þar sem landlæknir hafði setið, þar sem biskup hafði setið eina tíð, þar sem stórútgerðarmenn, stórbændur og aðrir grónir heiðursmenn höfðu slegið hring um einkaréttindi þeirra, sem áttu sparisjóðsbækur í gildara lagi. Það var sjálfsagt að skera þennan lim af, og það var gert með hreppaskiptingunni 1947, og nú voru tveir hreppar, þar sem áður var einn, Seltjarnarneshreppur og Kópavogshreppur. ”
Þetta var mikið gæfuskref fyrir Kópavogsbúa því þetta leysti úr læðingi mikinn kraft í samfélagslegri vitund íbúa. Einn anginn af því var stofnum ungmennafélagsins Breiðablik árið 1950 og fagnaði félagið því 70 ára afmæli sínu á þessu ári. En íþróttastarf lá í dvala á Nesinu allt til ársins 1967 þegar Garðar Guðmundsson stórsnillingur stofnaði Gróttu. Það er því ekki að furða þótt getumunur sé töluverður á milli þessara liða.
Reyndar byrjuðu íbúar þessa fyrrum herrahrepps leikinn gegn Blikum með miklum látum. Strax á upphafsmínútu leiksins áttu þeir dauðafæri sem Damir bjargaði á línu og nokkru síðar áttu þeir tvo önnur færi sem Blikavörninni tókst með naumindum að hindra að yrðu að marki. En smám saman náðu þeir grænklæddu betri tökum á leiknum. Seltirnirningar vörðust hins vegar vel og náðum við ekki skapa okkur nein umtalsverð færi.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Það var ekki fyrr en á lokaandartökum fyrri hálfleiks sem Damir brá sér í gerfi Garrincha, hins þekkta brasiliska útherja 1933-1983, og sólaði sig upp hægri kantinn. Þar sendi hann hárnákvæma sending á Kwame Quee sem skoraði langþráð mark fyrir Blikaliðið. Hægt er að lesa um Garrincha hér en áhugaverð staðreynd er að braslíska landsliðið tapaði ekki leik þegar Garrincha og Pelé voru báðir liðinu.
Í síðari hálfleik kom getumunur liðanna tveggja gerlega í ljós. Blikar rúlluðu boltanum rólega á milli sín í 79 skipti á fyrstu sjö mínútum leiksins án þess að gestirnir kæmi við boltann. Ekki var að hægt að segja að þetta væri skemmtibolti en Gróttumenn gerðu nánast enga tilraun til að brjóta leikinn upp. Mörkin tvö sem Gísli og Brynjólfur skoruðu glöddu hins vegar augað. Höskuldur átti heiðurinn af öðru markinu þegar hann braust upp vinstri kantinn, fíflaði varnarmenn Gróttu og sendi knöttinn út í teiginn á Gísla sem skoraði með hnitmiðaðri spyrnu í hornið.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Þriðja markið var ekki síður fallegt. Skærasnillingurinn Kwame Quee kom þá boltann á Binna sem skoraði örugglega fram hjá markverði Seltirninga.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Í lokin fengu þrír ungir og efnilegir Blikar tækifæri til að spreyta sig. Hlynur Freyr Karlsson 16 ára, Ýmir Halldórsson 18 ára og Kristján Gunnarsson 18 ára. Alltaf gaman að sjá unga og efnilega leikmenn spila í græna búningnum í alvöru leik. Einnig var mjög jákvætt að Kwame og Brynjólfur opnuðu markareikning sinn á þessu keppnistímabili.
Einnig er vert að hrósa Heisa, Arnari og félögum hjá BlikarTV fyrir röska framgöngu að sýna leikinn.
Það sefaði mesta sársaukann hjá knattspyrnuþyrstum stuðningsmönnum Blika sem ekki máttu sjá leikinn. Vel gert strákar!
Þótt skemmtanagildi þessa leiks hafi ekki verið hátt þá gekk taktíkin alveg upp. Eins og félagi Deng Xiaoping í Kína orðaði svo skemmtilega ,,það skiptir ekki máli hvernig kötturinn er á litinn, svo fremi sem hann veiði mýsnar”. Við erum komnir áfram í bikarkeppninni og það verður spennandi að sjá hver verði næsti andstæðingur. Hvenær svo sem sá leikur fer fram!
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!
-AP
Klippur úr leiknum í boði BlikarTV