BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Þolinmæðin þrautir vinnur allar- aftur!

21.08.2020 image

Blikar unnu þolinmæðissigur 0:1 gegn baráttuglöðum Gróttumönnum á Vivaldi vellinum á Seltjarnarnesi í kvöld. Blikaliðið spilaði mjög vel í leiknum en mörkin hefðu mátt verða fleiri. En þetta dugði okkur til að fleyta okkur upp í annað sætið í Pepsi-deildinni.

Í síðasta pistli var sagt frá því þegar fátæklingarnir í Kópavogi gerðu uppreisn gegn yfirvaldinu á Seltjarnarnesi. Kommarnir í Kópavogi náðu meirihluta í hreppsnefnd Seltjarnarness árið 1946 og undu bláir Seltirningar illa undir þeirri stjórn.  Nokkru áður orti Þórbergur Þórðarson,,Seltjarnarnesið er lítið og lágt, lifa þar fáir og hugsa smátt“. Þennan kveðskap hafa íbúar á Seltjarnarnesi aldrei fyrirgefið Þórbergi.  Það er hins vegar ekki vandamál okkar Kópavogsbúa enda slitum við okkur frá bláu höndinni á Nesinu árið 1950. Þórbergur á því enn nokkra aðdáendur í Kópavoginum. En þá er best að snúa sér að leiknum.

image

Uppstilling Blikaliðsins var hefðbundin. Áfram var spiluð þriggja manna vörn og reynt að spila hraðan bolta upp í gegnum allan völlinn. Damir og Thomas komu inn í byrjunarliðið aftur eftir að hafa tekið út leikbann í síðasta leik. Einnig kom Viktor Örn inn í byrjunarliðið eftir góða innkomu í Víkingsleiknum.  Síðan gladdi það Blika að sjá Viktor Karl í síðari hálfleik eftir meiðsli sem hafa haldið honum frá leik í næstum því mánuð.

Taktík Blikaliðsins gekk nokkuð vel upp í fyrri hálfleik. Gróttumennirnir voru baráttuglaðir að vanda en smá saman hertist snaran að fórnarlambinu. Að lokum hlaut eitthvað að gefa eftir. Einn bláklæddur sá engan annan leik en að hrinda Thomasi í teignum þegar Blikar tóku 24 hornspyrnu sína hálfleiknum. Dómarinn var ekki í neinum vafa og benti á vítaspyrnupunktinn. En þá gerðist sá fordæmalausi atburður (já nú á þetta ofnotaða orð vel við!) að Thomas lét markvörðinn verja frá sér. Reyndar verður að hrósa hinum unga Hákoni Rafni markverði fyrir þau tilþrif því spyrnan var alveg út við stöng.

image

Markið sem Thomas skoraði í leiknum var hans 10.efstu deildar mark í jafn mörgum leikjum.

En Blikar héldu áfram að pressa og létu boltann ganga vel manna  á milli og nýttu kantana vel. Skömmu fyrir leikhlé var fát á miðjumönnum heimapilta. Gísli kom eins og raketta og var við það að sleppa í gegn. En einn Gróttumaður braut fantalega á honum og fékk réttilega að sjá rauða spjaldið hjá Ívari Erni, góðum dómara leiksins.

Síðari hálfleikur þróaðist svipað og sá fyrri. Blikar héldu boltanum og pressuðu gríðarlega vel á 10 manna langferðabíl heimapilta. Þeirri rútu var parkerað ansi haganlega fyrir framan vítateiginn. En svo kom að því að smá rifa myndaðist í Berlínarmúr Seltirninga. Stefán Ingi Sigurðarson sem var nýkominn inn á sem varamaður fékk sendingu inn í vítateiginn og varnarmaðurinn braut klaufalega á honum.

image

Stefán Ingi var búinn að vera aðeins 10 mínútur inná í sínum fyrsta efstu deildar leik þegar hann var feldur inn í víateig og vítaspyrna dæmd.

Aftur mætti Thomas á vítapunktinn og nú brást honum ekki bogalistinn. Að vísu var Hákon Rafn í knettinum en spyrnan var svo föst að hann náði ekki að stöðva danska dýnamítið.

Það eina sem mætti gagnrýna Blikaliðið fyrir í þessum leik er að hægja á spilinu á þessum tímapunkti. Þarna var tækifæri að láta kné fylgja kviði en nú fóru menn að verja stigið. Gróttumenn gáfust hins vegar ekki upp og áttu nokkur hálf-færi. Það hefði getað komið í bakið á okkur en sem betur fer héldum við hreinu og þrjú stigin fóru í Kópavoginn.

Það verður hins vegar að hrósa Gústa og strákunum hans í Gróttu fyrir góðan leik. Þeir börðust allan tímann en sem betur fer fyrir okkur skilaði það þeim engu stigi að þessu sinni.

Á margan hátt var þetta einn af betri leikjum Blika í sumar. Boltinn fékk að fljóta vel fram á við og vörnin var ekki að láta boltann ganga mikið aftur og til hliðar. Þess í stað var boltanum leikið fram á við og var í raun ótrúlegt að við skyldum ekki skora fleiri mörk í leiknum. Þetta var gott veganesti í Evrópuleikinn gegn Rosenborg í næstu viku og munu hjörtu allra Kópavogsbúa slá í takt þegar við mætum á Lerkedal völlinn í Þrándheimi.

Ónefndur stjórnarmaður Blika sem var á leiknum heyrðist hins vegar botna vísuna hans Þórbergs á leið af vellinum. Sjálfsagt til að nudda salti í sárin!

Já, Seltjarnarnesið er lítið og lágt.

Lifa þar fáir og hugsa smátt.

Á kvöldin heyrast þar kynjahljóð.

Komið þér sælar, jómfrú góð!

-AP

Til baka