Pepsi-deild karla- Valur - Breiðablik á morgun föstudag kl.17.30
12.09.2013Þá fer boltinn aftur að rúlla í Pepsí-deildinni í knattspyrnu. Deildin byrjar í kvöld en okkar piltar spila ekki fyrr en á morgun föstudag. Þá förum við og heimsækjum drengina hans séra Friðriks á Hlíðarenda. Okkur hefur gengið ágætlega með þá rauðklæddu á undanförnum árum og flestir muna eftir fræknum sigri á Valsvellinum í fyrra 3:4 eftir að hafa verið undir 1:3 þegar fáar mínútur voru eftir.
En sá leikur telur ekki neitt á morgun. Valsmenn hafa oft verið að spila ágætis bolta í sumar en dottið niður þess á milli. Þeir eru sjálfsagt staðráðnir í því að hefna ófaranna frá því í fyrra þannig að það má búast við hörkuleik á Hlíðarendanum á morgun.
Það er auðvitað skarð fyrir skildi að fjórir leikmenn Blikaliðsins; Finnur Orri, Þórður Steinar, Renee og Rohde, eru í banni í leiknum. En það kemur alltaf maður í manns stað og leikmenn eins og Elfar Freyr, Jökull, Gísli Páll, Viggó, Arnar Már og fleiri sem hafa verið á bekknum í undanförnum leikjum klæjar örugglega í lófana að spila.
Áhorfendur skipta miklum máli og því hvetjum við alla Blika til að mæta í og hvetja Blikaliðið til sigur.
Munið Hlíðarendi föstudag kl.17.30!
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!
Blikaklúbburinn