BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX 2021: Breiðablik - FH

18.06.2021 image

Það er þétt spilað í Pepsi MAX þessa dagana. Strákarnir okkar spiluðu á miðvikudaginn og næsti leikur er strax á sunnudaginn. Eftir mjög svekkjandi tap í stórleiknum á miðvikudaginn var er annar stórleikur framundan þegar við fáum piltana í Fimleikafélagi Hafnarfjarðar í heimsókn á Kópavogsvöll á sunnudagskvöld.

Leikirnir í Pepsi MAX deild karla, sem eru allir í 9. umferð mótsins, verða leiknir á sunnudag og mánudag.

Leikur okkar manna gegn FH verður flautaður á kl. 19:15 á sunnudagskvöld. 

Stöð 2 Sport sýnir beint frá leiknum.

Svona lítur stöðutaflan út fyrir leiki helgarinnar:

image

Sagan

Breiðablik og FH eiga að baki 114 mótsleiki frá upphafi. Í öllum 114 skráðum mótsleikjum liðanna frá 1964 til 2021 sigra Blikar 41 leiki, jafnteflin eru 22 og FH sigrar 51 viðureignir.

Innbyrðis viðureignir liðanna í efstu deild eru 52. Jafnræði er með liðunum. Blikar hafa unnið í 21 skipi, FH í 20 skipti. Jafnteflin er 11. Blikar hafa skorað 83 mörk gegn 79 mörkum FH-inga.

Í 26 efstu deildar leikjum liðanna á Kópavogsvelli hafa bæði lið unnið ellefu sinnum. Fjórum sinnum hefur niðurstaðan verið jafntefli. Meira>

Síðustu 5 í efstu deild á Kópavogsvelli

Leikmenn

Nokkrir núverandi leikmanna FH eiga rætur sínar að rekja í Kópavoginn. Ágúst Eðvald Hlynsson sem gekk nýlega til liðs við Hafnarfjarðarliðið lék með Blikaliðinu 2016 áður en hann gekk til liðs við Norwich. Guðmundur Kristjánsson lék 136 leiki og skoraði 23 mörk með Blikaliðinu á árunum 2006-2012. Hann gerði samning við IK Start í upphafi árs 2012. Guðmann Þórisson spilaði 96 leiki með Blikum á árunum 2005-2009, en gerði samning við Nybergsund fyrir keppnistímabilið 2010. 

Í leikmannahópi Blika eru tveir leikmenn sem hafa verið hjá FH. Eftir keppnistímabilið 2014 söðlaði Finnur Orri Margeirsson um gekk til liðs við Hafnarfjarðarliðið. Hann gerði svo samning við Lilleström fyrir keppnistímabilið 2015 og náði því ekki að spila mótsleik með Fimleikafélaginu. Og okkar maður Kristinn Steindórsson lék með FH-liðinu 2018 og 2019 en skilaði sér svo heim í Kópavoginn.

Leikmannahópur Breiðabliks 2021.

image

Stuðningsmaðurinn

Þetta frá SpáBlika 9. umferðar.

„Eftir bjartan daginn kemur nótt“ söng Vilhjálmur Vilhjálmsson hér um árið, en þau orð eiga ágætlega við um Valsleikinn sem undirritaður mætti með flugi í, á miðvikudaginn. Okkar menn voru búnir að vinna þrjá leiki í röð þegar að þeir mættu á Origo-völlinn, spiluðu fanta vel, nýttu ekki færin og töpuðu ósanngjarnt, 3-1.

Þeir drengir í Kópacabana sem hafa staðið vaktina í stúkunni í sumar hafa borið af sér mikinn þokka og maður hefur fylgst stoltur með frá Reyðarfirði. Það er ofboðslega gaman að fá að vera partur af sterkri liðsheild, hvort sem er í stúkunni eða á vellinum og hlakkar undirrituðum til að koma inn í þá liðsheild aftur á sunnudaginn, þegar að þeir grænklæddu fá Hafnarfjarðarpilta Loga Ólafs í heimsókn.

Hilmar Jökull; hvernig fer leikurinn?

Á sama hátt og og það kemur nótt eftir dag, þá kemur dagur eftir nótt. Spái ég því að það birti til í Kópavogi á sunnudag og við sigrum leikinn 3-1 og núllum þar með út ósigurinn gegn Val. Breiðablik hefur átt góðu gengi að fagna gegn FH á síðustu árum, eftir mögur ár þar á undan og trúir undirritaður að með góðum stuðningi og samheldni að vopni, geti Blikar komið sér aftur á sigurbraut.

BLIKAR KOMA!

image

Hilmar Jökull að gera það sem hann gerir svo vel!

Kópacabana

Okkar allra bestu stuðningsmenn í Kópacabana sveitinni, með Valdimar Pál Brynjólfsson og félaga í broddi fylkingar, hafa staðið vaktina á öllum leikjum til þessa í sumar. Þeir mæta á leikinn á sunnudaginn til að hvetja sína menn eins og áður. Ekki láta þitt eftir liggja!

image

Kópacabana sveitin á leik gegn KA 2020

Dagskrá

Kópavogsvöllur getur tekið á móti 1100 gestum í þremur hólfum í aðalstúkunni og einu hólfi í gömlu stúkunni.

Miðaverð: Fullorðnir 2.000kr, Börn fædd 2005-2014 500kr, börn fædd 2015 og yngri frítt. 

Blikaborgararnir verða á sínum stað í sjoppunni.

Við minnum á að það er grímuskylda á þessum viðburði.

Flautað verður til leiks kl.19:15!

Miðasala á Tix.ix

image

Síðasti leikur

Mörk og atvik frá 3:3 jafnteflisleik liðanna á Kópavogsvelli í fyrra:

Til baka