BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Snorrabúð orðin stekkur – Skiptur hlutur á Akureyri

05.07.2020 image

Jónas Hallgrímsson, albesta skáld okkar Íslendinga yrkir þannig í ljóðinu Ísland - sem hefst á þeim frægu orðum Ísland farsældar frón -  og allir þekkja.

Nú er hún Snorrabúð stekkur

og lyngið á Lögbergi helga

blánar af berjum lyng

börnum og hröfnum að leik

Sessunautur minn á leik KA og Breiðabliks í 4. umferð Pepsi Max deildarinnar  knattspyrnu í brekkunni á Akureyrarvelli þann 5. júlí 2020 var Vignir Baldursson fyrrum leikmaður og fyrirliði Breiðabliks.  Hann tók sér hlé frá því að gera upp sumarhúsið á Hjalteyri og það voru fagnaðarfundir með okkur.  Við höfum  leikið saman þarna ófáa leiki og Akureyrarvöllur er í minningunni sem knattspyrnumanns ávallt talinn besti grasvöllur landsins og Vignir er því hjartanlega sammála.  Okkur leið sennilega álíka og Jónasi eftir að hann kom á Þingvelli sjö öldum eftir blómatíma Alþingis og syrgði örlög þess.  Því miður er völlurinn skelfilega illa farinn á alla lund og nánast ekki boðlegur til að spila í efstu deild.    Hvað veldur er ekki víst en þetta átti eftir að hafa mikil áhrif á leikinn og í raun örlagavaldur á margan hátt. 

Vallarþulurinn bað fólk um að hafa það notalegt í „norðannepjunni“ eins og hann orðaði það.  Eftir 5 daga hitabylgju var komin stinningskaldi fyrir norðan og eins gott að hafa klætt sig vel.  

Byrjunarliðið kom í sjálfu sér ekki á óvart.   3ja manna vörn og Andri Yeoman hafði frítt spil.

image

Fyrstu 25 mínúturnar voru í raun tíðindalitlar.  Við lékum undan sterkum vindi og því kom á óvart að við áttum ekki skot á mark  fyrstu 25 mínútur leiksins. Slíkt gengur ekki til lengdar.   Þá höfðu hinsvegar KA menn átt 4 slíkar tilraunir.  Þetta breyttist talsvert þegar Kwame Quee kom inn á fyrir Gísla Eyjólfsson sem meiddist og þurfti að fara útaf á 20 mínútu.  En Blikarnir hafa oft spilað betur en í fyrri hálfleik. 

Á síðustu mínútu hálfleiksins náði Thomas Mikkelsen að skora eftir að Brynjólfur Willumsson hafði náð að stríða vörn KA og Daninn er engum líkur í að nýta svona hálffæri.   1-0 í hálfleik.

image

Í seinni hálfleik náðu Blikar yfirhöndinni smám saman og annað markið lá í loftinu.  KA eru hinsvegar með stóra og sterka leikmenn sem leggja mikið upp úr föstum leikatriðum.  Það bar árangur á 67. mínútu að þeir skora eftir því miður sofandahátt hjá okkur í vörninni.  KA maður var algerlega óvaldaður úti í teig og skaut lausu skoti sem lak inn í fjærhornið.  Maður á stönginni fjær hefði bjargað þessu marki – en það er víst úr tísku í knattspyrnu að láta menn vera á stöngum í horni.  Og alltaf sér maður mörk verða til vegna þessa.  Heimur versnandi fer.  

Blikarnir áttu að gera út um leikinn í síðari hálfleik.  Kwame Quee var gríðarlega öflugur á hægri kantinum og naut aðstoðar Andra Yeoman.  Brynjólfur átti afar góða spretti og átti að skora en það var bjargað af línu.  Sömuleiðis komst Höskuldur í dauðafæri og Thomas átti gott skot rétt framhjá.  Alveg með ólíkindum hvernig Blikum tókst ekki að skora. 

image

Þá kom alvöru dramatík á síðustu mínútunum.  Nánast eins og grískur harmleikur.  KA fékk jólagjöf á miðju sumri frá Jóhanni Inga Jónssyni dómara leiksins.  Það kom saklaus fyrirgjöf og menn voru í stöðubaráttu sem lauk þannig að KA maður féll við.  Jóhann dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu – en fyrir mér var þetta klassískt einvígi í teignum þar sem menn tókust á.  Róbert Orri – sem reyndar hefur átt betri daga frá því hann kom til okkar – átti að hafa gerst brotlegur.  Í endursýningu kom svo í ljós að þessi dómur var álíka réttlátur og voru hjá rannsóknaréttinum á Spáni á miðöldum.  KA skoraði úr vítinu.

Þegar þarna var komið var leikurinn tapaður.  Kominn uppbótartími og ég sneri mér að hinum sessunauti mínum, Pétri Má Ólafssyni, einum helsta forleggjara landsins og bauð honum að skrifa um þennan leik í minn stað.   Blikar taka hinsvegar miðju og langur bolti sendur inn í vítateig KA.  En þar sem Snorrabúð er stekkur – missir varnarmaður KA fótanna á holóttum vellinum og fær dæmt á sig víti fyrir að handleika knöttinn.  Thomas skorar örugglega úr vítinu, hann kann ekki annað.  Jafntefli staðreynd og ég tók að mér að rita um leikinn.

Eftir leikinn var mér boðið í kaffiheimsókn til eins fremsta knattspyrnufrömuðar Akureyrar á Helgamagrastræti.  Vignir Már Þormóðsson var formaður knattspyrnudeildar KA í 8 ár, og sat í stjórn KSÍ álíka lengi.  Vignir – sem var prýðilegur leikmaður á sínum tíma og mikill höfðingi heim að sækja kvað upp úr með að við áttum að gera út um leikinn í seinni hálfleikinn.  En hann var svekktur með úr því sem komið var að vinna ekki. 

1 stig og blendnar tilfinningar á Akureyri þennan hryssingslega sunnudagseftirmiðdag.  Við erum á toppnum á stigatöflunni.  En það er líka staðreynd að við höfum leikið gegn öllum neðstu liðunum og eigum mörg þeirra erfiðustu eftir.  En auðvitað er gott að vera á toppnum og árangurinn frábær í ár hingað til.  En þar er líka vindasamt. Næsti leikur er strax á miðvikudag þegar FH kemur í heimsókn á Kópavogsvöll.  Leikir liðanna hafa alltaf verið góð skemmtun – og verður eflaust svo núna líka.  Fjölmennum á völlinn – við ætlum ekki að missa toppsætið frá okkur. 

Mývatnssveit 5. júlí 2020

Hákon Gunnarsson

image

Leikurinn var 100. mótsleikur Olivers með Blikum.

image

Helgi Viðar frá BlikarTV var á Greifavellinum og tók þessar myndir (smella á mynd)

Til baka