BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Stærsti sigur Breiðabliks á ÍA í 116 viðureignum

29.02.2020 image

Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru framúrskarandi ef tekið er mið af því að það er febrúarmánuður sem enn er ekki liðinn. Logn, snjódrífa á köflum en völlurinn eins og best verður á kosið.

Þegar Óskar Þorvaldsson var ráðinn þjálfari meistarflokks Breiðabliks í haust hélt hann fjölmennan fund með harðasta stuðningskjarna Blikanna. Þeir Halldór Árnason aðstoðarþjálfari hans sátu fyrir svörum auk þess sem Óskar fór yfir víðan völl. Skilaboðin voru skýr:  Breiðablik á áfram að vera í toppbaráttu og liðið á að stefna á titla.   En hann sagði jafnframt að þeir Halldór hefðu sterka sýn á hvernig liðið ætti að spila.  Hann var spurður um þessa 3ja manna vörn sem stuðningsmenn margir voru ekki allt of hrifnir af síðari hluta leiktímabilsins í fyrra.  Hann gaf í skyn að til að stýra leiknum þá myndi hann byggja á ekki ósvipaðri nálgun, jafnvel að leika með 3 menn í vörn.   En hann sagði líka að í raun séu allir í vörn og allir í sókn í þeim fótbolta sem hann vill liðið leiki. Hann lagði jafnfram áherslu á að þetta skipulag þyrfti mikla yfirlegu og þrotlausar æfingar.  Eflaust yrðu gerð mistök á undirbúningstímabilinu – en menn verða hinsvegar að standa í lappirnar og trúa á það sem lagt er upp með. Hann bað menn um að sýna þessari afstöðu skilning. 

Breiðablik mætti ÍA í 3ja leik í Lengjubikarnum 2020 – en Blikarnir hafa unnið báða leikina sína örugglega.  Við áttum harma að hefna eftir skelfilegt tap (2-5) í úrslitum Fotbolta.net mótsins fyrir mánuði síðan.  Það var leikur sem sýndi að fótbolti og sanngirni er sitt hvað.  Fleyg ummæli Gunnars Steins Pálssonar lýstu þeim leik best.  “Akranes fékk 1 færi í leiknum en skoraði 5”.   

Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru framúrskarandi ef tekið er mið af því að það er febrúarmánuður sem enn er ekki liðinn.  Logn, snjódrífa á köflum en völlurinn eins og best verður á kosið. Áhorfendur voru furðu margir – og hræðslan við Corona-vírusinn var ekki að hrjá menn neitt og menn tókust í hendur eins og venjulega.

image

Byrjunarlið Blikanna var þannig að Anton Ari var í markinu.  Viktor Örn, Damir og Davíð Ingvarsson í vörninni.  Viktor Karl og Höskuldur vængtengiliðir en Guðjón Pétur og Alexander á miðjunn og Gísli þar aðeins fyrir framan.  Frammi voru svo Thomas Mikkelsen og Brynjólfur Willumsson sem kom inn í liðið eftir nokkra fjarveru vegna meiðsla.

Nánar um leikinn:

Blikarnir stýrðu leiknum frá upphafi leiksins og Guðjón Pétur var þar heilinn að baki sóknum Blikanna.  Ekki sköpuðust mörg færi en það besta kom á 20. mínútu þegar Höskuldur fékk opið færi á markteig eftir aukaspyrnu Guðjóns en fyrirliðinn skallaði yfir. Ólíkt honum því hann hefur mikla tækni á þessu sviði.  En Blikarnir gáfust ekki upp – og uppskáru laun erfiðisins og skoruðu 3 mörk undir lok fyrri hálfleiks á 8 mínútna kafla.  Fyrst skoraði Gísli Eyjólfsson, en hann fylgdi vel eftir skoti frá Alexander og kom boltanum yfir línuna. 2 mínútum síðar fengu Blikar aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig eftir að Skagamenn höfðu brotið á Thomas Mikkelsen. Alexander tók spyrnuna – og hitti boltann afar vel – setti hann reyndar í markmannshornið.  Alexander hefur gert þetta áður – og hann gerir þetta afar áreynslulaust og þetta virkar auðvelt.  En það er það alls ekki og það eru mikil gæði að hafa hæfileika hans á þessu sviði í liðinu. Síðasta mark hálfleiksins kom eftir mjög fallegt samspil og Skagamenn vissu ekki sitt rjúkandi ráð eftir þá sókn.  Löng sending fram á Viktor Karl sem lagði boltann á  Alexander. Hann  átti frábæra sendingu á Gísla sem kom hlaupandi á ferðinni á blinda augað hjá bakverðinum vinstra megin. Fyrirgjöfin rataði beint á Thomas Mikkelsen sem var einn og óvaldaður á markteignum. Þá er ekki að sökum að spyrja.

Kaffið í hálfleik bragðaðist vel – og menn voru afar sáttir við spilamennskuna.  Góður mælikvarði á það er þegar Finnbogi Alfreðsson (jú, faðir Alfreðs) einn  kröfuharðasti stuðningsmaður Blika var hæstánægður með frammistöðuna.  Þá hljótum við að vera að gera eitthvað rétt.

Hinsvegar voru men aðeins værukærir í upphafi síðari hálfleiks.  Skagamenn eiga nokkra leikmenn sem eru góðir í fótbolta og þeir bitu frá sér framan af. Það var reyndar ljóður á þeirra leik að þeir brutu illa af sér margir hverjir og uppskáru spjöld í kjölfarið.  Þeirra besti maður, Tryggvi Rafn Haraldsson skoraði stórglæsilegt mark, algerlega óverjandi fyrir Anton Ara með skoti fyrir utan vítateig.

Þetta vakti okkar menn  úr værðinni og við tókum öll völd og eftir það var aðeins eitt lið á vellinum.  Spilamennskan var þannig að unun var á að horfa.  Viktor Karl og Gísli fengu báðir dauðafæri en náðu ekki að skora.

En á 71. mínútu brustu varnir Skagamanna. Boltinn barst til Davíðs Ingvarssonar, vinstra bakvarðar 25 metra frá markinu eftir hornspyrnu.  Davíð gerði sér lítið fyrir og skaut bylmingsskoti sem söng í netinu í hægra horninu fjær.  Þetta var magnað að sjá – því Davíð var í kyrrstöðu þegar hann lét vaða á markið.  Þetta geta ekki margir. Davíð skorar ekki á hverjum degi – en hann er mjög vaxandi leikmaður. 

Höskuldur Gunnlaugsson tók næst til sinna ráða. Hann lagði upp 2 mörk  á 3 mínútum undir lok leiksins með glæsilegum hætti.  Fyrst fyrir Viktor Karl og síðan fyrir Thomas Mikkelsen. Höskuldur er síógnandi og fer fyrir sínum mönnum eins og fyrirliða sæmir. Það er mikil gæfa fyrir okkur að hann skuli vera kominn til baka. Síðasta markið skoraði Viktor Karl en það var Róbert Orri Þorkelsson sem lagði snilldarlega upp boltann á hann og gott skot hans endaði í netinu hjá Árna Snæ í marki ÍA.  Róbert kom inn á sem varamaður en Óskar gerði margar breytingar á leiknum og hafði það engin áhrif á góða spilamennsku.   Það er gríðarlega traustvekjandi og alveg ljóst að breiddin í hópnum okkar er þannig kannski okkar helsti styrkleiki.  

Auk Róberts komu  Elfar Freyr, Kwame Quee, Benedikt Warén og Kristinn Steindórsson inn á og stóðu sig allir vel.

Niðurstaðan var því 7 – 1 sigur okkar gegn Akranesi.  Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar.  Tölfræði okkar gegn þessu fyrrum stórveldi er ekki okkar megin eins og má sjá hér. Þetta er held ég stærsti sigur Breiðabliks á ÍA í 116 innbyrðis leikjum félaganna.  Þetta eru því á margan hátt söguleg úrslit og ánægjuleg.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um Skagaliðið – en það ætti að geta meira.  Það er kannski ekki hægt að segja um að nú sé hún Snorrabúð stekkur – en það er alveg ljóst að liðið er ekki það stórveldi sem það var með sína merku sögu.  Það er með ólíkindum hvað þetta bæjarfélag hefur framleitt marga góða knattspyrnumenn.  Þetta er að hluta til genetískt eins og lesa má um hér.

Breiðablik spilaði frábærlega mest allan leikinn.  Vörnin var þétt allan tímann og áður er minnst á Guðjón Pétur á miðjunni. Á góðum degi eru það ekki margir betri miðjumenn sem leika á Íslandi. Gott að sjá Brynjólf að koma inn, það er alltaf hætta í kringum hann. Thomas Mikkelsen sást kannski ekki mikið – en hann skilaði 2 mörkum, nákvæmlega það sem við viljum fá frá honum.  En mér fannst Viktor Karl vera besti leikmaður Breiðabliks í kvöld.  Hann er ótrúlega flinkur leikmaður  - afar ósérhlífinn og ábyrgur í þessari erfiðu stöðu sem varnartengiliður sem á að sækja fram – sem hann gerir vel. Spilamennska þeirra Höskuldar í þeirri taktík sem Óskar er að leggja upp gæti verið á margan hátt afgerandi hvort þessi taktík gangi upp. Þessi leikur gefur góð fyrirheit um að fyrirætlanirnar frá í haust sem minnst er á hér í upphafi gangi eftir.    

Næsti leikur okkar verður gegn Leikni, Fáskrúðsfirði í Fjarðarbyggðarhöllinni á Reyðarfirði sunnudaginn 8. mars kl.13:00.

Hákon Gunnarsson

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var í viðtali við Fótbolta.net í gærkvöldi eftir 7-1 sigur á ÍA í Lengjubikarnum. Óskar var spurður út í leikinn, æfingaferð Breiðabliks og leikmannahópinn.

Til baka