BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sterkur Blikasigur á Skaganum

25.05.2021 image

Blikaliðið hélt undir Rúbikon (Hvalfjörðinn) í gær og kom sigrihrósandi til baka með þrjú stig í farteskinu eftir 2:3 sigur á heimapiltum á Skipaskaga. Sigurinn var kærkominn og sanngjarn en óþarflega tæpur. Okkar drengir voru mun sterkari í leiknum og áttu í raun að vera búnir að klára leikinn í fyrri hálfleik. En við hleyptum heimapiltum inn í leikinn með kæruleysislegum varnarleik í síðari hálfleik. En það slapp fyrir horn og við skríðum hægt og bítandi upp töfluna.

Byrjunarliðið okkar í leiknum:

image

Í Landnámu (Hauksbók) segir að bræðurnir Þormóður gamli og Ketill Bresasynir fór frá Írlandi og námu Akranes allt á milli Aurriðaár og Kalmannsár.

Þeir voru taldir ribbaldar og illvigir heim að sækja. Hallkell, er nam Hvítársíðu, bjó fyrstur á Akranesi á Hallkelsstöðum, áður Bresasynir drápu hann.

Kópavogurinn var hins vegar numinn af fátæku og landlausu fólki af Seltjarnarnesinu snemma á síðustu öld. Lengi framan af var Skaginn óvinnandi vígi fyrir vanbúna Blika. Pistlahöfundi er til dæmis í fersku minni margar haustveiðiferðirnar í Flókadalsá Í Borgarfirði á síðustu öld með góðum Blikum eins og Sigurði Thorarensen, Jóhanni R. Benediktssyni Guðmundi J. Jónssyni og Ara Þórðarsyni. Þar var ætið gert hlé á veiðiskapnum til að kveikja á transistortækinu í hrörlegum veiðikofanum til að hlusta á lýsingu á Blikaleik. Oftar en ekki var sá leikur gegn Skagamönnum. Oft voru sporin þung út að ánni á nýjan leik þegar ljóst var að fall blasti við Blikaliðinu enn eitt skiptið. Við ætlum til dæmis alls ekki að rifja upp leikinn í efstu deild árið 1973

Nú er hún hins vegar Snorrabúð stekkur fyrir Skagamenn.

Blikasólin hefur aftur á móti risið hátt og er okkur bæði ljúft og skylt að minnast á 6:1 sigur okkar pilta í efstu deild árið 2008.  Þar skoraði meðal annars Jóhann Berg Guðmundsson eitt marka Blikaliðsins. Vefurinn okkar blikar.is er hafsjór af fróðleik um fyrri leiki okkar Blika og hvetjum við alla til að kynna sér þennan fjársjóð. Sjá nánar> hér.

Í þessum pistli verður eigi rakinn nákvæm lýsing á leiknum enda aðrir miðlar búnir að gera því góð skil >hér

En það verður samt að hrósa sóknarlínu Blika.Það fór um stuðningsmenn Blika þegar stórsenterinn Thomas Mikkelsen var borinn af velli meiddur í síðasta leik og verður víst frá í einhvern tíma. En Árni Vill, Gísli og Jason sýndu það og sönnuðu Í þessum leik að sóknarleikurinn er ekki vandamál hjá liðinu.

image

Gísli Eyjólfs opnaði 2021 markareikninginn þegar hann skoraði fyrsta mark Blika.

image

Jason Daði fékk tvö dauðafæri og nýtti annað

image

Árni Vill skoraði annan leikinn í röð.

Við höfum nú þegar skorað 14 mörk eða 2,3 mörk að meðaltali í leik. En við höfum fengið 10 kvikindi á okkur og það er of mikið. Við erum hins vegar með mannskap til að loka fyrir þann leka og þegar það gerist þá verðum við í toppbaráttunni.

Næsti leikur okkar Blika verður gegn spútnikliði Knattspyrnufélags Akureyrar fyrir norðan. Vegna landsleikja verður sá leikur ekki fyrr en 7. eða 8. júní.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar

-AP

Mörkin úr leiknum í boði Visir.is:

Til baka