BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Stórsigur á Keflavík

23.01.2021 image

Daninn Thomas Mikkelsen skoraði þrennu í fyrri hálfleik. Þetta kallar maður að koma til baka í íslenska boltann með látum!

Blikahraðlestin hrökk heldur betur í gang í öðrum leik Fótbolta.net mótsins 2021. Fórnarlambið voru nýliðar Keflavíkur og voru lokatölur 1:6 okkar drengjum í vil. Heimapiltar komust reyndar yfir í leiknum en yfirburðir Blika voru það miklir að það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. Danska dýnamítið Thomas Mikkelsen er mættur til baka og setti þrennu í leiknum þrátt fyrir að hafa einungis spilað fyrri hálfleikinn. Gísli  Eyjólfsson kom eins og þanin fjöður í seinni hálfleikinn og setti tvö kvikindi. Einnig skoraði Höskuldur gullfallegt mark í seinni hálfleiknum.

Blikaliðið tók strax öll völd á vellinum og sótti stift frá fyrstu mínútu. En Keflavíkurvörnin varðist vel og markvörður heimapilta varði nokkrum sinnum frábærlega.  Við gleymdum okkur hins vegar á 16.  mínútu og eftir fyrstu sókn þeirra dökklæddu þá fengu þeir víti. Okkar drengir voru hins vegar ekkert að hengja haus og Thomas jafnaði úr víti á 30. mínútu. Reyndar hafði hann skoraði mark fimm mínútum áður en var þá dæmdur rangstæður. Andri Rafn hafði átt hörkuskot í stöngina og Thomas hirt frákastið. Rétt fyrir leikhlé braust Brynjólfur skemmtilega upp kantinn og átti fasta fyrirgjöf fyrir markið sem Thomas skallaði í netið. Og á lokaandartökum hálfleiksins fullkomnaði Daninn þrennuna sína.  Þetta kallar maður að koma til baka í íslenska boltann með látum!

Mörkin úr leiknum í boði BlikarTV & KeflavíkTV:

Í síðari hálfleik var einstefna á mark heimadrengja. Gísli var búinn að hita upp andlega á bekknum allan fyrri hálfleikinn og var ekki lengi að setja fyrsta markið. Á 60. mínútu bætti Höskuldur við gullfallegu marki eftir góðan undirbúnings Stefáns Inga. Það var síðan Gísli sem rak lokanaglann í kistu heimapilta með marki af stuttu færi skömmu fyrir leikslok. Skömmu áður hafði Guðjón Pétur átt skot í stöng beint úr aukaspyrnu þannig að sigurinn hefði getað verið enn stærri. Allt Blikaliðið átti prýðisgóðan leik að þessu sinni.

Mótspyrnan verður hins meiri í næsta leik gegn FH-ingum sem verður á Kópavogsvelli næsta laugardag 30.1. kl.13.30.  Það má því búast við miklu fjöri þá!

-AP

Til baka