BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Súrt jafntefli!

02.10.2020 image

Það var Viktor Karl Einarsson skoraði mark Blika í leiknum. Markið má sjá hér neðar í umfjölluninni. 

Blikar urðu að bíta í það súra epli að sætta sig við 1:1 jafntefli gegn KA-mönnum á Kópavogsvelli í gær. Norðanpiltar lögðu rútunni fyrir framan vítateig sinn og vörðu svæðið með kjafti og klóm allan leikinn. Við gáfum þeim forskot með gjafamarki í fyrri hálfleik og það kann ekki góðri lukku að stýra gegn jafn miklu jafnteflisliði og KA er. Ljósið í myrkrinu var hins vegar gott jöfnunarmark Viktors Karls í síðari hálfleik. En miðað við þá miklu yfirburði sem við höfðum úti á vellinum þá voru þetta mjög svekkjandi úrslit og dýr tvo stig töpuð.

image

Covid19 ófreskjan gín nú yfir samfélaginu og hefur áhrif á mætingu á leiki í Pepsídeildinni. Aðeins rúmlega 300 manns mættu á leikinn í gær og kemur það aðeins á óvart eftir tvo mjög góða leiki Blikaliðsins gegn Stjörnunni og Val. Margir lykilstuðningsmenn Blika treysta sér greinilega ekki á leiki vegna faraldursins. 

Því miður náði Blikaliðið ekki að fylgja eftir góðum leikjum gegn Stjörnunni og Val. Lykilmenn í okkar liði hafa oft spilað betur en í gær. KA menn náðu til dæmis að loka gersamlega á framherjaparið okkar og hefur sjaldan í sumar sést jafn lítið til þeirra í leik. Einnig vantaði betri ákvörðunartökur á síðasta vallarfjórðungnum hjá okkur og lítil ógn var úr þeim fjölmörgu hornspyrnum sem við fengum í leiknum.  Við áttum hins vegar nokkur færi og hálf-færi í leiknum en þetta var einhvern veginn einn af þessum leikjum sem boltinn vildi bara ekki inn hjá andstæðingum okkar.

image

Sem betur fer voru flest önnur úrslit í deildinni okkar hagstæð. Við sitjum því í þriðja sæti í deildinni höfum Evrópuörlög okkar sjálfra í hendi. Við eigum eftir að spila við Fylki, HK, ÍA, Víking og Stjörnuna. Ef við náum upp sama krafti og spilamennsku og gegn Val og Stjörnunni þá eru okkur allir vegir færir.

Það verður einnig að hrósa Kópacabana hópnum fyrir góðan stuðning við Blikaliðið í leiknum í gær. Þeir sungu og trölluðu allan leikinn og reyndu að hvetja strákana okkar áfram. Einnig sýndu þeir Blikagoðsögninni Arnari Grétarssyni, þjálfara KA-liðsins, viðeigandi virðingu með því að flagga Adda fánanum góða. Haldið áfram á þessari braut strákar!

image

Næsti leikur Blikaliðsins er gegn spútnikliði Fylkis á sunnudaginn kl.19.15.

Við hvetjum því alla sem vettlingi geta valdið að mæta á völlinn á sunnudaginn. 

-AP

Umfjallanir netmiðla

Til baka