BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Umhverfisverkfræðingurinn hetja Blika

28.06.2021 image

HK og Breiðablik hafa ekki háð marga hildi á knattspyrnuvellinum í efstu deild í knattspyrnu.  Saga HK þar er ekki löng.  Fyrir leikinn á sunnudagskvöldið höfðu liðin einungis leikið 7 sinnum í efstu deild.  Þrátt fyrir að Breiðablik sé fjölmennara félag og með lengri sögu hafði HK vinninginn í viðureignum félaganna – hafði sigrað þrjú skipti á móti tveimur hjá okkar mönnum.  Nokkuð sem sem margir Blikar gera sér ekki grein fyrir.  Skýringin kann að vera sú að HK tekst einhverra hluta vegna að ná góðum leik gegn Blikum – og rimmurnar hafa oft einkennst af mikilli baráttu nágrannanna í bænum.  Sú var einnig raunin á sunnudaginn.

Það er reyndar erfitt að venjast þeirri staðreynd að leikur sem þessi skuli fara fram innanhúss á fögru sumarkvöldi.  Fagurgrænir grasvellir eru í kringum Kórinn – og auðvitað á HK skilið að leika sína leiki við betri aðstæður en þarna eru. Til þess þarf að koma upp viðunandi keppnisvelli utandyra og  vonandi rætist úr hjá félaginu hvað aðstöðuna varðar. HK á betra skilið en að það þurfi í tvígang í svona leik að stöðva hann vegna þess að boltinn fór upp í rjáfur.

Uppstillingin hjá okkur var nokkuð hefðbundin – nema að Andri Rafn Yeoman var í fyrsta sinn í byrjunarliðinu á tímabilinu og gladdi það okkur stuðningsmenn í stúkunni mikið.  Gísli var meiddur frá Keflavíkurleiknum – og Thomas kominn aftur inn í byrjunarliðið.  Annað kom lítið á óvart.

image

Það var því engin ástæða fyrir okkur Blika að vanmeta andstæðinginn fyrir leikinn í kvöld – þrátt fyrir stöðuna í deildinni.  Enda kom á daginn að HK mætti afar skipulagt til leiks. Það var alveg ljóst hvernig Brynjar þjálfari hafði lagt taktíkina upp.  Það var einfalt. Leyfa Blikum að sækja – og keyra hraðann upp ef glufur mynduðust og mistök eru gerð í okkar vörn.   Sama strategía og skilaði góðum sigri hjá HK gegn okkur á sama stað í fyrra.  Blikar byrjuðu leikinn betur loksins þegar þeir létu til skarar skríða.  Boltinn gengur rosalega hægt fram á við stundum og maður spyr sig hvort að það sé endilega skylda að markmaðurinn þurfi að hefja allar sóknir.   

image

Mynd í boði Huldu Margrétar ljósmyndara

Thomas átti skalla í þverslá og Kristinn Steindórsson var í dauðafæri eftir harða sókn – en inn vildi boltinn ekki.   Það er svo HK sem skorar mark eftir 22 mínútur var nánast endursýning frá því í leiknum í fyrra í Kórnum.  Óskaplega hæg uppbygging á spilinu og ónákvæm sending frá  frá markmanni okkar sem endar á góðum skotmanni HK. Boltinn söng í netinu – og refsingin var grimm.  Ekki í fyrsta sinn sem álíka  gerist í sumar – og í fyrra líka. 

Blikar héldu áfram sóknum sínum og herjuðu á mark HK.  Það var svo Kristinn Steindórsson sem skoraði laglegt skallamark framhjá öllum risunum í vörn HK rétt fyrir leikhlé.

image

Mynd í boði Huldu Margrétar ljósmyndara

Seinni hálfleikur var tíðindalítill framan af.  Miklu meira jafnræði var með liðunum og sóknarleikur Blika alls ekki jafn öflugur. Munaði miklu um að Árni Vilhjálmsson fór meiddur af velli og HK komst miklu meira inn í leikinn.  Sérlega voru þeir hættulegir í skallaeinvígjum, það er nokkuð áhyggjuefni að andstæðingar okkar hafa oft betur í fyrirgjöfum fyrir okkar mark.  Þetta þarf að skoða betur. Á 69 mínútu fær HK síðan dæmda vafasama vítaspyrnu sem þeir skora úr af öryggi.   Hér fór um margan Blikann í stúkunni – og HK freistaði þess að halda fengnum hlut.  Á 83. mínútu átti Viktor Karl þrumuskot sem fór í hönd HK manns og dæmt var víti sem Thomas skoraði úr alveg ískaldur.  Strax í næstu sókn fékk Andri Rafn Yeoman boltann í teignum. Hann náði snilldarmóttöku og skoti með baki í markið og lét vaða. Boltinn fór í stöngina og inn.  Decibel hávaðinn Blikameginn í stúkunni náði sömu hæðum og þegar Justin Timberlake hélt fræga tónleika um árið í Kórnum.  Skrásetjari lenti í fanginu á Gunnari Jónssyni og er enn sárþjáður í bakinu eftir hramminn sem hann lét dynja á baki mínu.  Gleðin var ósvikinn og lögmaðurinn – sem er heljarmenni að burðum -  tjáði viðstöddum að „Fylkir er búinn að jafna á móti Val!“.  Það er ekkert hvísl í gangi þegar Gunnar hefur upp raust sína.

Leikurinn fjaraði út og fyrsti útisigur Blika gegn HK var staðreynd í efstu deild.

Þetta var frábær sigur – og bráðnauðsynlegur til að halda dampi og Blikum í toppbaráttunni. Það sem stendur upp úr er framgangur Andra Rafn Yeoman í leiknum.  Andri Rafn hefur sérstakan sess hjá Breiðablik. Hann er leikjahæsti leikmaður félagsins með 355 leiki – sem þýðir að hann er búinn að vera nánast fastamaður í liðinu síðan hann gekk upp í meistaraflokk 16 ára gamall – en hann er núna 29 ára.   Þetta var fyrsti byrjunarleikur hans í ár.  Ástæðan er sú að hann lauk mastersprófi í samgöngu- og umhverfisverkfræði við Sapienza háskólann í Róm á Ítalíu nú í vor og er tiltölulega nýkominn til landsins eftir það afrek.  Hann var ekki einungis besti leikmaður Blikanna í leiknum heldur var markið hans var stórglæsilegt – og kærkomið.  Við Blikar erum sannfærðir að með Andra Rafn innanborðs í þessu formi erum við til alls líklegir núna þegar síðari hálfleikur Pepsi deildarinnar er að hefjast.

Hákon Gunnarsson

Umfjallanir netmiðla.

Myndaveisla í boði Huldu Margrétar ljósmyndara:

image

Til baka