Alfreð kjörinn íþróttamaður Kópavogs 2010
04.01.2011
Blikar gerðu góða ferð í Salinn í kvöld þegar Íþrótta- og tómstundaráð Kópavogs veitti viðurkenningar fyrir frábært íþróttaár, 2010.
Alfreð Finnbogason var kosinn íþróttamaður Kópavogs, annað árið í röð og meistaraflokkur karla var heiðraður fyrir frábæran árangur.
Fjöldi viðurkenninga var veittur í aldursflokkum 13 - 16 ára annarsvegar og í flokki 17 ára og eldri hinsvegar og hápunktur kvöldsins var svo þegar lýst var kjöri íþróttamanns og íþróttakonu Kópavogs.
Alfreð var kjörinn úr hópi karlanna einsog fyrr var nefnt og íþróttakona Kópavogs 2010 var kjörin Íris Mist Magnúsdóttir fimleikakona úr Gerplu.
Þetta var sannarlega glæsilegt hjá okkar manni og hann toppaði svo sjálfan sig þegar hann kvaddi sér hljóðs að lokinni verðlaunaafhendingu. Alfreð kom á framfæri þakklæti til þeirra sem stutt hafa hann á sínum ferli og tilkynnti því næst að hann myndi láta verðaunafé sitt renna óskipt til unglingastarfs knattspyrnudeildar Breiðbliks !
Sannarlega óvænt atriði, en vel til fundið hjá Alfreð og eiginlega bara negla, stöngin og inn !
Blikar.is óska Alfreð, meistaraflokki karla og öllum Blikum til hamingju !
OWK.