BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Arnór Sveinn ákveður að hætta sem aðstoðarþjálfari

20.12.2025 image

Tíðindi úr Smáranum

"Arnór Sveinn Aðalsteinsson hefur ákveðið að láta staðar numið, sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla. Arnór Sveinn hefur gegnt starfi aðstoðarþjálfara undanfarið ár og staðið sig með mikilli prýði. Undir hans stjórn ávann liðið sér m.a. þátttökurétt í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar, þar sem liðið stóð sig sem með miklu ágætum.

Arnór Sveinn er einn af dyggustu sveinum Breiðabliks. Hann var hluti af fyrsta Íslands-og bikarmeistaraliði Breiðabliks árin 2009 og 2010 áður en hann hélt erlendis, þar sem hann spilaði sem atvinnumaður í Noregi við góðan orðstír. Eftir heimkomu lék hann lengi vel með Breiðabliki og átti stóran þátt í því, þegar Breiðablik tryggði sér sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar árið 2023, fyrst íslenskra liða. Þá spilaði hann einnig mikilvægt hlutverk í Íslandsmeistaratitlinum árið 2024, en að því tímabili loknu lagði Arnór skóna á hilluna, sem tíundi leikjahæsti leikmaðurinn í sögu karlaliðs félagsins og í kjölfarið tók hann að sér starf aðstoðarþjálfara.

Við þökkum Arnóri kærlega fyrir frábæran tíma hjá Breiðabliki og vonumst til að sjá hann fljótlega aftur á hliðarlínunni. Takk fyrir okkur Arnór og gangi þér vel"

Nánar um farsælan feril Arnórs í meðfylgjandi frétt á blikar.is frá 1. nóvember 2024: 

Blika goðsögn kveður boltann sem leikmaður

01.11.2024image

Grafík: Halldór Halldórsson

Þessi ánægjulegu tíðindi bárust úr Smáranum um daginn:

"FRÉTTATILKYNNING

Arnór Sveinn hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla og tekur við keflinu af Eyjólfi Héðinssyni sem er að koma til annarra starfa hjá Breiðabliki. Arnór Svein þarf ekki að kynna fyrir Blikum en hann hefur leikið 277 leiki fyrir félagið. Hans fyrsti leikur var árið 2003 og varð hann bikarmeistari með liðinu árið 2009 og Íslandsmeistari 2010. Arnór spilaði einnig sem atvinnumaður í Noregi og varð Íslandsmeistari með KR árið 2019. Hann sneri aftur til Breiðabliks árið 2022 og hefur spilað með liðinu síðan. Arnór Sveinn þekkir félagið og hópinn vel og það er afar ánægjulegt fá hann inn í þjálfarateymið sem aðstoðarþjálfara."

Ferillinn

Fyrsti mótsleikur Arnórs í meistaraflokki var bikarleikur gegn Njarðvík í júní 2003 - þá 17 ára gamall. Fyrsti deildaleikur Arnórs var gegn Fjölni á Kópavogsvelli í lok ágúst 2004.

Árið 2005 tekur Nóri þátt í 14 deildaleikjum, en árið 2005 var einmitt árið sem Blikaliðið vann sig upp um deild og hefur ekki litið til baka síðan.

Arnór Sveinn var eini leikmaðurinn í leikmannahópi Breiðabliks 2024 sem á að baki leiki með Blikaliðinu í næst efstu deild.

Arnór var einn af lykilmönnum í Bikarmeistaraliðinu 2009 og Íslandsmeistaraliðinu árið 2010. Hann hélt í atvinnumennsku til Noregs og lék þar með Hönefoss í Noregi í tvö ár frá 2011 til 2013. Í Noregi spilaði hann 55 leiki með Hönefoss og skoraði 1 mark.

Síðan kom hann til baka og spilaði með Blikum í nokkur ár áður en hann söðlaði um og fór til KR en þar átti hann 6 farsæl ár. Spilaði 142 leiki og skoraði 3 mörk með Vesturbæjarliðinu.

Arnór á að baki 12 A landsliðsleiki og 9 leiki með U21. 

Arnór var fjölhæfur varnarmaður og gat spilað bæði sem bakvörður og sem miðvörður

image

Arnór Sveinn Aðalsteinsson er Íslandsmeistari með Breiðabliki árið 2024. 

Framhaldið

Takk fyrir allt Arnór Sveinn Aðalsteinsson, þú ert einstakur. Um leið og við þökkum fyrir allt sem þú hefur gert þá hlakkar okkur til alls sem þú munt gera fyrir okkur sem þjálfari.

PÓÁ

Til baka