- Það var mjög góð mæting á Kópavogsvöll þrátt fyrir veðrið. Mynd: HVH
- Aron Bjarnason að fara að setja boltann í mark Stjörnumanna. Fyrsta efstu deildar markið fyrir Breiðablik komið. Mynd: HVH
- Michee Efete stóð fyllilega undir væntingum og var næstum búinn að stanga inn jöfnunarmark. Mynd: HVH
- Stjörnumenn voru frískir í sókninni. Mynd: HVH
- Fyrir leikinn veitti Ólafur Hrafn Ólafsson formaður knattspyrnudeildar Höskuldi Gunnlaugssyni viðurkenningarskjal fyrir 100 mótsleiki með Breiðabliki: Mynd: HVH
Batamerki en engin stig
15.05.2017
Blikar mættu nágrönnum úr Stjörnunni í kvöld í PEPSI deildinni.
Vikan hefur verið all stormasöm í Kópavogi af ástæðum sem flestum eru kunnar og verða ekki frekar tíundaðar hér. Við slíkar kringumstæður getur sannarlega brugðið til beggja vona og ekkert gefið. Blikar hafa verið að ströggla, svo ekki sé fastar að orði kveðið en gestirnir unnu 5-0 stórsigur á ÍBV í 2. umferðinni. Það var því ljóst að verkefnið var ærið.
Það var leiðindaveður í dag, austan strekkingur með úrkomu af og til en þó mest í grennd. Hiti 8°C.
Byrjunarlið Blika;
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)(F)
Viktor Örn Margeirsson - Damir Muminovic - Michee Efete - Davíð Kristján Ólafsson - Andri Rafn Yeoman - Gísli Eyjólfsson - Arnþór Ari Atlason - Martin Lund Pedersen - Höskuldur Gunnlaugsson - Hrvoje Tokic
Varamenn:
Patrik Sigurður Gunnarsson(M) - Kolbeinn Þórðarson - Aron Bjarnason - Sólon Breki Leifsson - Ernir Bjarnason - Sindri Þór Ingimarsson - Willum Þór Willumsson
Sjúkralisti: Guðmundur Friðriksson (veikur) - Oliver Sigurjónsson (meiddur)
Leikbann: Enginn
Blikar með talsverðar breytingar á byrjunarliði frá síðasta leik. Guðmundur Friðriksson, sem átti prýðilegan leik á móti Fjölni um daginn, var að sögn veikur og í hans stöðu lék nú Viktor Örn og við hlið Damirs tefldu Blikar í dag fram nýjum leikmanni, Michee Efete, frá Kanarífuglunum í Norwich í Austur Anglíu, og verður ekki annað sagt en hann lofi góðu. Virðist vera alvöruleikmaður.
Blikar fóru skiljanlega nokkuð varfærnislega inn í þennan leik og ljóst að það var ekki ætlunin að keyra á útopnu á Stjörnumenn. Það hefur reyndar gefist ágætlega í gegnum tíðina að liggja til baka á móti þeim og sækja hratt á þá.
Fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill og leikmenn beggja liða frekar mistækir á köflum. Gestirnir meira með boltann og heldur hættulegri en Blikar fyrstu mínúturnar og náðu í tvígang að skapa hættu en Blikar redduðu sér fyrir horn í bæði skiptin. Okkar mönnum gekk illa að finna glufur hjá gestunum en baráttan var hinsvegar til háborinnar fyrirmyndar og menn fóru af hörku í návígin. Hinsvegar fengu gestirnir stundum full mikið pláss og tíma við vítateig okkar og það skapaði hættu. Besti möguleiki Blika fór forgörðum þegar Höskuldur og Tokic geystust upp völlinn en sá fyrrnefndi tók sér of langan tíma í að senda boltann og varnarmaður gestanna komst fyrir boltann. Þarna voru Stjörnumenn gripnir í bólinu og Höskuldur hefði átt að gera betur því þetta var upplagt færi.
Staðan jöfn í hálfleik og verður að segja að það var nokkuð í samræmi við gang leiksins.
Ýmislegt skrafað í hálfleikskaffinu. Menn og konur misbjartsýnir. Samdóma álit að nýi leikmaðurinn liti vel út. Vantar meira bit í sóknina. En það er jú það sem allir eru að tala um og sumir að smjatta á og kemur ekki til af góðu. Þar er enn verka að vinna.
Blikar byrjuðu seinni hálfleikinn þokkalega og áttu í fullu tré við gestina. Gekk nú aðeins betur að halda boltanum en náðu svosem ekki að skapa sér nein færi sem heitið getur. Stundum hélt maður að þetta væri alveg að koma, en það gekk ekki. En þegar síst varði varð vendipunktur og sá kom eiginlega upp úr þurru. Stjörnumenn sóttu á okkur og fengu nokkur horn sem okkar menn vörðust vel en svo bilaði einbeitingin, því uppúr einni slíkri barst boltinn út á kant þar sem leikmaður gestanna fékk allt of langan tíma til að moka boltanum inn í vítateig án þess okkar menn settu pressu á hann. Þar var einn þeirra aleinn og óvaldaður og náði föstum skalla í hornið án þess Gunnleifur kæmi vörnum við. Staðan orðin 0-1. Þarna sváfum við illa á verðinum og fengum á okkur alveg hræódýrt mark. Sjaldan er ein báran stök segir máltækið og það liðu aðeins fimm mínútur uns boltinn lá aftur í netinu hjá okkar mönnum. Gestirnir fengu dæmda vítaspyrnu þegar boltinn fór í hönd varnarmanns Blika. Ekki gott að segja hvort þetta var rétt eða rangt en dómarinn var ágætlega staðsettur og ekki mótmælti okkar menn, frekar en fyrri daginn. Gunnleifur varði vítaspyrnuna en frákastið lenti hjá Stjörnumanni sem kom boltanum í netið. Heppnisstimpill yfir þessu en staðan engu að síður orðin 0-2 og Blikar voru sem steini lostnir næstu mínúturnar. Næstu mínútur var bras á okkar mönnum og gestirnir fengu úrvals færi til að bæta við marki en skutu framhjá. Þegar 20 mínútur voru til leiksloka komu Aron og Sólon inn fyrir Viktor og Tokic og það skilaði marki nánast samstundis. Blikar náðu snarpri sókn og léku vel á milli sín við vítateig gestanna. Boltinn barst að lokum til Martins og hann sendi fastan bolta fyrir markið þar sem Aron kom og kláraði færið vel. Þetta var snaggaralega gert. Nú var eins og Blikar öðluðust smá trú á verkefnið á ný og færðist aukinn kraftur í þá við skiptingarnar. Gísli yfirgaf völlinn skömmu síðar og Ernir kom inn fyrir hann. Áfram héldu Blikar og þegar fimm mínútur voru til leiksloka munaði sárgrætilega litlu að þeir næðu að jafna metin þegar Michee skallaði hárfínt framhjá eftir hornspyrnu. En það reyndist síðasta færi okkar manna. Gestirnir náðu vopnum sinum á nýjan leik siðustu mínúturnar og gerðu út um leikinn í uppbótartíma, en þá voru okkar menn reyndar meira með hugann við að reyna að klóra í stigið en að verjast, skiljanlega. 1-3 tap var því staðreynd og var það nokkuð súrt svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Blikar eru enn án stiga eftir 3 umferðir og það er eitthvað sem allir ættu að taka alvarlega, jafnt leikmenn, stjórn og stuðningsmenn. Um leið er mikilvægt að fara ekki á taugum heldur halda sig við efnið, berja í brestina og þjappa sér saman. Það þarf að koma þjálfaramálunum á hreint sem fyrst og skapa ró í kringum liðið svo menn geti einbeitt sér að því sem skiptir mestu máli. Að koma liðinu á skrið. Þarf ekki að orðlengja það frekar.
Liðið var nokkuð jafnt í dag og menn voru að puða og berjast ágætlega lengst af en sjálfstraustið í liðinu er ekki alveg í botni og eins og oft er hjá liðum sem ströggla datt fátt með okkar mönnum. En hlutirnir geta verið fljótir að breytast og ekki ástæða til að örvænta. En nú reynir á.
Næsti leikur er á útivelli gegn Fylki í Borgunarbikarnum næstkomandi miðvikudag og hefst kl.19:15.
Þar gæti verið lag að snú genginu við. Það er ekki eftir neinu að bíða.
Við mætum og styðjum enn betur við okkar menn.
Áfram Breiðablik !
OWK