BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2025: Vestri - Breiðablik

25.04.2025 image

Okkar menn fljúga vestur á firði um helgina til að etja kappi við topplið Vestra á Kerecisvellinum á Ísafirði.

Flautað verður til leiks á kl.14:00 á sunnudaginn. 

Miðasala á leikinn er á Stubb 

Leikurinn verður sýndur á BD rás Stöðvar 2. 

Staðan í deildinni eftir 3 umferðir:


 

Sagan & Tölfræði

Íþróttafélagið Vestri er ungt félag - stofanð 16. janúar 2016 við sameiningu íþróttafélaganna BÍ88, KFÍ, Skellur og Sundfélagið Vestri, á Ísafirði. En upphaf Vestra má rekja til ársins 1986 þegar BÍ er stofnað. Þegar ÍBI er lagt niður árið 1987, og félagið fært undir Héraðssamband Vestur-Ísfirðinga, færðust flestir leikmenn ÍBÍ yfir til BÍ sem þá breytir nafni félagsins í BÍ 88 fyrir keppnistímabilið 1988. Átján árum síðar (2006) breytist nafn félagsins í BÍ/Bolungarvík og keppir undir því nafni þar til fjölgreinafélagið Vestri er stofnað árið 2016.

Gagnagrunnur blikar.is sýnir 8 innbyrðis viðureignir Breiðabliks og Vestra í öðrum mótum - fyrst árið 2011 þegar liðin mættust í 16-liða úrslitum Valitor-bikarsins á Torfnesvelli. Heimaliðið, þá BÍ /Bolungarvík, sló okkar menn út með öruggum 4:1 sigri. Liðin mætast svo aftur ári síðar í bikarnum, þá Borgunarbikarinn, og vinna okkar menn öruggan 5:0 sigur í 32-liða úrslitum á Kópavosgvelli.

Leikurinn á laugardaginn verður þriðja innbyrðis viðureign liðanna í efstu deild:

Leikmannahópurinn

image

Teymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Arnór Sveinn Aðalsteinsson. Eiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi Guðfinnsson. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Marinó Önundarson og Brynjar Dagur Sighvatsson. 

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki leiksins kemur frá Bolungarvík. Hann spilaði fótbolta á sumrin og stundaði skíði á veturna. Á þessum árum var ekki komið íþróttahús og fór því leikfimikennsla fram í félagsheimilinu, þar sem gólfflöturinn var 9x12 m. Til samanburðar er Smárinn 44,5x42,5 og Fífan 77,8*119,7m. Blikinn tók þátt í fyrsta leiknum sem Ungmennafélag Bolungarvíkur spilaði í 5 flokki og spilaði síðan með öllum flokkum upp í meistaraflokk sem markmaður. Blikinn varð formaður fjáröflunarnefndar deildarinnar 16 ára og síðan formaður félagsins 5 árum síðar. 

Á þessum árum voru lið á Þingeyri, Flateyri, Súgandafirði  og Hörður og Vestri á Ísafirði. Nú er sameiginlegt lið frá vestfjörðum; Vestri, þar sem tveir frændur mínir spila.

Mynd úr Vestfirska fréttablaðinu. Kristján Jónatansson formaður U.M.F.B. lengst til hægri á myndinni, við verðlaunaafhendingu á 17. júni hátíðarhöldum í Bolungarvík árið 1979.

SpáBlikinn tók við sem framkvæmdastjóri aðalstjórnar Breiðabliks í janúar 1996 og gegndi því starfi fram á mitt ár 2017. Þessi ár voru viðburðarrík í mannvirkjauppbyggingu á svæðinu. Tartan hlaupabraut var lögð á Kópavogsvöll, nýtt æfingasvæði var tekið í notkun(Blikavellir og kastsvæðið), Fífan byggð, ný stúka við Kópavogsvöll, og parket sett á Smárann svo eitthvað sé nefnt. Á þessu tímabili komu fyrstu íslands-og bikarmeistaratitlar mfl. karla í hús. Í lok árs 2022 var blikinn fenginn til að taka við sem rekstrarstjóri hjá Breiðabliki og gegnir því starfi í dag.

Kristján Jónatansson - Hvernig fer leikurinn?

Leikurinn fer 2-1 fyrir Breiðablik.

Áfram Breiðablik!

Dagskrá

Miðasala á leikinn á Ísafirði er á Stubb

Flautað verður til leiks á Kerecisvellinum kl.14:00 á sunnudaginn. 

Leikurinn verður sýndur á BD rás Stöðvar 2.  

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

PÓÁ

Mörk og atvik úr leik liðanna í Bestu deildinni á Kerecisvellinum í fyrra: 

Til baka