Bimm bamm bimm bamm bimbirimbi bimm bamm!
01.09.2023
Það er oft talað um að andrúmsloftið hátt yfir sjávarmáli sé þunnt. Þar er loftmótstaða mælanlega minni og súrefnishlutfallið lægra en í lofti við sjávarmál sem mætti þá kalla að væri þykkt. Við sjávarmál í Kópavogsdal var andrúmsloftið þrungið spennu og áþreifanlega þykkt af eftirvæntingu þegar Blikar fóru að tínast á völlinn á fimmta tímanum í dag, enda upp runninn mikilvægasti dagur í sögu karlaliðs Breiðabliks og þó víðar væri leitað. Sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu í boði, hvorki meira né minna.
Aðstæður voru hinar bestu, rúmlega tólf stiga hiti, gola af suðsuðaustri, skýjað, völlurinn smekkfullur og dúndrandi stemning þegar þýskur dómari þessa leiks blés til leiks.
Byrjunarlið Blika í dag sem hér segir;
Hér kemur byrjunarlið Breiðabliks í leiknum stóra gegn Struga????
— Blikar.is / Íslandsmeistarar 2022 (@blikar_is) August 31, 2023
Áfram Blikar, alltaf alls staðar! pic.twitter.com/5aI4qpFUce
Blikar byrjuðu með boltann og léku honum strax til baka, alla leiða til Antons Ara. Kunnuglegt tilbrigði við stefið ,,höldum boltanum“ o.sv. frv. Og það þurfti ekki að bíða lengi eftir því að Blikar næðu kærkominni forystu. Strax á 3ju mínútu komu Blikar askvaðandi upp hægri vænginn og Gísli renndi boltanum á Viktor Karl, hann reyndi fyrirgjöf en hún lukkaðist ekki og boltinn hrökk aftur til Viktors sem lék inn í teig og lét vaða á markið. Skotið þéttingsfast í bláhornið hægra megin. Það er til fólk sem veit fátt verra en skora svona snemma í leikjum. Það var hins vegar hvergi sjáanlegt og þakið bókstaflega rifnaði af stúkunni og allt ætlaði um koll að keyra. Staðan 1-0 fyrir Blika og 2-0 í einvíginu.
3. Mín. VIKTOR KARL ÞVILIKUR GÆJI
— Blikar.is / Íslandsmeistarar 2022 (@blikar_is) August 31, 2023
1-0!!! pic.twitter.com/h1YTxh12Pl
Gestirnir virtust eilítið vankaðir eftir þetta og létu lítt að sér kveða. Okkar menn fóru svo sem ekki með himinskautum en léku af öryggi og voru þéttir. Allt í lukkunnar velstandi þar til Struga menn fóru að færa sig eilítið upp á skafti og dæla boltum frá köntunum og inn í teig okkar manna, en vörnin sá við þessu og hirti allar fyrirgjafir og bægði hættu frá áður en hætta skapaðist. Blikar áttu líka spretti og í tvígang munaði litlu. Anton Logi næstum búinn að setja Jason í gegn en boltinn varð honum að fótakefli og ekkert varð úr. Skömmu síðar prjónuðu Höskuldur og Jason og sá síðarnefndi komst upp að endamörkum og átti góða sendingu fyrir markið en Klæmint var hársbreidd frá að ná til knattarins. Og enn skall hurð nærri hælum þegar Blikar fengu aukaspyrnu utan við teig gestanna og Oliver átti góða sendingu á Damir sem var í fínu færi en í stað þess að skalla á markið sendi hann fyrir markið, en þar var enginn samherji til að taka við. Skömmu síðar átti Viktor hörku skot á markið en markmaður varði vel. Mikil keyrsla og návígi um allan völl og hart barist á löngum köflum. Gestirnir ekki að skapa mikið og vörn Blika þétt. Það var svo Jason sem átti síðasta orðið fyrir leikhlé þegar hann átti bylmingsskot eftir sendingu Viktors Karls. Snaggaralega að verki verið en skotið naumlega yfir markið. Skömmu síðar blés sá þýski í flautuna til merkis um leikhlé.
Blikar með góða stöðu og loftið heldur þynnra í dalnum en fyrir leik. Glampi í augum stuðningsmanna sem voru farnir að finna lykt af riðlakeppninni. Flestir á því að Blikar væru með góð tök á leiknum en aðalmálið að halda hreinu. Mótherjarnir bæði flinkir og hreyfanlegir, einkum upp við teiginn hjá okkur. Mest að gerast sóknarlega í kringum þennan #9.
Gestirnir gerðu breytingu á liði sínu í hálfleik en Blikar með óbreytt lið.
Okkar menn byrjuðu síðari hálfleik af ágætum krafti og Anton Logi var í tvígang nærri því að bæta við forystuna. Í fyrra skiptið var varið frá honum en í seinna færinu fór boltinn naumlega framhjá. Og það var eins og við manninn mælt að Struga menn færðu sig nú upp á skaftið og gerðu allharða hríð að marki Blika en sem fyrr voru okkar menn vel á verði. Næstu mínútur var hart barist en lítið um færi. Blikar fóru í tvöfalda skiptingu og settu Kristófer Inga inn fyrir Klæmint og Davíð inn fyrir Anton Loga. Struga menn skiptu einnig inná. Skömmu síðar kom Ágúst Hlynsson inn fyrir Andra Rafn sem var kominn með krampa. Ágúst var fljótur að láta til sín taka og átti fína sendingu fyrir markið á Viktor Karl en honum brást bogalistin en kom svo boltanum á Kristófer sem átti skot á mark en það var laust og beint í hendurnar á markmanninum. Skömmu síðar fór Jason illa með varnarmenn gestanna og náði skoti en það fór í stöngina og út í teig og þar var Ágúst mættur en gestirnir náðu að bjarga. Blikar reyndu hvað þeir gátu að bæta við marki og síðast sensinn fékk Ágúst en Struga menn komust fyrir skotið. Og þegar 4 mínútur voru liðnar í uppbótartíma flautaði sá þýski til leiksloka og Blikar fögnuðu vel og innilega stærsta sigri sem íslenskt félagslið hefur unnið og voru þar með fyrstir íslenskra karlaliða til að ná sæti í riðlakeppni UEFA.
Öll stúkan söng og trallaði og það var magnað og gaman að sjá innilegan fögnuð leikmanna og allra sem eru í kringum liðið inni á vellinum. Þetta var þeirra stund, sem við hin fengum að njóta með þeim. Takk fyrir það. Og svo var partí í stúkunni og flugeldasýning í eftirrétt.
Það verður spennandi að sjá hvað kemur upp úr hattinum á morgun þegar dregið verður í riðla Sambandsdeildarinnar.
Hver er að berja?
Bimbi rimbi bimm bamm?
- Breiðablik!
Framundan er sannkölluð fótboltaveisla og hún hefst á sunnudag kl. 14:00 þegar Blikar taka á móti FH í 22.umferð Bestu deildarinnar. 3 stig væru næs.
Fjölmennum á leikinn og styðjum okkar frábæra lið í verki.
Áfram Breiðablik !
OWK
Það er Evrópupartý í stúkunni á Kópavogsvelli. pic.twitter.com/XQSHtDUkbC
— Blikar.is / Íslandsmeistarar 2022 (@blikar_is) August 31, 2023
CELEBRATION time í klefannum eftir leik. Menn tóku á því. Europe here we come ???????????? pic.twitter.com/zSHc9DfAAE
— Blikar.is / Íslandsmeistarar 2022 (@blikar_is) August 31, 2023