BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar í gjafastuði

27.01.2017

Blikar voru í miklu gjafastuði gegn FH-ingum í síðasta leik á Fótbolta.net mótinu. Strákarnir okkar færðu Fimleikadrengjunum að minnsta kosti þrjú mörk í leiknum á silfurfati og hentu síðan inn einu víti í kaupbæti. Það gengur auðvitað ekki ef menn ætla að ná árangri  á vellinum. En mörk okkar pilta sem Gísli og Sólon settu voru flott og leikurinn fer í reynslubankann hjá ungum leikmönnum Blika þrátt fyrir 2:4 tap liðsins. Mörkin úr leiknum.

Varnarlína Blikaliðsins var eitthvað sofandi fyrstu mínútur leiksins.  Íslandsmeistararnir gengu því á lagið og skoruðu tvo ódýr mörk þrátt fyrir góð tilþrif Gulla í markinu. En Gísli Eyjólfs dreif Blikaliðið áfram, lagði upp gott færi fyrir Sólon og minnkaði síðan muninn um miðjan hálfleikinn.

FH byrjaði síðari hálfleikinn af krafti en smám saman komust okkar drengir betur inn í leikinn. En eins og oft áður vantaði meiri kraft í sóknarlínuna og náðum við ekki að fylgja yfirburðum úti á vellinum eftir. Þvert gegn gangi leiksins fengu gestirnir síðan víti og staðan því allt í einu orðin 1:3. En Sólon setti gott mark strax í næstu sókn og nokkur spenna hljóp í leikinn á nýjan leik. Þá gerðust okkar drengir mjög gjafmildir og færðu FH-ingum fjórða markið á silfurfati skömmu fyrir leikslok. Lokastaðan því 2:4.

Þrátt fyrir tapið getum við tekið ýmislegt jákvætt frá leiknum. Gulli var kvikur í markinu, Gummi Friðriks var frískur í bakverðinum og Gísli Eyjólfs var góður á miðjunni. Willum og  Ernir komu inn á sem varamenn og sýndu það og sönnuðu að þeir eru eiturgóðir knattspyrnumenn. Sólon skoraði annan leikinn í röð og er að vaxa og dafna sem framlínumaður. Leikurinn í heild á SportTV.

Höskuldur er byrjaður að æfa eftir meiðsli og Viktor Örn Margeirsson er nýkominn úr aðgerð. Hann ætti að vera kominn  á kreik eftir 4-6 vikur. Nýjasti meðlimur Bikaliðsins, Aron Bjarnason, á við smávægileg meiðsli að stríða en ætti fljótlega að vera kominn á fullt með liðinu. Króatinn Tokic kemur síðan til landsins eftir rúma viku þannig að hópurinn er þvi smám saman að taka á sig mynd.

-AP

Til baka