Blikar seldir milli landa
19.01.2017Tveir af félögum okkar í atvinnumennsku, Árni Vilhjálmsson og Sverrir Ingi Ingason, hafa verið seldir milli landa á síðustu dögum. Árni fór frá Lilleström í Noregi til Jönköpings Södra IF í sænsku úrvalsdeildinni. Sverrir Ingi færir sig hins vegar úr vetrarkuldanum í Belgíu í sólina á Spáni. Það er spænska stórliðið Granada sem kaupir Blikann frá Lokeren. Óstaðfestar fréttir herma að Spánverjarnir greiði um 180 milljónir fyrir varnarmanninn stæðilega.
Sverrir varð þar með fimmti leikmaðurinn úr unglingastarfi Blika sem er að spila í stærstu 6 deildum Evrópu.
Þeir félagar taka þarna skemmtileg stökk upp á við í ferlinum sínum. Árni fær tækifæri til að sýna takta í framlínunni í Svíþjóð en Sverri Inga er falið að styrkja vörn spænska liðsins.
Blikar óska þeim báðum til hamingju með söluna. Það verður gaman að fylgjast með þessum öflugu knattspyrnumönnum næstu misserin.