BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blóðs er þörf!

01.07.2013

Blikar mættu Frömurum í gær með nokkuð breytt lið frá leiknum gegn Val á dögunum. Elfar Árni var í leikbanni vegna fjögurra gulra spjalda og Finnur Orri var meiddur. Árni Vill kom inn í liðið í stað Elfars og Jökull kom inn í stað Finns. Að öðru leyti var óbreytt liðsskipan.

Byrjunarliðið okkar var því þannig skipað;

Gunnleifur
Þórður Steinar  – Sverrir Ingi (F) – Renee Troost – Kristinn Jónsson
Ellert – Jökull  - Andri Yeoman  - Guðjón Pétur Lýðsson
Nichlas Rohde - Árni

Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Tómas Óli Garðarsson
Páll Olgeir Þorsteinsson
Ósvald Jarl Traustason
Viggó Kristjánsson
Olgeir Sigurgeirsson
Atli Fannar Jónsson

Sjúkralisti;  Gísli Páll Helgason – Rafn Andri Haraldsson - Finnur Orri Margeirsson

Leikbann ; Elfar Árni Aðalsteinsson

Sjá leikskýrslu HÉR:

Aðstæður til knattspyrnuiðkunar  voru sérdeilis frábærar í gær.  16°C hiti og bjartviðri með hæglætis  golu og sjálfur völlurinn í toppstandi. Gerist ekki betra.  En áhorfendur voru því miður vel innan við þúsundið og er það því miður engin nýlunda þegar leikið er í Laugardalnum.

Blikar byrjuðu ágætlega og komust í ágætt færi eftir nokkura mínútna leik en Kristinn hitti ekki rammann  í ágætu færi eftir laglegt spil. Þetta reyndist hinsvegar síðasta marktilraun Blika í fyrri hálfleik og næstu 35 mínútum vilja Blikar gleyma sem allra fyrst því það var sennilega slakasta frammistaða liðsins í háa herrans tíð. Verður ekki fjölyrt frekar um þau ósköp að sinni en þó skal geta þess að Framarar skoruðu úr einu af sínum fjölmörgu og þó nokkuð góðu marktækifærum en Gulli hélt okkur á floti og inni í leiknum með miklum tilþrifum á köflum. Blikar stálheppnir að liggja aðeins 1-0 undir í hálfleik.
Eins og vænta mátti var margt skeggrætt í hléinu og voru menn sem fyrr lausnamiðaðir og lítið um sleggjudóma og eftiráspeki. Fjölmiðlar með mjölfiðlur á kaupi sjá um það. Það ber þó að geta þess að þeir stuðningmenn Blika sem örvæntingarfyllstir voru, voru báðir við efri sturlunarmörk .
Að öðru leyti voru menn ekki alveg með lausnirnar á tæru, en höfðu þó ekki ímyndunarafl til að láta sér detta í hug að seinni hálfleikur yrði lakari en sá fyrri hjá okkar mönnum. Það reyndist heldur ekki raunin, því okkar menn komu mun hressari inn í siðari hálfleik. Hvert færið á fætur öðru rak á fjörurnar en þau runnu  jafnharðan úr greipum okkar. Einkum var Nichlas iðinn við að koma sér í færin en honum var fyrirmunað að koma tuðrunni í netið. Ennfremur fékk Tómas Óli, sem kom inná í hálfleik og frískaði mjög upp á leik Blika, mjög gott færi en nú var markvörður Frammara kominn í aðalhlutverkið. Inn á milli fengu Framarar nokkrar skyndisóknir og í tvígang voru þeir bláu nærri því að bæta við marki en sem fyrr var Gulli vel með á nótunum og bjargaði vel. Okkar menn þyngdu sóknina eftir þvi sem leið á leikinn og fækkuðu í vörninni þegar Olgeir kom inn í stað Þórðar Steinars, enda Framarar sestir mjög aftarlega á völlinn og freistuðu þess að halda fengnum hlut. Enn fengum við færi en ekki gekk rófan, eins og þar stendur. Páll Olgeir kom inn fyrir Árna þegar 10 mínútur voru eftir og enn hömuðust okkar menn á heimamönnum. Og þar kom að stíflan brast. Guðjón Pétur átti góða sending inn fyrir vörn Fram á Olgeir sem kom askvaðandi ,,úr djúpinu” ,eins og rándýrir boltaspekingar segja stundum. Olli var ískaldur í færinu og lyfti boltanum yfir úthlaupandi markmanninn. Vel gert hjá Olla. Staðan orðin jöfn og Blikar lögðu nú kapp á að ná í öll stigin. Nichlas fékk enn eitt færið en sem fyrr varði Ögmundur vel. Í blálokin héldu svo Blikar að þeir hefðu tryggt sér sigurinn þegar Kristinn tróð knettinum í markið, en dómarinn dæmdi tilþrif Kidda ólögleg og markið því ekki gilt. Sennilega réttur dómur.

Jafntefli því niðurstaðan í ótrúlega sveiflukenndum leik. Okkar menn nánast ekki með í fyrri hálfleik en sneru taflinu við í hálfleik og áttu seinni hjálfleikinn. En einsog leikurinn spilaðist megum við þakka fyrir eitt stig , því við hefðum ekki varla getað kvartað þó staðan í hálfleik hefði verið 3-4 núll fyrir heimamenn. En það er samt alveg jafn djöfullegt að ná ekki þrem stigum í gær því nú eru 8 stig í toppinn.  

Vonandi hafa leikmenn ekki haldið að þetta kæmi af sjálfu sér. Það var á löngum köflum eins og blóðið rynni ekki í mönnum. Boltar og návígi töpuðust, allan fyrri hálfleik eins og ekkert væri sjálfsagðara og maður hefði haldið að mönnum rynni blóðið til skyldunnar, eða a.m.k. til höfuðsins, og gæfu dauðann og djöfulinn í þetta þegar um þverbak keyrði. Það er eitt að eiga slakan leik af og til, og hendir alla, en það er algerlega óásættanlegt að menn dauðyflist inná vellinum langtímum saman án þess að reisa rönd við. Þetta var toppbarátta “for helvede!”  Og þetta gildir um liðið í heild. Menn verða heldur betur að herða sig ef þeir ætla að berjast þar. Það er ekki nóg að vera bara alltaf yfirmáta kúl, stundum þarf að spila með hnúum og hnefum.

Stuðningsmenn Blika voru í ríflegum meirihluta á vellinum í gær án þess að vera neitt tiltakanlega margir. Hvað veldur þessu fámenni veit ég ekki með vissu en það er eftirtektarvert hvað illa er mætt á leiki á þjóðarleikvanginum.  Varla er það tilviljun ein.
Í hinni frábæru og sígildu bók Hannesar Hólmsteins, Íslandsklukkunni,  segir frá því þegar Snæfríður Íslandssól heimsækir heimilisfólkið á Efri –Reyni í Akraneshreppi  með Arnas Arnaeus(i) sem var þar í bókaleit. Þar er húsakostur heldur ókræsilegur, dimmt inni og daunillt. Henni er verulega brugðið og hið ljósa man mælir hin fleygu orð; ,,Vinur því dregur þú mig inn í þetta skelfilega hús?”
Einhverra hluta vegna dettur mér þessi  lýsing alltaf í hug þegar ég kem á Þjóðarleikvanginn í Laugardal. Að vísu er ekki tiltakanlega slæm lykt á vellinum, nema maður sé kannski mjög óheppinn með sessunaut, og það er þá sennilega aðkomumaður (les: ekki Bliki), en þetta er algjörlega misheppnað sem knattpyrnuleikvangur og sem slíkt hið ,,skelfilegasta hús”. Alveg sálarlaust. Jafnvel verra en Kórinn og er þá langt jafnað. Mistök. Það væri óskandi að Fram eignaðist annan heimavöll sem allra fyrst, völl með sál. Það hefði bóndinn á Efri - Reyni sennilega kallað nauðsyn, og var nú ekki mulið undir hann.

Næsti leikur okkar manna er í Evrópukeppninni gegn Andorramönnum í Santa Coloma. Þar verða frumsýndir glænýir búningar fyrir keppnina og  aldrei að vita nema það verði líka legghlífar og brúklegir takkaskór. En stóra spurningin er hvort leikmenn mæta sjálfir til leiks.
Það verður vonandi meira stuð á þeim en í gær og þá gæti þetta orðið gaman fyrir alla.

Úr því fæst skorið á fimmtudaginn kl.19:15.


Áfram Breiðablik !

OWK 

Til baka