Bologna gengur frá kaupum á Andra Fannari
09.08.2019Miðjumaðurinn ungi og efnilegi Andri Fannar fór á láni til Bologna í janúar á þessu ári. Á meðan lánstímanum stóð átti Bologna forkaupsrétt á leikmanninum. Andri Fannar stóð sig afar vel á lánstímanum og hefur ítalska félagið nú fest kaup á leikmanninum.
Andri Fannar sem er 17 ára gamall er einn efnilegasti leikmaður landsins. Mörg lið voru á eftir Andra Fannari fyrr á þessu ári en Andri valdi að fara til Bologna. Félagið hefur orðið ítalskur meistari sjö sinnum en þetta fornfræga félag er fimmta sigursælasta félag Ítalíu frá upphafi. Bologna endaði í 10. sæti í efstu deild á síðastliðnu keppnistímabili.
Andri Fannar spilaði fjóra leiki með U17 ára liði Bologna á síðasta keppnistímabili og skoraði þrjú mörk ásamt því að leggja upp fjögur áður en hann var færður upp í varalið Bologna. Á komandi tímabili stendur til að Andri Fannar muni æfa og spila með varaliði Bologna en Andri hefur þó einnig fengið að æfa með aðalliði félagsins.
Andri Fannar lék sinn fyrsta leik í Pepsi-deildinni í lokaumferðinni síðasta sumar aðeins 16 ára og er á meðal yngstu leikmanna til þess að spila í efstu deild með Blikum frá upphafi. Andri Fannar hefur verið fastamaður í yngri landsliðum Íslands og hefur leikið 29 landsleiki og skorað 4 mörk.
Það verður spennandi að fylgjast með þessum efnilega leikmanni í framtíðinni.
Við óskum Andra Fannari góðs gengis á Ítalíu.