BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Borghildur endurkjörin formaður

08.03.2016

Aðalfundur knattspyrnudeildar Breiðabliks var haldinn í glersalnum í stúkunni við Kópavogsvölll þriðjudaginn 8. mars. Vel var mætt á fundinn og voru umræður líflegar. Borghildur Sigurðardóttir var endurkjörinn formaður deildarinnar með lófataki. Aðrir í stjórn voru kosin Vilhelm Þorsteinsson varaformaður, Gunnar Þorvarðarson gjaldkeri, Willum Þór Þórsson meðstjórnandi, Ásta Lárusdóttir formaður meistaraflokksráðs kvenna, Snorri Arnar Viðarsson formaður meistaraflokksráðsk karla og Ólafur Hrafn Ólafsson formaður unglingaráðs. Willum Þór, Snorri Arnar og Ásta voru kosin í stjórn í fyrsta sinn. Bjarni Bergsson og Ólafur Lúther Einarsson voru kosnir í varastjórn. 

​Rekstur deildarinnar var viðamikill á síðasta ári og veltan rúmlega 265 milljónir. Með góðri stjórnun tókst að halda rekstrinum réttu megin við núllið og var gerður góður rómur að þeim árangri stjórnarinnar.  Arnar Grétarsson og Kristófer Sigurgeirsson þjálfarar meistaraflokks karla sögðu frá meistaraflokknum og stöðu hans. Halldór Arnarson í meistaraflokksráði kvenna sagði frá stelpunum og væntingum sumarsins. Greinilegt að menn eru bjartsýnir á árangurinn í sumar. 

Í ræðu Borghildar formanns kom fram að árangur síðasta árs var einn sá glæsilegasti í sögu deildarinnar. Hún þakkaði Jóni S. Garðarssyni og Halli Ólafi Agnarssyni fyrir þeirra góðu störf í meistaraflokkráðum karla og kvenna en hvorugur þeirra gaf kost á sér aftur til starfa. Eysteinn framkvæmdastjóri sýndi stutt myndband sem Daði Rafnsson hafði sett saman um glæsilegan árangur síðasta sumars.

-AP

Til baka