BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik og Fylkir gerðu jafntefli í fyrsta leik sumarsins

14.05.2012

Á sunnudaginn síðastliðin mættust Breiðablik og Fylkir í fjörugum leik á Kópavogsvelli. Veðurguðirnir voru hvorki leikmönnum né áhorfendum hliðhollir því stífur NA vindur var á Kópavogsvellinum sem setti mark sitt á leikinn. Þrátt fyrir rokið náðu Blikastúlkur engu að síður að halda boltanum vel innan liðsins og sköpuðu sér nokkur marktækifæri í fyrrihálfleik. Í hálfleik hafði þó hvorugu liðinu tekist að skora.
Blikar byrjuðu seinni hálfleikinn af nokkrum krafti og náðu nokkrum góðum fyrirgjöfum í byrjun síðari hálfleiks en blikar náðu því miður ekki að nýta sér þær og koma boltanum í markið. Fylkiskonur minntu svo á sig en á 51. mín komst Anna B. Bergþórsdóttir, leikmaður Fylkis, í sannkallað dauðafæri þar sem skot hennar endaði í þverslánni.
Fljótlega eftir skot Önnu fengu Blikar hornspyrnu sem Fanndís Friðriksdóttir tók, boltinn lenti í miðjum vítateig Fylkis þar sem Rakel Hönnudóttir var mætt og þrumar boltanum viðstöðulaust í mark Fylkis. Glæsilegt mark hjá Rakel og Blikarnir komnir í 1-0.
Á 63. mín leiksins fær Hrafnhildur Hekla leikmaður Fylkis gult spjald eftir glórulaust brot á markaskorara Breiðabliks, Rakel Hönnudóttir. Þegar stundar fjórðungur var eftir af leiknum fengu Fylkiskonur aukaspyrnu fyrir utan teig, Blikastúlkur koma boltanum afturfyrir endamörk og í kjölfarið fá Fylkisstúkur hornspyrnu. Fyrirliði Fylkis, Hrafnhildur Hekla Eiríksdóttir var réttur maður á réttum stað og kom boltanum sannfærandi yfir marklínu Breiðabliks með góðum skalla og jafnaði leikinn.
Litlu munaði svo að Breiðablik næði að tryggja sér sigur í leiknum eftir misskilning hjá varnarmanni og markverði Fylkis þar sem Rakel Ír átti gott skot að marki Fylkis sem endaði í hliðarnetinu. Stuttu síðar spilaði dómarinn á flautuna og niðurstaða leiksins því 1-1 jafntefli.

Breiðablik 1-1 Fylkir:
1-0 Rakel Hönnudóttir ('55)
1-1 Hrafnhildur Hekla Eiríksdóttir ('76)

Hægt er að skoða leikskýrslu á vef ksi hér.
Einnig er hægt að sjá stöðu og úrslit annarra leikja á vef ksi hér.

Til baka