- Þessir heiðursbræður; Þórarinn, Hinrik og Einar Þórhalls og Huldusynir, verða heiðursgestir Blika á leiknum á morgun. Þeir bræður spiluðu samtals um 450 leiki fyrir meistaraflokk Breiðabliks á árunum 1969 -1985. Einar og Hinrik spiluðu landsleiki fyrir Íslands hönd og Einar var lengi fyrirliði meistaraflokksins. Myndin af þeim bræðrum er að sjálfsögðu tekin af þeim fyrir nokkrum dögum á hinum margfræga Vallargerðisvelli. Mynd: AP
- Ólafur H. Kristjánsson stýrir Blikaliðinu í 250. sinn í keppni. Mynd: HVH
Breiðablik - ÍBV sunnudag kl 17:00
27.07.2013Á sunnudag kl. 17.00 mætast Pepsí-deildarlið Blika og ÍBV á Kópavogsvelli. Bæði lið koma úr frekar erfiðum Evrópuleikjaprógrammi þar sem við unnu frækinn sigur á Sturm Graz frá Austurríki en Eyjamenn gerðu markalaust jafntefli gegn sterku liði Rauðu Stjörnunnar frá Serbíu. Hlutskipti þessara liða er samt nokkuð ólíkt. Blikar halda til Kazakstan á þriðjudag í næstu umferð Evrópukeppninnar og mæta svo Frömurum í undanúrslitum Borgarbikarkeppninnar á sunnudaginn kemur. Eyjamenn eiga léttara prógramm framundan því þeir eru dottnir úr bikarkeppninni en mæta samt sterku liði FH-inga á laugardag í miðri Þjóðhátíð þeirra Eyjamanna. Það má því búast við metmætingu á Hásteinsvöll á laugardaginn. Vonandi eru Eyjapeyjar komnir með hugann við þennan leik
Þetta er 11. leikur Breiðabliks, undir stjórn Ólafs H. Kristjánssonar, gegn ÍBV í efstu deild. Bæði lið hafa sigrað í þrígang og jafnteflin eru fjögur.
Þeir grænklæddu eiga harma að hefna frá fyrri umferðinni þar sem Eyjaskeggjar fóru illa með okkar menn og lögðu okkur 4:1 í reyndar frekar jöfnum leik! Við klúðruðum víti í stöðunni 1:0 og það er mál manna að ef við hefðum skorað úr vítinu þá hefðum við líklegast unnið leikinn. En það er þetta með ef og hefði að það þýðir ekki að gráta Björn bónda heldur safna liði og hefna hans. Það er akkúrat það sem Blikaliðið ætlar að gera með öflugum stuðningi áhorfenda!
Heiðursgestir á leiknum verða bræðurnir Einar, Hinrik og Þórarinn Þórhalls- og Huldusynir. Þeir bræður spiluðu samtals um 450 leiki fyrir meistaraflokk Breiðabliks á árunum 1969 -1985. Einar og Hinrik spiluðu landsleiki fyrir Íslands hönd og Einar var lengi fyrirliði meistaraflokksins.
Svo má ekki gleyma einni mjög áhugaverðri tölfræði en hún er að þetta er 250. leikur sem Ólafur H. Kristjánsson stýrir Blikaliðinu í keppni. Til hamingju með það Óalfur.
Nú verða allir Blikar að mæta og sýna Evrópuhetjunum okkar alvöru stuðning. Látum hljóma margraddað um Kópavogsdalinn ,,Áfram Breiðablik, alltaf, alls staðar“ !
-AP