Brynjólfur til Noregs
09.03.2021Knattspyrnudeild Breiðabliks og norska liðið Kristiansund hafa náð samkomulagi um kaup Norðmannanna á framherjanum öfluga Brynjólfi Andersen Willumssyni. Norskir fjölmiðlar hafa sagt frá þvi að Brynjólfur sé dýrasti leikmaður sem Kristiansund hefur keypt. Knattspyrnulið borgarinnar hefur verið á uppleið undanfarin ár. Það vann sér sæti í efstu deild árið 2017 og hefur smám saman verið að bæta stöðu sína í deildinni. Liðið lenti í fimmta sæti í deildinni í fyrra og ætlar sér stóra hluti í framtíðinni. Margir góðir knattspyrnumenn hafa komið frá félaginu og er Ole Gunnar Solskjær líklegast þeirra þekktastur.
Brynjólfur sem er tvítugur að aldri á að baki 75 leiki með meistaraflokki Breiðabliks og hefur skorað 24 mörk í þeim leikjum. Hann á einnig 22 landsleiki að baki með yngri landsliðum Íslands. Þeir munu sjálfsagt verða fleiri því Brynjólfur hefur verið hluti af hinu sterka U-21 árs liði Íslands sem tekur þátt í lokakeppni EM í knattspyrnu í næsta mánuði í Ungverjalandi og Slóvakíu. Gera má ráð fyrir að Brynjólfur æfi áfram í Breiðabliki í einhvern tíma áður en hann heldur til Noregs.
Það verður gaman að fylgjast með þessum hæfileikaríka og öfluga leikmanni taka næstu skref í þróun sinni sem knattspyrnumaður hjá frændum okkar í Noregi.
Kristiansund Stadion - nýi heimavöllur Brynjólfs í Noregi:
Kristiansund Stadion